Reykjavík er í einstakri stöðu til að leysa vandann sem hún hefur valdið

Nú þegar kjarasamningar nálgast og verðbólga er mun hærri en menn eiga að venjast í seinni tíð, kemur ekki á óvart að áhyggjur fari vaxandi um horfur í efnahagsmálum. Kaupmáttaraukning hefur verið gríðarlega mikil á liðnum árum, jafnvel í gegnum heimsfaraldur kórónuveirunnar, sem er ekki það sem búast mátti við og í sjálfu sér ekki þróun sem getur haldið áfram. Aukning kaupmáttar verður til lengri tíma að vera í samræmi við undirliggjandi þróun í atvinnulífi og stöðu efnahagsmála.

Hér á landi var meira að segja gengið svo langt að láta sérstakan hagvaxtarauka kjarasamninga taka gildi þó að augljóst væri að engar forsendur væru fyrir því ákvæði samninganna eftir heimsfaraldurinn. En þessu var haldið til streitu og eins og bent var á þegar það varð ljóst þá hlýtur sú umframhækkun að koma til frádráttar þegar samið verður næst.

Það breytir því ekki að verðbólgan verður erfitt umræðuefni í kjarasamningunum og það er meðal annars ástæðan fyrir því að nauðsynlegt er að ná sem allra fyrst tökum á henni og setja fram trúverðugar áætlanir um að ná henni niður. Seðlabankinn hefur gert sitt í þeim efnum en hefur takmörkuð tæki við þær aðstæður sem nú ríkja.

Meginskýringin á hárri verðbólgu hér á landi um þessar mundir er hratt hækkandi húsnæðisverð og það skýrist fyrst og fremst af framboðsskorti, sem aftur skýrist af lóðaskorti. Ríkisstjórnin hefur skilning á þessu eins og fram kom í samtali forsætisráðherra á dögunun við mbl.is, en þá sagði Katrín Jakobsdóttir: „Verðbólgan á Íslandi er að stóru leyti drifin áfram af húsnæðisverði og það orsakast ekki síst af framboðsskorti. Við erum núna að vinna að tillögum um það hvernig við getum tryggt húsnæðisöryggi og framboð fyrir alla þjóðfélagshópa.“

Skilningur ríkisstjórnarinnar skiptir máli og getur orðið til að auðvelda einstökum hópum að glíma við húsnæðisvandann, en ríkisstjórnin mun tæpast ráðast að rótum vandans. Þeir sem það geta gert eru fulltrúar í sveitarstjórnum, fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu og þá einum í höfuðborginni sjálfri. Þar liggur vandinn og þar er lausnina að finna en því miður er fátt ef nokkuð sem bendir til að í höfuðborginni standi til að grípa til aðgerða sem að gagni geta komið.

Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannars ehf., ritaði grein hér í blaðið á dögunum þar sem hann benti á að meginskýringin á háu verði íbúða sé „að of lítið hefur verið byggt af íbúðum. Aðalskýringin á því er skortur á lóðum. Hér þarf því að spýta í lófana, bretta upp ermar og hefja byggingu 3.500 íbúða á ári næstu 5 árin, sem kostar mikla peninga. Hafa ber í huga að það tekur 1-2 ár að byggja hverja íbúð. Það þýðir að það tekur 6-7 ár með þessu móti að ná fullu jafnvægi á milli eftirspurnar og framboðs.“ Sigurður segir að á árunum 2011-2020 hafi verið byggt allt of lítið af íbúðum og telur hann skortinn vera um 7700 íbúðir. Það munar um minna og skyldi engan undra að verðið þrýstist upp þegar skorturinn er svo langvarandi og mikill.

Ingólfur Bendar, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, rakti svipaðar áhyggjur í Viðskiptamogganum í liðinni viku og sagði framboð íbúða nú vera rétt um fjórðung þess sem það var fyrir ríflega tveimur árum. Þessi þróun sýnir að sveitarfélögin, einkum Reykjavíkurborg með sína þéttingarstefnu og áherslu á borgarlínu fremur en byggingar, hafa ekki staðið sig að undanförnu. Þessu þarf að breyta strax, meðal annars til að senda rétt skilaboð til þeirra sem brátt setjast niður við gerð kjarasamninga. Ingólfur segir að grípa þurfi til aðgerða til að laga framboðsvandann: „Breyta þarf skipulagi, auka framboð á lóðum og hvetja til uppbyggingar á húsnæðismarkaði til að koma jafnvægi á markaðinn. Sannfærandi aðgerðir stjórnvalda í þessum málum eru til þess fallnar að draga úr væntingum um íbúðaskort og verðhækkun íbúða. Slíkar aðgerðir geta haft áhrif strax þó svo að framboð nýrra íbúða aukist síðar, en byggingartími nýrra íbúða er um og yfir tvö ár.“

Ingólfur leggur áherslu á ábyrgð sveitarfélaganna í þessum efnum enda er hún mikil. Þau eru nánast alls ráðandi um þessi mál og geta átt stærstan þátt í að leysa þann efnahagsvanda sem nú er glímt við hér á landi og þann sem er yfirvofandi.

Nýr meirihluti í Reykjavík hefur kynnt áform sem eru nánast jafn ótrúverðug í þessum efnum og áform fyrri meirihluta enda forystan hin sama og stefnan um þéttingu og þróunarása borgarlínu óbreytt. Stefna nýs og gamals meirihluta Reykjavíkur er þannig einn helsti efnahagsvandi landsins um þessar mundir og hefur verið undanfarin misseri. Að óbreyttu mun þessi stefna valda landsmönnum öllum miklum erfiðleikum á komandi misserum.