Selma Jóhannesdóttir fæddist 9. nóvember 1939 á Auðnum á Akranesi. Hún lést 22. júní 2022. Útför hennar fór fram 6. júlí 2022.

Í dag minnumst við hennar Selmu, okkar gömlu og góðu nágrannakonu af Vatnsnesveginum.

Selma bjó lengi ásamt fjölskyldu sinni að Vatnsnesvegi 17 og á milli fjölskyldna okkar varð mikill og góður vinskapur. Ljóslifandi mynd kemur upp í hugann af Selmu á náttsloppnum og inniskónum í kaffisopa og smók, eins og tíðkaðist á þeim tíma og rabbað var um allt á milli himins og jarðar og hlegið dátt. Barnalán Selmu var mikið og við systurnar á Vatnsnesvegi 19 voru heldur upp með okkur að fá að passa börnin hennar Selmu og það var alltaf mikið líf og fjör á barnmörgu heimilinu.

Selma var ein af þeim sem gekk í öll verk og naut sín sérstaklega vel í byggingaframkvæmdum með Kidda sínum, sem var byggingaverktaki og á þeim árum unnu þau náið saman. Flísalagði Selma ófáar íbúðirnar, enda einstök handverkskona. Það sem einkenndi Selmu öðru fremur var sá skemmtilegi húmor sem hún hafði fyrir sjálfri sér. Hún tók sjálfa sig ekki of alvarlega og var hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi. Selma var hrein og bein, talaði aldrei illa um fólk og var trúr og tryggur vinur.

Selma hélt upp á áttræðisafmæli sitt 2019 með pompi og prakt og sagði þá að þetta partí væri hennar erfidrykkja, vegna þess að hún vildi hitta fólkið á meðan hún væri lifandi. Okkur fjölskyldunni af Vatnsnesvegi 19 var boðið í þessa skemmtilegu erfidrykkju, sem var svo sannarlega í hennar anda og auðvitað á maður að fagna lífinu lifandi. Það gerði Selma.

Við sendum öllum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minning þín lifir elsku Selma.

Þínir fyrrverandi nágrannar af Vatnsnesveginum,

Alda, Valdimar og dætur.