Hrá „Þessi lög eru mjög hrá og afhjúpandi,“ segir Lára Rúnars um nýju plötuna sína, 7.
Hrá „Þessi lög eru mjög hrá og afhjúpandi,“ segir Lára Rúnars um nýju plötuna sína, 7.
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Sjöunda plata Láru Rúnarsdóttur kom út í gær 7. júlí, eða 7.7., og ber einfaldlega titilinn 7 . Lára segist hafa valið þennan titil „fyrst og fremst vegna þess að þetta er plata númer sjö.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Sjöunda plata Láru Rúnarsdóttur kom út í gær 7. júlí, eða 7.7., og ber einfaldlega titilinn 7 . Lára segist hafa valið þennan titil „fyrst og fremst vegna þess að þetta er plata númer sjö. Þetta eru svo margar plötur svo það er þægilegt að nefna þær bara svona svo maður muni númer hvað þær eru.

Fyrst ákvað ég útgáfudaginn og fannst 7.7. vera eitthvað sem ég gæti unnið með. Svo fattaði ég að þetta væri sjöunda platan. Þetta er líka mín happatala. Ég spilaði lengi vel körfubolta með Breiðabliki og þá var þetta mitt númer. Svo það var gaman að tengja þetta allt saman.“

Gaman að vinna með ferskar hugmyndir

Spurð út í tildrög plötunnar segir tónlistarkonan: „Þegar ég vann síðustu plötu þá vann ég með Sóleyju Stefánsdóttur og það sem við gerðum var að hittast einu sinni í viku þar sem ég kom með lagasmíð og við unnum hana áfram. Mér fannst það ganga svo vel og það hélt mér svo vel við efnið. Svo ég ákvað að gera það aftur núna.“

Að þessu sinni fékk hún Arnar Guðjónsson til þess að vinna plötuna með sér. „Hann er ótrúlega fær upptökustjóri og kann að spila á öll hljóðfæri svo það var mjög hentugt. Ég kom einu sinni í viku til hans með eitthvað sem ég var nýbúin að semja. Það er mjög gaman af því að þegar hugmyndin er fersk þá er allt miklu skemmtilegra. Þannig við byrjuðum þar og tókum upp tíu lög. Það tók langan tíma. Svo fórum við að byggja hægt og rólega ofan á plötuna og síðan var hún bara tilbúin.“

Eins og hjá svo mörgun tónlistarmönnum skapaðist rými í faraldrinum til þess að vinna að þessari plötu Láru.

„Það var í mars 2020 sem við byrjuðum. Ég held við höfum byrjað í sömu viku og takmarkanirnar og lokanirnar fóru í gang. Það gaf gott rými. Það var lítið annað að gerast hjá mér á meðan og það var gott að hafa eitthvað fyrir stafni, svona skapandi og skemmtilegt. Þetta samstarf gekk mjög vel. Það var mjög notalegt andrúmsloft og mikið traust til þess að prófa sig áfram,“ segir hún.

Þetta þægilega andrúmsloft hafi skipt máli vegna þess hvers eðlis lögin eru. „Þessi lög eru mjög hrá og afhjúpandi. Ég vil meina að ég sé frekar heiðarleg með það sem ég er að ganga í gegnum hverju sinni. Ég hef notað tónlistina til þess að fá útrás fyrir tilfinningar og upplifanir, það sem er í gangi hjá mér og í kringum mig.“

Lára rekur stúdíóið Móa, vellíðunarsetur og griðastað fyrir andlega og líkamlega rækt. „Svo ég er mikið búin að vera að spá og spekúlera í þessum andlegu málum og þetta er svolítið bein tenging við það.“ Þar veltir hún fyrir sér sambandinu við eigin tilfinningar og hvað það færir manni. Lögin fjalli þannig meðal annars um „að fara inn í traust og að trúa á lífið og um hvað lífið snýst fyrir mér. Þetta er frekar andleg smíð,“ segir hún um plötuna.

Er ekkert að flækja hlutina

„Ég myndi segja að þetta væri mjög beint framhald af fyrri plötunni minni sem heitir Rótin . Tilgangurinn þar var að fara aftur í upprunann og halda upprunalegri lagasmíð.“ Og svipaða sögu má segja um lögin á nýju plötunni 7 . „Öll lögin eru enn með gítar og söng sem ég tók upp bara á fyrsta degi. Þannig að upprunalega lagasmíðin fær að halda sér og ég er ekkert að flækja hlutina um of heldur reyni að halda þessu einföldu og fallegu. Þannig er hljóðheimurinn.“

Þennan hljóðheim sáu þau Lára og Arnar Guðjónsson alfarið um að skapa, að undaskildu einu lagi sem ber titilinn „Landamæri“. Þar á annar Arnar, trommuleikarinn Arnar Gíslason, eiginmaður Láru, innkomu.

„Ég var að leita að einhverjum til þess að syngja á móti mér dúett og ákvað að spyrja hann. Hann er ekki vanur að syngja heldur er hann vanur að spila á trommur með mér. En hann er náttúrulega svona já-maður og var alveg til í þetta. Og það kom bara svo ótrúlega fallega út. Ég er búin að segja við hann alveg frá því við kynntumst fyrir mörgum árum að hann sé með svo fallega rödd en hann hlær alltaf að mér þegar ég deili því með honum. En það má heyra þarna að hann er með mikið „efni“. Svo trommar hann líka í þremur eða fjórum lögum.“

Lára segist stefna á að halda eiginlega útgáfutónleika í haust en segir dagsetninguna ekki komna á hreint. Hún muni hins vegar fylgja Jónasi Sigurðssyni á Borgarfjörð eystri í næstu viku þar sem hann mun halda fimm tónleika í Fjarðarborg, dagana 12.-16. júlí. „Það verður aðallega hans stöff en ég verð kannski með einhver Lárulög líka af nýju plötunni.“