Guðný Jóna Jónsdóttir fæddist 13. desember 1939. Hún lést 27. maí 2022. Útför hennar fór fram 26. júní 2022.

Það er mér bæði ljúft og skylt að segja frá Gullu á Skálanesi þessari huggulegu, dagfarsprúðu, snyrtilegu konu og húsmóður, sem ekki bar störf sín eða gerðir á torg, en vann hæglát án íburðar.

Við vorum tengd fjölskylduböndum á tvo vegu.

Í æsku var hún brosandi út að eyrum alltaf og svo var um systkini hennar fleiri.

Þannig var viðmót hennar jafnan. Kannski átti það rót í þeirri bernsku að leiksystir hennar var lengst af fjölfötluð föðursystir fullorðin en smávaxin, sem þurfti nærgætni og samúð.

Gulla var gædd þeim hæfileika að lesa í spil og kaffibolla fyrir fólk. Ég var einn þeirra sem öðru hvoru þáði þann lestur hennar mér til ánægju. Þegar straumhvörf höfðu orðið í lífi mínu leit hún í bollann minn og sagði: „Það er aldeilis breyttur bollinn þinn, Jói minn.“

Öðru sinni kom ég til hennar með einhvern slatta af vínanda í blóði. Þá leit hún í bollann og sagði. „Þetta er ekki bollinn þinn, Jói minn, ég les ekkert úr þessu. Komdu ófullur næst.“

Hvort hún notaði þennan hæfileika sinn sér til framfærslu eða lífeyris nokkurn tíma veit ég ekki. En áreiðanlega ekki í miklum mæli og ekki heima hjá sér.

Hún hafði skoðanir og lét þær í ljós. En reifst ekki þótt hún væri ósammála síðasta ræðumanni.

Hún var konan hans Steina Vald. frænda míns og ég átti margar ánægjustundir á heimili þeirra.

Hann taldi sig vel kvæntan og bar henni viðurkenningarorð. Sagði m.a. að hún hefði verið þess makleg að eignast fjölda barna svo kærleiksrík sem hún var við börn. En, á sambúð þeirra bar skugga. Tíð fósturlát, jafnvel stundum tvisvar á ári, trufla kærleikann. Þó kom þar að þau eignuðust heilbrigða dóttur, sem ber erfðavísa þeirra fram til þjóðar.

Það er víst fleira, sem vanda veldur, þau slitu samvistir.

Hann Aðalsteinn frændi minn þagði aldrei um neitt, sem honum þótti betur mega fara, sá annars dagfarsprúði, iðjusami, smekklegi afkastamaður og skammakjaftur var aldrei lágvær.

Fósturdóttir Gullu og Steina er: Snædís Hreiðarsdóttir. Börn Gullu eru: Ásta Valdís Aðalsteinsdóttir Borgfjörð. Jón Einar Reynisson. Óskar Leifur Arnarsson. Guðmundur Ingiberg Arnarsson.

Þeim sendi ég kæra kveðju mína í minningu hennar.

Jóhannes Geir

(Jói í Skáleyjum).