Snjólaug Árnadóttir
Snjólaug Árnadóttir
Guðrún Sigríður Arnalds gsa@mbl.

Guðrún Sigríður Arnalds

gsa@mbl.is

„Norðmenn eru greinilega að reyna að koma í veg fyrir vöruflutninga Rússa í gegnum landamæri sín, sem þeim væri heimilt, en hér virðast stangast á tvær réttarheimildir, það eru annars vegar viðskiptaþvinganir gegn Rússum [vegna Úkraínustríðsins] og hins vegar lögmætt aðgengi Rússlands að Svalbarða,“ segir Snjólaug Árnadóttir, lektor í þjóðarétti, haf- og umhverfisrétti við Háskólann í Reykjavík, um deilur Rússa og Norðmanna um flutninga á nauðsynjavörum til Svalbarða.

Norsk stjórnvöld tilkynntu í fyrradag að þau hefðu fundið lausn á deilunum. Vörurnar, sem venjulega eru fluttar frá Rússlandi á rússneskum vörubifreiðum til Tromsö, þaðan sem siglt er með þær til Svalbarða, verði framvegis fluttar með norskum vörubílum til hafnar í Tromsö. Með því móti yrði ekki brotið gegn þeim viðskiptaþvingunum sem settar hafa verið á Rússa.

Snjólaug segir að Rússar hafi um langa hríð gagnrýnt umsvif Norðmanna á Svalbarðasvæðinu, m.a. einkarétt þeirra til hafsvæða, en um það gildir samningur frá 1920, sem 46 ríki eiga aðild að. Í honum felst að fullveldi Noregs yfir Svalbarða er viðurkennt, en á móti fá aðildarríki samningsins rúm réttindi til þess að nýta auðlindirnar þar, sinna rannsóknum og taka sér búsetu. Þess má einnig geta að Norðmenn hafa heitið því að hervæða ekki Svalbarða og hafa þar engar fastar bækistöðvar fyrir hernað.

Svalbarði veikur punktur

Í umfjöllun Morgunblaðsins á þriðjudaginn um Svalbarðadeiluna var vísað til James Wither, prófessors í öryggisfræðum, sem kallaði Svalbarða „Akkilesarhæl Atlantshafsbandalagsins“ í fræðigrein árið 2018, þar sem lagaleg staða væri flókin, og mögulegt væri að Rússar kynnu að reyna að hertaka eyjaklasann í þeirri von að eyjarnar væru of afskekktar til þess að bandamenn Noregs í NATO myndu vilja koma þeim til varnar.

Snjólaug segir í þessu samhengi að Svalbarði sé veikur punktur fyrir Norðmenn. „Þetta er mikilvægt svæði fyrir Noreg til að teljast strandríki að Norðurskautshafinu, og það gæti veikt stöðu Norðmanna umtalsvert, ef þeir misstu fullveldi yfir svæðinu,“ segir Snjólaug og bendir á að það fullveldi sé að vissu leyti takmarkað vegna Svalbarðasamningsins.

Hún segir að Norðmenn hafi áður lýst því yfir að þeir semji ekki um norskt yfirráðasvæði, þ.e. Svalbarða, við aðrar þjóðir en þó hafi Norðmenn dregið þessar tilteknu aðgerðir til baka í kjölfar samningaviðræðna við Rússa. Snjólaug bendir á að það sé opinber afstaða norskra stjórnvalda að þetta sé ekki afturför í mótspyrnunni við Rússa en þarna séu Norðmenn samt í raun að gefa Rússum það sem þeir vilji. Ekki er útilokað að yfirvofandi ógn um frekari afskipti Rússa af Svalbarða hafi haft áhrif á samningaviðræðurnar.