Aaron De Groft
Aaron De Groft
Aaron De Groft hefur verið sagt upp starfi safnstjóra hjá listasafninu Orlando Museum of Art í Flórída í Bandaríkjunum í kjölfar rannsóknar bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, á 25 málverkum sem eignuð voru Jean-Michel Basquiat.

Aaron De Groft hefur verið sagt upp starfi safnstjóra hjá listasafninu Orlando Museum of Art í Flórída í Bandaríkjunum í kjölfar rannsóknar bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, á 25 málverkum sem eignuð voru Jean-Michel Basquiat. FBI lagði hald á málverkin fyrir viku vegna gruns um að þau væru ekki ekta. Telur FBI að fyrri eigendaskrá sé fölsuð.

Dagblaðið The New York Times hefur eftir ónefndum starfsmanni safnsins að stjórn þess hafi ákveðið á þriðjudag að segja De Groft upp störfum. Cynthia Brumback, stjórnarformaður safnsins, sendi svo frá sér yfirlýsingu sem staðfesti þetta. Segir á vefnum ArtNews að safnstjórinn fyrrverandi hafi átt í vafasömum tölvupóstssamskiptum við sérfræðing sem vildi ekki leggja nafn sitt við að verkin væru ekta en hafði áður kveðið upp þann dóm. Mun De Grot hafa skrifað sérfræðingnum að hann ætti að halda sig á sínu afmarkaða sviði og hótað að upplýsa að hann hafi fengið 60 þúsund dali greidda fyrir úttekt sína á hinum meintu verkum Basquiat.