Stytting vinnuvikunnar Drífa Snædal segir nýbirtar tölur gefa tilefni til þess skoða betur úrbætur á vinnutímastyttingu á almennum markaði.
Stytting vinnuvikunnar Drífa Snædal segir nýbirtar tölur gefa tilefni til þess skoða betur úrbætur á vinnutímastyttingu á almennum markaði. — Morgunblaðið/Arnþór
Guðrún Sigríður Arnalds gsa@mbl.is Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir það fagnaðarefni að náðst hafi að hækka lægstu launin í Reykjavíkurborg.

Guðrún Sigríður Arnalds

gsa@mbl.is

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir það fagnaðarefni að náðst hafi að hækka lægstu launin í Reykjavíkurborg. Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA), segir samtökin ekki telja það eðilegt að opinberi markaðurinn leiði launaþróun í landinu og telur að sá markaður þurfi að endurskoða hvernig hann „hagi sér“ í gerð kjarasamninga.

Morgunblaðið birti í gær vorskýrslu kjaratölunefndar sem fylgdist með launaþróun á tímabilinu frá mars 2019 til janúar 2022, en í henni kemur fram að laun hækkuðu alla jafnan meira á opinbera markaðnum. Kaupið hækkaði mest hjá Reykjavíkurborg, 4,1% og minnst hjá almenna markaðnum, 1,3%. Einnig kom fram að kaupmáttur hafi aukist og munur sé mikill á vinnutímastyttingu milli opinbera og almenna markaðarins.

Drífa segir þessar tölur mikilvægar til þess að geta staðsett hvaða hópar hafa setið eftir. „Það er fagnaðarefni að náðst hefur að hækka lægstu launin í Reykjavíkurborg, en það var barist fyrir því.“

Drífa segir þessar tölur gefa tilefni til þess skoða betur úrbætur á vinnutímastyttingu á almennum markaði. „Þetta er mikill munur og fóður sem hægt er að taka með í kjarasamningana sem verða í haust,“ segir Drífa.

Eyjólfur telur að vinnustundastyttingin muni vera uppi á borðum í næstu kjarasamningum.

Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu eiga mun færri fjölskyldur en áður erfitt með að ná endum saman en Eyjólfur segir það skýrast af auknum kaupmætti þeirra lægstlaunuðustu: „Það var mikil áhersla lögð á bætt kjör þeirra sem eru á lægstu launum í síðustu kjarasamningum og það hefur greinilega gengið. Kaupmáttur hefur líka aukist, en það er bara á síðustu vikum sem hann gefur eitthvað eftir.“