Afbrotatíðnin Heimsfaraldurinn hafði ýmiss konar áhrif á afbrotatíðnina.
Afbrotatíðnin Heimsfaraldurinn hafði ýmiss konar áhrif á afbrotatíðnina. — Morgunblaðið/Eggert
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Heimsfaraldurinn vegna nýju kórónuveirunnar (COVID-19) setti mark sitt á afbrotatölfræði ársins 2020, að sögn embættis ríkislögreglustjóra (RLS). Kynferðisbrot voru svipuð að fjölda miðað við meðaltal síðustu fimm ára.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Heimsfaraldurinn vegna nýju kórónuveirunnar (COVID-19) setti mark sitt á afbrotatölfræði ársins 2020, að sögn embættis ríkislögreglustjóra (RLS).

Kynferðisbrot voru svipuð að fjölda miðað við meðaltal síðustu fimm ára. Nauðgunum fækkaði um fjórðung en blygðunarsemisbrot og kynferðisbrot gegn börnum voru 23-24% fleiri.

Hegningarlagabrot á öllu landinu voru svipuð að fjölda árið 2020 og 2019. Þau voru þó 6% fleiri árið 2020 en að meðaltali síðustu fimm ár þar á undan. Þegar samkomutakmarkanir leiddu til færri tilkynninga um nauðganir þá fjölgaði tilkynningum um heimilisofbeldi. „Af þessu má sjá dæmi um það hvernig samfélagslegar aðstæður hverju sinni hafa áhrif á tíðni og eðli brota í samfélaginu,“ segir í samantekt RLS.

Brotum gegn friðhelgi einkalífs fjölgaði einna mest á árinu 2020 miðað við meðalfjölda brota síðustu fimm árin á undan, eða um 31%. Þar munaði mestu um brot gegn nálgunarbanni. Slík brot voru 120 árið 2020 eða 114% fleiri en meðaltal síðustu fimm ára á undan. Einnig voru hótanir og húsbrot fleiri og var tilkynnt um 570 hótanir og 363 húsbrot.

Ofbeldisbrotum fjölgaði um 8% miðað við meðaltal síðustu fimm ára á undan. Fjölgunin var mest í brotum sem falla undir grein 218b í hegningarlögum og varðar það þegar heilsu eða lífi fjölskyldumeðlims er ógnað endurtekið eða á alvarlegan hátt. Þessi brotaflokkur var settur í lög árið 2016 og voru 133 brot skráð 2020. Einnig voru stórfelldar líkamsárásir 37% fleiri og þrjú manndráp voru framin 2020.

Stærri hluti ofbeldisbrota féll undir heimilisofbeldi miðað við fyrri ár. Lögreglan bendir á að árið 2020 hafi verið mikil umræða um mikilvægi þess að tilkynna heimilisofbeldi í kringum COVID-19-faraldurinn. Vitundarvakningarátak var gert í lok ársins, og hafði það mögulega áhrif á tíðni tilkynninga.

Afbrot 2020
» Um 5.600 auðgunarbrot voru tilkynnt 2020. Fjársvikum fjölgaði (+41%) og ránum (+33%) en fjárkúgunum (-27%) fækkaði.
» Innbrot voru óvenjufá rétt eftir að samkomutakmarkanir tóku gildi. Þeim fjölgaði um sumarið þegar takmörkunum var að miklu leyti aflétt.