Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir aðspurður í skriflegu svari til Morgunblaðsins að ekkert hafi verið ákveðið varðandi það hvort Orkuveitan muni leggja dótturfélagi sínu, Ljósleiðaranum, til hlutafé í væntanlegri hlutafjáraukningu...

Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir aðspurður í skriflegu svari til Morgunblaðsins að ekkert hafi verið ákveðið varðandi það hvort Orkuveitan muni leggja dótturfélagi sínu, Ljósleiðaranum, til hlutafé í væntanlegri hlutafjáraukningu Ljósleiðarans.

Í tilkynningu sem Ljósleiðarinn sendi frá sér á dögunum vegna samnings við utanríkisráðuneytið um afnot af tveimur af átta ljósleiðaraþráðum í ljósleiðarastreng Atlantshafsbandalagsins sem liggur hringinn í kringum Ísland og til Vestfjarða, kom fram að framkvæmdastjóra félagsins hefði verið falið að „undirbúa aukningu hlutafjár félagsins“. Hún verði gerð til að styrkja efnahag og fjármagnsskipan félagsins og gera því kleift að nýta tækifæri til fjárfestinga sem nú bjóðast við uppbyggingu landshrings.

Lítið annað að segja

Í skriflegu svari til Morgunblaðsins vísar formaður stjórnar OR, Brynhildur Davíðsdóttir, í tilkynningu Ljósleiðarans og framkvæmdastjórann Erling Frey Guðmundsson, og segir lítið annað um málið að segja. Stjórn Ljósleiðarans hafi falið framkvæmdastjóra að undirbúa hlutafjáraukninguna. Þar sé málið statt. tobj@mbl.is