Anna Atladóttir fæddist í Reykjavík 14. ágúst 1941. Hún lést 2. júní 2022. Útför hennar fór fram 23. júní 2022.

Við bekkjarsystkini Önnu í Laugarnesskólanum fyrir nær sjö áratugum, sem höfum haft ánægju af því að hittast um mörg undanfarin ár, minnumst hennar með afar hlýjum hug og söknuði nú þegar hún er gengin á braut. Þó að hún væri skemmtileg og létt í skapi var henni samt ekki hlátur í hug varðandi öll mál. Sum mál voru ekki höfð í flimtingum hjá Önnu en þar réð mestu afar sterk réttlætiskennd, enda vildi hún láta til sín taka þar sem unnt væri að rétta þeim sem stóðu höllum fæti hjálparhönd.

Við vissum það ekki þá, að hún var barnabarn hamhleypunnar Ólafs Friðrikssonar, verkalýðsleiðtoga og ritstjóra, en það kom okkur ekki á óvart þegar við fórum að átta okkur á Íslandssögunni. Henni kippti í kynið þó að aldrei yrði hún umdeild í okkar hópi eins og afi hennar hafði á stundum verið eins og títt er um þá sem berjast fyrir betri heimi. Hún var sannur vinur sem lagði gott til hópsins og gott er að minnast með þakklæti fyrir samfylgdina.

Við vitum fyrir víst að henni eins og öllu baráttufólki gegn óréttlæti heimsins verður tekið fagnandi í sumarlandinu þar sem réttlætið og fegurðin ríkir ofar öllu.

Arthur Farestveit

Björn Halldórsson

Bryndís Óskarsdóttir

Guðmundur Hervinsson

Gunnar Gunnarsson

Haukur Björnsson

Inga Björk Sveinsdóttir

Sigrún Gróa Jónsdóttir

Valdimar Jóhannesson.