Höfuðeinkenni íslenskra stjórnmála er hvað þau ráða illa við að fjalla um grundvallarstefnu. Þetta á við í mörgum mikilvægum málaflokkum, t.d. afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu og rekstrarforms í heilbrigðiskerfinu.

Höfuðeinkenni íslenskra stjórnmála er hvað þau ráða illa við að fjalla um grundvallarstefnu. Þetta á við í mörgum mikilvægum málaflokkum, t.d. afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu og rekstrarforms í heilbrigðiskerfinu.

Opinber áfengisstefna virðist ætla að hljóta þessi sömu örlög. Að undanförnu hefur umræðan aðallega snúist um smásölu áfengis á netinu. Vangaveltur um netsöluna eru að mörgu leyti skiljanlegar en þær taka aðalatriði áfengisstefnunnar úr brennidepli stjórnmálanna, þ.e.a.s. hvort Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins eigi áfram að vera handhafi einkaleyfis til smásölu áfengis á Íslandi.

Málið snýst um fleira en frelsi í viðskiptum, annars væri það einfalt viðureignar. Opinber áfengisstefna hefur áratugum saman haft það að markmiði sínu að takmarka aðgengi almennings að áfengum drykkjum og reyna þannig að draga úr þeim skaða sem óhófleg neysla getur valdið einstaklingum og samfélagi. „Áfengisdrykkja er ekki einkamál,“ má lesa á vef landlæknisembættisins og segja má að þar kjarni landlæknir í einni setningu þau skaðlegu áhrif sem ofneysla getur valdið.

Áhersla á forvarnir gegn vímuefnanotkun skiptir síst minna máli en fyrirkomulag sölu áfengis. Samtaka tókst okkur að draga úr unglingadrykkju svo eftir hefur verið tekið. Við vitum að hvert ár sem ungt fólk bíður með að hefja neyslu áfengis getur gert gæfumuninn og æ fleiri ungmenni kjósa edrú lífsstíl. Nýlega hafa komið fram upplýsingar um vaxandi áfengisdrykkju gamals fólks. Það er áhyggjuefni.

Sem betur fer eykst skilningur fólks á gildi skaðaminnkandi nálgunar á vímuefnanotkun, s.s. að gera vörslu neysluskammta vímuefna refsilausa. Þá hefur vitneskja um áhrif áfalla á lífsleiðinni á notkun vímuefna stóraukist á undanförnum árum. Á engan er hallað þó sérstaklega sé getið framlags Rótarinnar – félags um velferð og lífsgæði kvenna – í þeim efnum.

Ég var ein þeirra sem samþykktu undanþágu frá áfengislögum um sölu áfengra drykkja á framleiðslustað, þ.e. hjá litlum brugghúsum, á síðasta þingi. En ég hef ekki myndað mér endanlega skoðun á því hvort afnema eigi einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis og vil taka skýrt fram að stefna Samfylkingarinnar kveður ekki á um afnám þess.

Haft var eftir forstjóra ÁTVR í Viðskiptablaðinu að valið snerist um að halda núverandi áfengisstefnu sem hann telur hafa „stuðlað að auknu heilbrigði íslenskra ungmenna, minni áfengisneyslu og betri lýðheilsu og almannaheill eða leggja áfengisstefnuna til hliðar og gefa smásölu áfengis alfarið frjálsa. Í þessum efnum verður ekki bæði sleppt og haldið.“ Ég tek undir þessi orð og legg til að stjórnmálafólk og flokkar axli þá samfélagslegu og pólitísku skyldu sína að útkljá þetta mál. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. thorunn.sveinbjarnardottir@althingi.is

Höfundur situr á þingi fyrir Samfylkinguna – jafnaðarmannaflokk Íslands