[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir það eiga þátt í háu orkuverði beggja vegna Atlantshafsins að hagkerfin hafi farið skarpt af stað í kjölfar þess að kórónuveirufaraldrinum lauk. Eftirspurn hafi verið umfram framboð og verið meiri en markaðir bjuggust við.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir það eiga þátt í háu orkuverði beggja vegna Atlantshafsins að hagkerfin hafi farið skarpt af stað í kjölfar þess að kórónuveirufaraldrinum lauk. Eftirspurn hafi verið umfram framboð og verið meiri en markaðir bjuggust við.

„Við sjáum líka mikil áhrif af Úkraínustríðinu í Evrópu. Það má heldur ekki gleyma því að markaðir eru alltaf væntingadrifnir. Við horfum nú fram á gríðarlegar hækkanir og sveiflur á orkumarkaði í Evrópu. Það held ég að sé ákveðinn markaðsbrestur. Til dæmis [er norræna kauphöllin með raforku] Nordpool að sveiflast frá 200 evrum [megawattstundin] niður í 20 evrur milli daga (sjá mánaðarverð í grafi).“

Ekki nógu virk verðmyndun

- Í hverju felst markaðsbresturinn?

„Verðmyndun er einfaldega ekki nægilega virk. Það gerist að mínu mati ekkert á orkumörkuðum milli daga sem réttlætir slíkar sveiflur. Verðmyndun virðist mjög óstöðug. Hitt er ljóst að eftirspurn eftir orku er meiri en framboðið. Svo eru það lofslagsmálin en þau hafa áhrif á verð raforku sem er framleidd með kolum og gasi.“

- Þú nefnir að hagkerfin séu að fara hratt af stað eftir að samkomutakmörkunum var aflétt o.s.frv. En hvenær verður jafnvægi náð?

„Það verður fróðlegt að sjá en svo kom Úkraínustríðið þar ofan á. Maður heyrir að fólk hefur áhyggjur af vetrinum, sérstaklega í Evrópu, en rætt er um að flytja inn gas frá Bandaríkjunum. Áhrifin munu þá smitast þangað líka. Það er mikill óstöðugleiki á mörkuðum.“

- Álverð var að meðaltali 2.486 dalir tonnið í kauphöllinni með málma í London (LME) í fyrra en 3.064 dalir að meðaltali frá ársbyrjun og til og með 5. júlí. Það hefur hins vegar lækkað í 2.400 dali.

„Ég held að álverð sé nú mjög nærri langtímaverði, 2.400-2.500 dalir. Held reyndar að álverð þurfi að vera á þessu bili til að afkoma í iðnaðinum sé ásættanleg.“

- Horfum við fram á nokkurra ára aðlögunartímabil með ýktum sveiflum í raforkuverði meðan byggð er upp endurnýjanleg orka?

„Ég tel að hægt sé að afstýra því en það er ljóst að ef markmið um kolefnishlutleysi fyrir 2050 á að nást mun heimurinn þurfa að áttfalda endurnýjanlega orkuvinnslu. Það er gríðarlega stórt verkefni. Þessar miklu sveiflur núna á orkumörkuðum eru mjög óheppilegar. Þetta er hvorki gott fyrir orkufyrirtækin né neytendur eða iðnaðinn.“

- Hvernig er svigrúm Íslands til að auka framleiðslu í samanburði við Evrópu og Bandaríkin?

„Fyrst ber að nefna hversu góð staða Íslands er. Endurnýjanlegir orkugjafar sjá okkur fyrir 85% af þeirri orku sem við notum á Íslandi. Við horfum hins vegar ekki fram á verðhækkanir til almennings og fyrirtækja og raunar ótrúlegt að það skuli hafa farið fram hjá fólki. Því þetta er það sem er að valda gríðarlegum vanda í bæði Evrópu og Bandaríkjunum, ekki aðeins hjá stóriðju heldur hjá almenningi.

Enn og aftur sannar það sig hversu mikilvæg skref voru stigin við uppbyggingu endurnýjanlegrar orku hér á landi síðustu áratugi. Okkur finnst það sjálfsagt en við njótum góðs af því í dag.“

Ekki orðið að orkukreppu

- Verið er að draga úr álframleiðslu í Bandaríkjunum vegna hás orkuverðs. Er ofmælt að tala um orkukreppu í Bandaríkjunum?

„Ég held að það þurfi lengra tímabil. Málið snýst meira um ákveðinn markaðsbrest í verðmyndun. Ég myndi ekki kalla þetta orkukreppu á þessum tímapunkti.“

- Síðasta ár var ábatasamt hjá Landsvirkjun og greiddi fyrirtækið 15 milljarða í arð. Raforkuverðið er að hluta tengt álverði en meðalverð á áli var sem fyrr segir 2.500 dalir í fyrra. Hvaða væntingar hefurðu um orkusölu til álvera í ár?

„Við höfum birt afkomuna á fyrsta ársfjórðungi sem var mun betri en á fyrsta fjórðungi í fyrra. Eftirspurnin er líka meiri. Þannig að við gerum ráð fyrir að afkoman verði mjög góð á þessu ári.“

- Jafnvel betri en 2021?

„Já.“

Muna taka nokkur ár

- Fram hefur komið að erlendir aðilar hafa sýnt því áhuga að kaupa raforku á íslandi. Eru einhver tíðindi af því á fyrri hluta þessa árs?

„Við höfum ekki svigrúm til að taka nýja stóriðju til Íslands. Kerfið er nálægt því að vera fullnýtt og það er nokkuð langt í að nýjar virkjanir koma inn [á raforkukerfið]. Við höfum í langan tíma verið að undirbúa nokkur verkefni en erum ekki komin með leyfi fyrir þeim. Erum enn að vinna í leyfisveitingaferlinu sem hefur tekið óeðlilega langan tíma.

Þannig að það eru að minnsta kosti fjögur til fimm ár þar til nýjar virkjanir koma inn. En við erum að sjá smærri fyrirtæki í matvælaiðnaði, fiskeldi, gagnaverum, þörungarækt og á fleiri sviðum koma inn. Og svo er rafeldsneytið að þróast. Við horfum fram á mikla eftirspurn sem við getum ekki mætt nema að hluta,“ segir Hörður.

Ekki háðir sveiflum

Hörður segir fyrirtækin njóta þess að geta gert langtímasamninga um orkukaup.

„Og þótt það séu ákveðnar verðtengingar í samningunum er áherslan á stöðuga samninga fyrir okkar viðskiptavini. Það vitnar nú um samkeppnishæfnina að þótt við höfum náð fram verulegum hækkunum á raforkuverði og að viðskiptavinir okkar séu að borga sambærilegt raforkuverð og gerist best annars staðar, að þá skuli þeir ekki vera háðir þessum miklu verðsveiflum eins og til dæmis álver í Bandaríkjunum,“ segir Hörður um samkeppnisstöðuna.

Hann kveðst aðspurður vera bjartsýnn á þróun hrávörumarkaða og telur sömuleiðis ekki útlit fyrir að niðursveiflan fram undan verði langvinn á hrávörumörkuðum.