Þórshöfn Nýgerður minigolfvöllur er í hjarta bæjarins og öflugir starfsmenn munda kylfurnar að verki loknu.
Þórshöfn Nýgerður minigolfvöllur er í hjarta bæjarins og öflugir starfsmenn munda kylfurnar að verki loknu. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
Líney Sigurðardóttir Þórshöfn Bæjarhátíðin Bryggjudagar á Þórshöfn verður haldin um miðjan júlí og undirbúningur er í fullum gangi.

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Bæjarhátíðin Bryggjudagar á Þórshöfn verður haldin um miðjan júlí og undirbúningur er í fullum gangi. Starfsfólk áhaldahúss Langanesbyggðar lagði sitt af mörkum og hefur nýlega lokið við gerð minigolfvallar við fjöruna á skemmtilegum stað í miðjum bænum.

Dagskráin hefst fimmtudagskvöldið 14. júlí með kvöldmessu í Sauðaneskirkju en strax eftir messu býður tónlistarkonan Steina upp á „kósí tónleika“ sem eru öllum að kostnaðarlausu.

Hjólabrettanámskeið á vegum Braggaparks fellur síðan inn í dagskrána fyrri hluta fimmtudags. Sjálf Langanesþrautin hefst á föstudagsmorguninn 15. júlí en hún felst í því að ganga, skokka eða hjóla frá Fonti, ysta odda Langaness, og til Þórshafnar sem er um 50 km leið. Þar er um áheitaþraut að ræða og allur ágóði fer til uppbyggingar á íþróttasvæðinu á Þórshöfn, áhugasöm lið eru hvött til að skrá sig í þrautina.

Síðdegis er hægt að rölta á bryggjuna í dorgveiðikeppni og reyna að sér í soðið og sitthvað fleira er um að vera á bryggjusvæðinu en um kvöldið skemmtir trúbador á veitingastaðnum Bárunni.

Aðalfjörið er á laugardag en dagskrá hefst við höfnina með kappróðri en síðan færist leikurinn að íþróttamiðstöðinni þar sem ýmislegt verður í gangi; hoppukastali, skottsala, froðufjör, grill og fleira.

Í Þórsveri er hægt að fá sér kjötsúpu og á Langanesi er Sauðaneshúsið opið og gott að eiga þar notalega kaffistund og skoða sýninguna „Að sækja björg í bú.“

Beðið eftir góða veðrinu

Stórdansleikur verður síðan fram eftir nóttu í félagsheimilinu Þórsveri þar sem Rúnar Eff og hljómsveit halda uppi fjöri en nokkuð langt er síðan dansleikur hefur verið haldinn á Þórshöfn.

Um hádegisbil á sunnudag geta börnin átt góða stund með Leikhópnum Lottu í skrúðgarðinum en ýmislegt fleira leynist í dagskrá Bryggjudaga þetta árið. Allir bíða svo eftir góða veðrinu og vona að kuldakastið sem hrjáð hefur íbúana verði að baki um miðjan júlí þegar hátíðin gengur í garð.