Skotárás Mikil skelfing greip um sig í höfuðborg Danmerkur sl. sunnudag er 22 ára Dani skaut fólk til bana og særði í verslunarmiðstöðinni Field´s.
Skotárás Mikil skelfing greip um sig í höfuðborg Danmerkur sl. sunnudag er 22 ára Dani skaut fólk til bana og særði í verslunarmiðstöðinni Field´s. — AFP/Ólafur Steinar Gestsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Steinþór Stefánsson steinthors@mbl.is Tíðni skotárása hérlendis sem og nýleg ódæðisverk í Ósló og Kaupmannahöfn hafa verið mikið í umræðunni síðastliðna daga. Umræðan hefur beinst að öryggisþáttum, m.a. að vopnalöggjöf hérlendis og aðgengi fólks að skotvopnum.

Viðtal

Steinþór Stefánsson

steinthors@mbl.is

Tíðni skotárása hérlendis sem og nýleg ódæðisverk í Ósló og Kaupmannahöfn hafa verið mikið í umræðunni síðastliðna daga. Umræðan hefur beinst að öryggisþáttum, m.a. að vopnalöggjöf hérlendis og aðgengi fólks að skotvopnum.

Eins hefur mikið verið rætt um geðheilbrigðismál í tengslum við skotárásir og hvað hægt sé að gera í þeim málaflokki til að sporna gegn slíkum árásum. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að ekki eigi að vera samasemmerki á milli umræðna um skotvopn og geðheilbrigðismál.

Styttum okkur leið að lausn

„Við ættum kannski að skoða hvað veldur því að fólk er í þeirri stöðu að það beitir annað fólk ofbeldi, í stað þess að tengja það strax við geðrænar áskoranir og þannig ala á fordómum,“ segir hann við Morgunblaðið. Þegar um sé að ræða jaðartilvik þar sem fólk framkvæmi eitthvað sem sé samfélaginu óskiljanlegt þá megi yfirleitt finna orsök þess í sögu viðkomandi árásarmanns.

„Í kjölfarið reynum við alltaf sem samfélag að stytta okkur leiðir í að finna lausn, þar sem við hugsum um hvort að nú þurfi ekki að loka fleiri inni, efla gæslu og draga úr vopnaeign. Það kann að vera ágæt hugmynd að herða vopnalöggjöf en ekki sem viðbrögð við mun dýpri vanda. Hvernig við tölum um geðheilbrigðismál á að vera meira orsakamiðað í stað þess að bregðast stöðugt við afleiðingunum. Við þurfum að skoða hvernig við getum búið þannig í haginn að sem flestum í þessu samfélagi vegni vel og líði vel.“

Grímur segir samfélaginu hætt við að tengja geðrænar áskoranir við ofbeldi. Það séu engar rannsóknir sem bendi til þess að einstaklingar með geðrænar áskoranir séu líklegri til þess að beita ofbeldi. Niðurstöður sömu rannsókna sýna hins vegar að þeir sem búa við geðrænar áskoranir eru tífalt líklegri til að verða fyrir ofbeldi.

„En við förum alltaf í þennan farveg. Við fáum til dæmis fréttir af því að hákarl hafi drepið einhvern í Rauðahafinu og í kjölfarið óttast fólk að synda í sjónum þrátt fyrir að hákarlar ráðist næstum því aldrei á fólk. Í kringum árið 2001 þá mátti fólk varla sjá fólk frá Mið-Austurlöndum án þess að verða tortryggið og í Bandaríkjunum hafa svartir þurft að búa við alhæfingar og fordóma í mannsaldra. Við alhæfum, en alhæfing er slæm því hún viðheldur ótta og ýtir undir fordóma.“

Grímur telur að við sem samfélag ættum frekar að taka til skoðunar hvað veldur því að einstaklingur grípur til ofbeldis með jafn hörmulegum afleiðingum eins og atburðir síðustu daga í Danmörku, Noregi og Bandaríkjunum höfðu í för með sér.

„Þegar við skoðum þá sem beita annað fólk ofbeldi, líkt og í þessum málum í Noregi, Danmörku og Bandaríkjunum, þá liggur það fyrir að þetta eru oft einstæðingar með lítið tengslanet sem hafa gjarnan verið lagðir í einelti. Þeir hafa átt mjög brotna skólagöngu, og í raun mjög brotið líf. Það réttlætir að sjálfsögðu ekki voðaverk þessara manna, bara alls ekki, en þarna eigum við að vera í umræðunni, við eigum að vera með dýpri umræðu.“

Byrjum á byrjuninni

Grímur bendir á að í samfélaginu hér á Íslandi þá verði að færa nálgunina frá afleiðingum, þar sem einkenni eru meðhöndluð, yfir á orsakir þar sem unnið er að forvörnum.

„Við getum ekki breytt þessu á einni nóttu, en mér finnst það skorta þessa sýn þeirra sem ráða hér að setja þetta almennilega á oddinn, því þetta skiptir svo miklu meira máli heldur en hvort að bensínverðið sé krónu dýrara í dag en í gær. Byrjum á byrjuninni og styðjum verðandi foreldra og síðan börnin. Sýnum hvert öðru umburðarlyndi og setjum geðheilsu í forgang og geðheilbrigðismál í fyrsta sæti,“ segir Grímur.