Werner Ívan Rasmusson
Werner Ívan Rasmusson
Eftir Werner Ívan Rasmusson: "Fræðimenn, segið okkur hvað olli því að Rússar ákváðu að ráðast inn í Úkraínu."

Er ekki komið að því að einhver fræðimanna okkar taki sér penna í hönd og upplýsi okkur almúgann um hver sé hin raunverulega orsök þess að upp er komin þessi harðsnúna deila á milli Rússlands og fjölda Evrópuríkja með NATO og BNA í bakgrunni?

Eitt sinn var maður ungur og trúgjarn og hélt að ráðamenn ríkja í Evrópu væru guðum líkastir hvað varðar ráðsnilld og stjórnkænsku, en orðinn eldri kemst maður að því að um tálsýn var að ræða.

Framkoma ESB og NATO gagnvart Rússum minnir talsvert á einelti. Stjórnmál eru sjaldnast sanngjörn eða réttlát. Hverfum aðeins aftur til ársins 1962. BNA voru með eldflaugar staðsettar í Tyrklandi og víðar í Evrópu og var þeim beint að Sovétríkjunum. Á þeim árum réðu menn ekki yfir eins langdrægum eldflaugum og nú. Sovétríkjunum þótti á sig hallað og ætluðu að koma fyrir eldflaugum á Kúbu. BNA þótti fullnærri sér gengið og litlu munaði að kjarnorkustyrjöld brysti á.

Séð með hlutlausum augum, þá hefur verið þrengt allverulega að Rússlandi úr vestri, og jafnfram sagt að þeir séu mesta ógnin gegn Evrópu. Þó nokkur NATO-ríki eiga landamæri fast að Rússlandi og ESB hefur jafnt og þétt fikrað sig austur á bóginn. Rússar eru um 180 milljónir, en innan ESB og NATO eru nálægt 700 milljónir íbúa og með BNA bætast 330 milljónir við. Spurt er: Hver ógnar hverjum?

Annað mál er að ekkert réttlætir grimmilega innrás, hvað þá án stríðsyfirlýsingar, inn í fullvalda ríki.

Eitthvað var tæpt á því í fréttum að stjórnvöld í Kænugarði hefðu átt í ófriði við rússneskuælandi íbúa í austurhéruðum landsins sl. átta ár.

Kannski sagnfræðingar geti frætt okkur um þjóðfélagslegt ástand þar fyrir innrásina?

Rússar eru nú úthrópaðir sem hin verstu óargadýr. En hver er hin raunverulega ástæða þeirra fyrir innrásinni í Úkraínu og hvers vegna bregst NATO við eins og það gerir? Úkraína er ekki innan vébanda þess. Utan frá séð virðist hernaðarleg aðstoð Vesturlanda ekki hafa dregið úr átökunum eða minnkað hina gegndarlausu rústun innviða landsins.

Tugir milljóna íbúa heimilislausir og flýja land unnvörpum, enda hvorki mat, hvíld né aðra hjálp að fá.

Höfum við gleymt bankahruninu 2008? Við Íslendingar lentum illa í því eins og fleiri þjóðir. Aðeins þrjár þjóðir buðu okkur hjálp, nefnilega Færeyingar, Pólverjar og Rússar. Ekki fór mikið fyrir frænd- eða vinaþjóðunum þegar á reyndi, enda ekki allir viðhlæjendur vinir.

Það er nú einu sinni svo, að þegar mönnum eða dýrum finnst þeim vera ýtt út í horn bregðast þau við á þann hátt einan er þau kunna; með árás, jafnvel þótt við ofurefli sé að etja. Hvar voru allir þrautreyndu diplómatarnir í aðdraganda innrásarinnar eða var einfaldlega ekki hlustað á þá? Maður hélt í einfeldni sinni að ráðamenn í V-Evrópu hefðu lært það af mistökunum við gerð og framkvæmd Versalasamninganna árið 1918 að það kann aldrei góðri lukku að stýra að þrengja svo að andstæðingi að hann sjái sér ekki annað fært en að grípa til óyndisúrræða til þess að bjarga eigin skinni. Ekki er laust við að mér hafi fundist votta fyrir niðurlægjandi tón í garð Rússlands um nokkurt skeið í orðræðu vestrænna leiðtoga.

Í Evrópu búa um 10% jarðarbúa. Ennþá teljum við okkur vera stórveldi og högum okkur sem slík en erum þó upp á BNA komin með varnir.

Slíðrum sverðin, semjum frið og munum: Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér. Hugum að ört vaxandi viðskiptaveldum í austri, sem verða án efa erfiðir keppinautar. Fróðlegt væri að vita hversu sterk valdastaða hins vestræna heims er í raun og veru um þessar mundir.

Höfundur er eldri borgari.