Gylfi Bergmann Heimisson fæddist 8. maí 1975. Hann lést 4. júní 2022. Útför Gylfa fór fram 20. júní 2022.

Nú er elskulegur vinur okkar fallinn frá með voveiflegum hætti. Sorgin er djúp enda einstakur vinur og skemmtilegur með eindæmum.

Fyrst man ég eftir Gylfa þegar hann bjó með foreldrum sínum í Eyjahrauninu í Þorlákshöfn hvar hann bjó við hliðina á fótboltavellinum í hverfinu. Móðir hans var listakokkur og kom oft fyrir að matarilminn legði yfir fótboltavöllinn fyrir kvöldmat og þá horfðu allir öfundaraugum á eftir honum ganga heim í veislu en við hin fórum heim í hversdagsleikann.

Gylfi var ávallt tilbúinn að taka þátt í hverju því sem í gangi var og margt var brallað í Þorlákshöfn á níunda áratugnum. Þar komu við sögu dínamíttúpur og alls konar bernskubrek sem myndu seint líðast í dag. Gylfi bjó í Þorlákshöfn fram að fermingu en fluttist svo til Reykjavíkur með móður sinni og bróður. Gylfi hélt ávallt traustri tengingu við æskuvinina úr Þorlákshöfn. Á ári hverju var leigður sumarbústaður þar sem komið var saman og spilað golf á golfmótinu Bestur, eldað, sagðar sögur, hlegið og sungin og spiluð lög Bubba.

Okkar leiðir lágu saman í fyrirtækjarekstri árið 2003 þegar hann taldi mig á að laga rekstur fyrirtækisins. Við unnum náið saman í endurskipulagningu rekstrarins og var hann þá starfandi sölustjóri. Á þessu ári sá Gylfi að fyrirtækjarekstur átti vel við hann. Í kjölfarið hóf hann rekstur og leit aldrei til baka. Gylfi stofnaði mörg fyrirtæki. Hann var sölumaður af guðs náð og þótti fátt skemmtilegra en að ljúka sölu. Að lokum lá leiðin í veitingarekstur og átti það huga hans í um fimm ár þangað til hann seldi hlut sinn og fór í langþráð frí. Sameiginlegur vinur okkar kom eitt sinn til mín og spurði: „Hvernig er það, verður allt að gulli sem Gylfi snertir?“ Gylfi var frumkvöðull og hafði mikla ástríðu fyrir því að koma viðskiptahugmyndum í framkvæmd.

Gylfi var heiðarlegur og góður drengur. Hann passaði ávallt upp á að standa við gefin loforð og var svo gegnheill sem mest getur verið. Gylfi var ríkur að börnum og átti fjögur sem hann var afar stoltur af. Hann talaði ávallt um þau sem betri útgáfur af sér sjálfum og var þakklátur fyrir þau. Gylfi virtist hafa einstakt lag á að setja mark sitt á börnin því þau bera sterkan föðursvip hvert á sinn hátt.

Í vinahópnum bar Gylfi nafnið Gylfinn. Gylfinn var mjög jákvæður og bjartsýnn og hóf hann ávallt samræður á því að finna leið til að hrósa viðmælanda sínum. „Þú ert svo rosalega...“ og svo kom hólið. Samhliða því að hrósa vinum sínum hafði hann húmor fyrir breyskleikum sínum og annarra. Þetta gerði það að verkum að öllum leið vel í nærveru hans. Gylfinn átti gítar sem hann spilaði mikið á. Hann taldi sig hafa mjög fína söngrödd og lét hana hljóma óspart þegar við komum saman okkur til mikillar ánægju. Gylfinn hafði ávallt mikla löngun til að bæta golfleik sinn. Nærvera hans var jákvæð, hlý og skemmtileg umfram allt og er fráfallið okkur því þungbært.

Elsku Gylfi, hvíl í friði gamli vin og við vottum börnum þínum og fjölskyldu okkar dýpstu samúð.

Arnar Freyr Ólafsson,

Helga Kristín Böðvarsdóttir.