Sambandsdeildin Breiðablik stendur vel að vígi eftir eins marks sigurinn gegn UE Santa Coloma í Andorra í gær. Liðin mætast aftur á fimmtudag.
Sambandsdeildin Breiðablik stendur vel að vígi eftir eins marks sigurinn gegn UE Santa Coloma í Andorra í gær. Liðin mætast aftur á fimmtudag. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Evrópa Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Breiðablik á alla möguleika á að komast í aðra umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta eftir nauman sigur á UE Santa Coloma í Andorra í gær, 1:0.

Evrópa

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Breiðablik á alla möguleika á að komast í aðra umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta eftir nauman sigur á UE Santa Coloma í Andorra í gær, 1:0. KR-ingar eru hinsvegar á leið út úr keppninni eftir tap gegn Pogon, 4:1, í Szczecin í Póllandi í gær.

Ísak Snær Þorvaldsson skoraði sigurmark Blika í Andorra í gær strax á 14. mínútu þegar hann nýtti sér varnarmistök heimamanna og boltinn fór af honum og yfir markvörðinn eftir misheppnaða hreinsun varnarmanns.

Góð byrjun Ísaks í hans fyrsta Evrópuleik á ferlinum.

Blikar voru heppnir þegar Virgili átti þrumufleyg í þverslána á marki þeirra á 35. mínútu en annars var mjög lítið um marktækifæri það sem eftir lifði leiks.

Þar með hefur íslenskt lið loksins náð að vinna Evrópuleik í Andorra og mark Ísaks er það fyrsta hjá íslensku félagsliði þar í landi. Blikar gerðu sjálfir markalaust jafntefli við hitt liðið í Santa Coloma, FC Santa Coloma, árið 2013 og Valsmenn töpuðu óvænt fyrir sama liði, 1:0, árið 2018. Leikirnir á Íslandi hafa hinsvegar ávallt endað með íslenskum sigrum.

Velgengni Blika í keppninni heldur því áfram. Þeir unnu þrjá leiki í fyrra og gerðu eitt jafntefli í sex leikjum. Þessi sigur þeirra í gær ásamt tveimur sigurleikja Víkinga á dögunum hljóta að fara langt með að tryggja Íslandi fjórða Evrópusætið fyrir næsta tímabil.

Alls var þetta áttundi sigur Breiðabliks í Evrópukeppni, í 22 leikjum, og Kópavogsfélagið er með besta vinningshlutfall allra íslenskra liða í Evrópukeppni.

Mótherjar Blika í 2. umferð, komist þeir þangað, verða Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi eða Llapi frá Kósóvó. Fyrri leikur þeirra í Podgorica í gær endaði með 2:0 sigri Buducnost sem þar með er líklegur sem næsti andstæðingur.

En fyrst þurfa Blikar að ljúka verkinu á Kópavogsvellinum næsta fimmtudagskvöld.

Pólverjarnir of sterkir

KR-ingar mættu ofjörlum sínum í pólsku hafnarborginni Stettin, eða Szczecin eins og hún heitir á pólskunni.

Pólverjarnir gerðu í raun út um leikinn í fyrri hálfleik þegar Kamil Drygas, Luka Zahovic og Jakub Bartkowski komu þeim í 3:0.

Kamil Drygas bætti við fjórða markinu á 56. mínútu og útlit var fyrir stóran skell Vesturbæinga. Þeir löguðu stöðuna á 71. mínútu þegar Atli Sigurjónsson tók hornspyrnu, Stefan Ljubicic skallaði boltann áfram og Aron Kristófer Lárusson skoraði með skoti af markteig, 4:1.

Aron skoraði þarna sitt fyrsta Evrópumark og skákaði þar með sér reyndari mönnum í fjölskyldunni, föður sínum Lárusi Orra Sigurðssyni og afanum Sigurði Lárussyni, sem hvorugur náði að skora mark í Evrópukeppni á löngum og farsælum ferli.

Þriggja marka tap var því betri niðurstaða en útlit var fyrir um tíma en það þarf mikið að gerast á Meistaravöllum næsta fimmtudag til að KR komi sér í þá stöðu að geta slegið þetta öfluga pólska lið úr keppni.

Sigurvegararnir í einvígi Pogon og KR mæta danska liðinu Bröndby í annarri umferð keppninnar.