Árni Stefán Norðfjörð 1. febrúar 1932. Hann lést 21. júní 2022. Útför Árna fór fram 1. júlí 2022.

Elsku pabbi minn er farinn til himna, margar góðar og afar dýrmætar minningar koma upp í hugann. Þú varst yndislegur pabbi og þótti mér ákaflega vænt um þig. Þú kenndir mér margt í lífinu. Þú varst minn klettur, mikill herramaður og vinmargur, mikill dansari, hávaxinn og grannur, enda unnuð þið mamma mörg verðlaun í samkvæmisdönsum. Þú hafðir yndi af trjárækt og ásamt mömmu plantaðir þú ógrynni af trjám við Galtalæk og við bústaðinn ykkar upp við Móskarðshnúka. Þú varst alltaf hreinn og beinn, við gátum talað saman í trúnaði og ég gat alltaf leitað til þín enda hjálpaðir þú mér í gegnum marga erfiðleika, þú varst leiðtogi minn. Þú varst orðheppinn, vel lesinn og fróður, vissir til dæmis allt um Njálssögu og hafðir þínar kenningar um höfundinn.

Takk fyrir allar sögurnar og ættfræðina sem þú fræddir mig um og málshættina sem þú kenndir mér. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig fyrir föður og vin, þú varst svo hlýr og góður maður, þú hafðir góðan húmor og oft var hlegið mikið í kringum þig enda vinmargur og vinsæll.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Allra síðustu árin voru þér erfið en af æðruleysi tókstu á við veikindi þín og kvartaðir aldrei.

Elsku pabbi, ég mun alltaf sakna þín.

Unnur Dóra.