[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Breskir fjölmiðlar velta nú vöngum yfir eftirmanni forsætisráðherrans umdeilda Borisar Johnsons, manns sem þekktur hefur verið fyrir flest annað en að binda sína bagga sömu hnútum og samferðamenn, í sæti leiðtoga Íhaldsflokksins. Teflir breska ríkisútvarpið BBC þar fram vænum hópi, reyndar á annan tug, leiðtogaefna.

Líklegast þykir að varnarmálaráðherrann Ben Wallace hreppi hnossið, kosningastjóri Johnsons árið 2017 sem einnig á að baki herþjónustuferil sem teygir sig til Þýskalands, Kýpur og Norður-Írlands þar sem hann vann sér það til frægðar að afstýra sprengjutilræði írska lýðveldishersins IRA. Wallace tók þingsæti árið 2005 fyrir kjördæmið Wyre og Norður-Preston. Lætur BBC þess enn fremur getið að þegar Wallace starfaði sem lífvörður við Buckingham-höll, innan raða skosku lífvarðanna svokölluðu, the Scots Guards, hafi hann komið sér upp hæsta barreikningi í sögu yfirmannamessans svokallaða, veitingastaðar yfirmanna í lífverðinum.

Töfrandi aðstoðarkona

Að Wallace töldum þykir Penny Mordaunt, undirráðherra utanríkisviðskipta, líkleg til að verða innsti koppur í búri flokksins að Johnson gengnum. Mordaunt varð fyrsti kvenkyns varnarmálaráðherra Bretlands árið 2019 og á sér forvitnilegan feril þar fyrir utan, var til dæmis aðstoðarkona töframanns og formaður samtaka ungs íhaldsfólks. Þá kom Mordaunt fram í sjónvarpsþættinum Splash! á ITV þar sem þekkt fólk bresks samfélags keppti í dýfingum. Mordaunt tók fyrst þingsæti árið 2010 fyrir Norður-Portsmouth.

Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra, vermir þriðja sætið á listanum langa yfir hugsanlega eftirmenn. Sunak veitti gríðarlegum upphæðum úr ríkissjóði í því augnamiði að halda hagkerfinu á floti gegnum heimsfaraldurinn, komst í kastljós fjölmiðla vegna skattamála eiginkonu sinnar auk þess sem hann hlaut sekt fyrir að brjóta sóttvarnareglur meðan kórónuveiran herjaði sem gerst. Sunak settist á þing árið 2015 fyrir Richmond.

Flögur með rækjubragði

Boris Johnson sjálfur, fyrrverandi utanríkisráðherra og borgarstjóri Lundúna, varð upprunalega ekki þjóðþekktur af stjórnmálastörfum sínum heldur fjölmiðlastörfum. Hann starfaði sem blaðamaður og ritstýrði meðal annars stjórnmálaritinu The Spectator . Johnson varð annálaður af neikvæðum skrifum sínum um Evrópusambandið sem þjóð hans kaus enda að yfirgefa löngu síðar með hinum fræga kveðjukossi Brexit.

Blaðamennskuferill Johnsons er reyndar allt annað en hefðbundinn, hann var rekinn frá The Times fyrir að spinna upp tilvitnun í frétt sem hann skrifaði auk þess sem sums staðar stóð reyndar ekki steinn yfir steini í skrifum hans, svo sem í ýmsu um Evrópusambandið sem jafnan átti undir högg að sækja hjá Johnson. Ritaði hann til dæmis frétt um að ESB hygðist banna breskar kartöfluflögur með rækjubragði og smokkar í aðildarríkjunum skyldu framleiddir í reglufestri hámarksstærð. Hvort tveggja tóm tjara.

Árið 2008 gaf hann kost á sér í borgarstjórnarkosningum Lundúna og hreppti stöðuna þá á vordögum, sat allt til ársins 2016 þegar Sadiq Khan varð borgarstjóri.

Þrætueplið Brexit

Johnson sat skólabekk virtra og sígildra breskra skóla, hvort tveggja Eton og Oxford, las grísk fræði og latínu og hefur um sína daga skrifað nokkrar bækur. Áður en hann tók við forsætisráðuneytinu árið 2019 hafði hann sagt af sér embætti utanríkisráðherra sumarið 2018 vegna deilna við Theresu May um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og hvernig hún yrði best framkvæmd. Johnson barðist hatrammlega fyrir brotthvarfi Bretlands úr ESB á sínum tíma. Sumarið 2019 gerði hann tilraun til að fá Elísabetu drottningu til að fresta fundum breska þingsins áður en að Brexit kom en frestaði þeim að lokum sjálfur. Var honum legið á hálsi í þinginu fyrir að ætla að hindra aðkomu þess að útgöngusamningi við sambandið.

Þingfrestunarmálið var síðar dæmt ólöglegt, hvort tveggja fyrir héraðsdómi í Skotlandi og Hæstarétti Bretlands. Var þing kallað saman á haustdögum 2019 og tókust samningar við ESB um skilmála Breta við útgönguna. Þeir samningar voru þó ekki óumdeildir og kaus Lýðræðislegi sambandsflokkurinn að greiða samningunum ekki atkvæði sitt auk þess sem mikill úlfaþytur stóð um tímaáætlun Johnsons sem ætlaði sér að koma samningnum gegnum þingið á þremur dögum, fyrr skyldi hann „liggja dauður í skurði“ en að fresta útgöngunni. Frestun varð þó raunin.