Timbur Efni frá Element er notað í Skógarböðunum í Eyjafirði.
Timbur Efni frá Element er notað í Skógarböðunum í Eyjafirði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Tekjur byggingarfyrirtækisins Element hafa aukist hratt síðustu árin. 2019 námu þær 229 milljónum króna, árið 2020 voru þær orðnar 329 milljónir og 2021 voru þær í kringum fimm hundruð milljónir.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Tekjur byggingarfyrirtækisins Element hafa aukist hratt síðustu árin. 2019 námu þær 229 milljónum króna, árið 2020 voru þær orðnar 329 milljónir og 2021 voru þær í kringum fimm hundruð milljónir.

Sverrir Steinn Ingimundarson framkvæmdastjóri segir í samtali við Morgunblaðið að töluverð vitunarvakning hafi orðið síðustu ár fyrir krosslímdum timbureiningum, meginsöluvöru félagsins. Það sé m.a. skýring á aukinni veltu. „Það hefur verið mikil vitundarvakning um gildi þess að fara vistvænar leiðir í húsbyggingum, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum en einnig hjá hinu opinbera. Í síauknum mæli er fyrirskipað í opinberum útboðum að byggingarefnið eigi að vera krosslímdar einingar,“ segir Sverrir.

Nefnir Sverrir útboð í nýjan leikskóla í Urriðaholti sem og Miðborgarleikskóla í Reykjavík dæmi um þetta.

Bindur kolefni

Sverrir segir gríðarlegan mun á að byggja úr steinsteypu eða timbri þegar kemur að kolefnisfótspori framkvæmda. „Steinsteypan eykur losun en timbrið bindur kolefni.“

Eins og Sverrir útskýrir er áætlað að 40% kolefnislosunar í heiminum komi frá byggingarstarfsemi og rekstri bygginga. Því sé til mikils að vinna að velja vistvænar leiðir.

Aðspurður segir Sverrir að oft átti fólk sig ekki á að hús úr krosslímdu timbri séu timburhús enda eru þau gjarnan einangruð og klædd að utan og innan. Þó er oft farin sú leið að leyfa timbrinu að njóta sín. „Lava Center á Hvolsvelli er gott dæmi um hús þar sem burðarvirkið er úr krosslímdu timbri. Því er leyft að vera mjög sýnilegu. En þar sem það er málað kox-grátt þá eru margir sem átta sig ekki á að þetta er krosslímt timbur og halda það vera steinsteypu.“

Krosslímt timbur frá Element er að sögn Sverris Svansvottað og notað jafnt í útveggi, innveggi, milligólf, þakplötur og stiga.

Flutt með Mykines

Krosslímdu einingarnar eru framleiddar eftir pöntun hjá austurríska framleiðandanum KLH Massivholz GmbH og koma tilsniðnar til Íslands á vögnum. Þeim er ekið um borð í flutningaskipið Mykines sem siglir á milli Rotterdam og Íslands. „Við skipuleggjum uppsetninguna og lestunina fyrir fram þannig að þegar vagninn er opnaður eru fyrstu stykkin í reisingunni efst og svo koll af kolli. Þú vinnur þig niður vagninn. Þetta flýtir framkvæmdinni, lágmarkar lagerhald á verkstað og allt umfang.“

Spurður um fjölda verkefna á ári hjá Element segir Sverrir að á síðasta ári hafi verið sett upp 50 hús og á þessu ári verða þau örugglega fleiri en stærð húsa getur verið afar mismunandi eða frá 100 herbergja hóteli niður í sumarhús.

Spurður um áhrif faraldursins og stríðsátaka í Úkraínu á reksturinn segir Sverrir að til dæmis hafi verð á timbri rokið upp á síðasta ári. Hækkanirnar hafi verið þær mestu á síðari árum. „Við vorum svo heppnir að vera búnir að festa verð á verkefnum síðasta árs mjög snemma og birginn stóð við alla samninga og tók á sig hráefnishækkanir. Við lentum því ekki í neinum vandræðum og viðskiptavinir okkar fengu það sem þeir höfðu samið um.“

Eins og Sverrir útskýrir þá gengu verðhækkanir á timbri til baka að hluta til á síðustu mánuðum.

Þarf ekki að sannfæra

Spurður um eftirspurnina eftir einingunum og hvort að mikil orka fari í að sannfæra markaðinn um gildi vörunnar, segir Sverrir að ekki sé þörf á því. „Við erum með meira en nóg af fyrirspurnum. Við erum í raun alveg á haus og verkefnastaðan er vægast sagt mjög góð. Það er helst að við eigum erfitt með að anna eftirspurn.“

Sverrir telur engan vafa leika á að hlutdeild timburs á markaðinum muni aukast í framtíðinni. „Við vonumst einnig til þess að yfirvöld byrji að veita ívilnanir. Þannig hvetja þau markaðinn til notkunar á vistvænni lausnum, rétt eins og gert hefur verið með nýorkubíla.“