— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Sómaveður,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um spána fyrir daginn í dag. Yfir landinu er hæðarhryggur og víðast hvar verður þurrt og hlýtt.

„Sómaveður,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um spána fyrir daginn í dag. Yfir landinu er hæðarhryggur og víðast hvar verður þurrt og hlýtt. Á morgun, laugardag, kemur hins vegar lægð úr suðvestri að landinu og henni fylgir væta um á Suðurlandi og væntanlega líka um vestanvert landið. Svipuð veðrátta verður í þessum landshlutum á sunnudaginn. Á Norðurlandi, það er austan Tröllaskaga og suður á Fljótsdalshérað, verður bjart og þurrt veður um helgina og hiti þar gæti náð 15 til 20 stigum. Má því ætla að ferðamenn, að minnsta kosti Íslendingarnir, elti góða veðrið um helgina og fari í sólina nyrðra.

Í gær gekk á með skúrum á höfuðborgarsvæðinu. Þar var jafnframt lágskýjað svo ekki sá til Esjunnar, sem eitt og sér er ágætur kvarði á veðráttuna. Úr Grafarholtinu, þar sem myndin hér til hliðar var tekin, var dumbungur svo hæstu turnarnir voru í mystri. Sjá mátti á vefmyndavélum að víða á landinu var víðast hvar svipað; það er aðgerðarlítill dumbungur.