Anna Guðbjörg Gunnlaugsdóttir fæddist 18. júní 1953. Hún lést á 20. júní 2022. Anna Guðbjörg var jarðsungin 1. júlí 2022.

Við Anna systir mín gerðum ráð fyrir að eiga samverustundir bæði fyrir sunnan og austan eins og undanfarin ár. En á nokkrum vikum breyttist allt. Það er svo sárt að hugsa til þess að stundirnar verði ekki fleiri. Nú er aðeins í boði að verma sig við hlýju liðinna minninga.

Þegar ljóst var orðið að endalokin væru nærri og ég kvaddi elsku systur mína í síðasta sinn með tárvot augu sagði hún: „Rúna mín, þetta verður allt í lagi.“

Anna systir mín bjó yfir einstökum styrk og sá styrkur var til staðar þrátt fyrir að endalokin væru nærri. Anna var tveimur árum yngri en ég, en í huga mínum var hún alltaf stóra systir. Hún var svo röggsöm og mikill leiðtogi. Ef finna þurfti lausn á málum, þá var hringt í Önnu. Vandamálin voru til að leysa þau og Anna átti auðvelt með að ganga til verks og gera það sem þurfti til.

Við fjölskyldan eigum Önnu margt að þakka. Hún var einstaklega greiðvikin og hjálpsöm og var alltaf til staðar. Anna var lífsglöð og sá hinar skemmtilegu hliðar lífsins. Hún var hláturmild og án efa lifir hlátur hennar og brosmilt andlit í huga fjölda fólks sem hana þekkti.

Anna var 17 ára þegar hún hóf búskap með Hauki Jónssyni á Haugum í Skriðdal. Ég flutti til Akureyrar á svipuðum tíma, en heimsótti heimahagana reglulega og þá var fastur punktur að heimsækja Önnu og fjölskyldu í Hauga. Þaðan á ég hafsjó af góðum minningum.

Allir voru velkomnir í Hauga og vel var tekið á móti gestum. Heimili Önnu var fallegt og hún var frábær kokkur. Mikið var hlegið og lífsgleðin réð ríkjum. Ég minnist heimsókna þegar heyskapur var í gangi, að sjá þessa smágerðu konu sveifla böggum og þungum hlutum til eins og ekkert væri, hún bjó yfir kröftum sem voru stærri en líkami hennar sagði til um.

Anna var ekki nema 35 ára þegar Haukur veiktist alvarlega og varð óvinnufær. Þetta var krefjandi tími fyrir Önnu með börnin fjögur lítil en styrkur hennar kom vel í ljós og hún gerði það sem þurfti til. Veikindi Hauks leiddu til þess að hann gat ekki búið heima og skilnaður var óumflýjanlegur.

Ég man svo vel þegar Anna kynntist Agnari. Hann kom svo sannarlega eins og ljósgeisli inn í hennar líf og betri samferðamann er ekki hægt að hugsa sér. Kærleikurinn og vináttan sem ríkti milli þeirra sást langar leiðir. Það hefur alltaf verið svo gaman að koma til þeirra. Gestrisnin einstök og ógleymanlegar matarveislur framreiddar.

Samverustundir og ferðalög okkar Þóris með þeim Önnu og Agnari hafa verið hluti af lífinu. Við systur höfum átt yndislegar gæðastundir á meðan Agnar og Þórir sinntu sínum ævintýrum við veiðar og fleira.

Ég er Önnu og Agnari innilega þakklát fyrir hve mikil stoð þau hafa verið Bóa bróður okkar í búskapnum í Heiðarseli. Alltaf tilbúin að hjálpa, hvort sem var við sauðburð, heyskap eða annað. Nú nýverið veiktist Bói og gat ekki sinnt búinu meir. Þá sem oftar gengu Anna og Agnar í málin og héldu búinu gangandi og náðu að finna lausnir á þeim málum.

Ég kveð með söknuði og þakklæti fyrir vináttuna.

Megi guð geyma þig elsku systir mín og vera fjölskyldu þinni styrkur.

Sigrún (Rúna).