Guðmundur Arnfinnsson yrkir og kallar „Enginn göngufótbolti (stjórnarliðar versus stjórnarandstöðu)“: --Fast er nú spilað um víðan völl, varist og sótt af kappi, í blússandi stuði þau eru öll og eiga í þrálátu stappi. ...

Guðmundur Arnfinnsson yrkir og kallar „Enginn göngufótbolti

(stjórnarliðar versus stjórnarandstöðu)“:

---

Fast er nú spilað um víðan völl,

varist og sótt af kappi,

í blússandi stuði þau eru öll

og eiga í þrálátu stappi.

...

Kata er illskeytt og árásargjörn

og eldrauður Grímur í marki,

Brynjar á kanti, en Bjarni í vörn

boltanum trúi ég sparki.

...

Logi er fljótur og fylginn sér

og fer eins og logi um akur,

Sigmundur þvælist þar og hér,

og þeygi er Siggi spakur.

...

Þorgerður dómari þykir keik,

en þó mun ei hlutlaus vera.

Enginn veit, fyrr en lýkur leik

hver lárviðarsveig mun bera.

Ármann Ólafsson fékk „svartsýnis kast“ 4. júní:

Ævilínan illa teygð

ellimörk þið sjáið

að mér sækir eflaust feigð

eins og búast má við.

Eldast stöðugt allir menn

ætíð þannig gengur

dauður karlinn ekki enn

eitthvað hjari lengur.

Anton Helgi Jónsson yrkir að gefnu tilefni:

Það segir víst enginn að lífið sé létt

að laun séu vitlaus er alls engin frétt

en fái ég ofgreitt skal reiknast sem rétt

hið ranga ef ég er í dómarastétt.

Freyðiveig eftir Sturlu Friðriksson:

Í fossinunm froðuspræna

freyðir, ólgar og skín,

sem falli um flöskugræna

flúðina kampavín.

Hún klettanna varir vætir.

Virðast í löngum teyg

hyljirnir silfursætir

súpa þá guðaveig.

Limra eftir Kristán Karlsson:

Mælti Álfheiður Engifer,

„ég verð áttræð í nóvember.

En ég fer ekki héðan

nema fái ég sleðann

sem faðir minn lofaði mér.“

Antoníus H. Sigurðsson Djúpavogi kvað:

Yfir fjölskreytt eyjaband

andar blærinn hlýi.

Er nú bjart um Austurland,

ekki brot úr skýi.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is