Tróðu illsakir Borg og lögregla brugðu beittum skeytum.
Tróðu illsakir Borg og lögregla brugðu beittum skeytum. — Skjáskot/Plan Norge
Norskir fjölmiðlar keppast nú við að deila skjáskotum af SMS-skeytum sem þeir hafa komist yfir milli Hanne Gjørtz, upplýsingafulltrúa Óslóarborgar, og lögreglunnar.

Norskir fjölmiðlar keppast nú við að deila skjáskotum af SMS-skeytum sem þeir hafa komist yfir milli Hanne Gjørtz, upplýsingafulltrúa Óslóarborgar, og lögreglunnar. Í skeytunum deilir upplýsingafulltrúinn harkalega á lögreglu fyrir að leggja til, og í raun fyrirskipa, að gleðingöngu Oslo Pride-hátíðarinnar skyldi aflýst eftir skotárás hins norsk-íranska Zaniar Matapour í miðbæ Óslóar aðfaranótt 25. júní.

„Við upplifum þetta þannig að fræjum efans hafi verið sáð um öryggi á götu í Ósló og skiljum ekki að lögreglan átti sig ekki á því hve mikill stórviðburður þarna var á ferð,“ skrifar Gjørtz.

Lögregla kaus að ögra ekki

Þrátt fyrir að göngunni hefði verið aflýst komu þúsundir saman 25. júní og gengu þá leið sem gangan ellegar hefði farið um. Mánudaginn 27. júní var í stað atburða helgarinnar ákveðið að blása til samkomu hinsegin fólks við ráðhúsið niðri við Aker-bryggjuna. Hvatti Raymond Johansen, formaður borgarráðs Óslóar, alla sem vettlingi gætu valdið til að sýna sig þar og um leið samstöðu sína við hinsegin fólk og baráttu þess.

Ekkert varð heldur af þeirri samkomu þar sem lögreglan taldi á henni öll tormerki og kvað íslömskum öfgamönnum og hugsanlegum árásarmönnum ögrað með því að hinsegin fólk, eitur í beinum íslamskra öfgasinna, kæmi saman til að sýna samstöðu.

Johansen féllst að lokum á ráðleggingar lögreglu og skrifaði á Facebook að eina vitið væri að bíða um sinn með frekari samkomur.