Strandveiðar Gengið hefur vel á strandveiðum og potturinn stækkaður.
Strandveiðar Gengið hefur vel á strandveiðum og potturinn stækkaður. — Morgunblaðið/Alfons
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur bætt 1.074 tonnum af þorski við strandveiðipottinn. Þar af fengust 874 tonn í skiptum fyrir makrílheimildir, 50 ónýtt tonn voru færð frá frístundaveiðum og 150 ónýtt tonn vegna línuívilnunar.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur bætt 1.074 tonnum af þorski við strandveiðipottinn. Þar af fengust 874 tonn í skiptum fyrir makrílheimildir, 50 ónýtt tonn voru færð frá frístundaveiðum og 150 ónýtt tonn vegna línuívilnunar.

„Ég fagna þessari viðbót, en þetta dugir ekki til að tryggja strandveiðar út ágúst ef gæftir og aflabrögð verða með sama hætti og hingað til í sumar,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda (LS). Hann segir smábátasjómenn almennt vera á móti því að svæðisskipting verði aftur tekin upp á strandveiðum, líkt og matvælaráðherra leggur til.

„Strandveiðin gengur ekki upp nema það séu tryggðir tólf veiðidagar fyrir hvern bát í hverjum mánuði yfir tímabilið,“ segir Örn. Þetta var samþykkt á aðalfundi LS og stóðu öll svæðisfélögin á bak við tillöguna. Vel hefur fiskast í sumar og því þurfti að bæta við aflaheimildum til að tryggja að allir veiðidagarnir nýtist.

„Þegar lagt var af stað með þetta kerfi var gengið út frá því að allir væru tryggir með tólf veiðidaga í mánuði,“ segir Örn. Verði gæftir áfram góðar telur Örn að viðbótin hefði þurft að vera um 3.000 tonn þannig að heildaraflinn verði 13.000 tonn í stað 10.000 tonna. Þriðjungurinn af viðbótinni sé þó kominn.

Góð aflabrögð og fleiri bátar

Fleiri bátar stunda strandveiðar nú en í fyrra og þorskaflinn er 6% meiri í hverjum róðri en þá, að sögn Arnar. Í maí og júní náðu 95 strandveiðibátar tólf veiðidögum í hvorum mánuði. Sömu mánuði 2021 náðu 27 bátar að nýta jafn marga veiðidaga.

Örn segir að aflabrögðin hafi ekki alltaf verið jafn góð og nú. Sumarið 2019 mátti veiða 11.100 tonn af þorski á strandveiðum en heildarveiðin varð 9.100 tonn. Ekki var leyft að flytja óveidda aflann yfir á næsta ár, en það hefði komið í veg fyrir stöðvun strandveiða 2020. Smábátasjómenn á Norðausturlandi hafa bent á að þegar fiskur fer að ganga á þeirra mið séu strandveiðimenn í öðrum landshlutum búnir að veiða af kappi og kvótinn jafnvel langt kominn.

„Þessi vandi verður úr sögunni ef öllum eru tryggðir tólf veiðidagar í mánuði,“ segir Örn. Hann segir að gæftir geti verið misjafnar og brælur komi í öllum landsfjórðungum.

Örn minnir á umsögn Landhelgisgæslunnar 2019 um fyrirkomulag strandveiðanna eftir að horfið var frá svæðaskiptingu 2018. LHG taldi að reynslan af tólf veiðidögum á mánuði hafi verið góð. Veiðidagar hafi verið valdir með tilliti til veðurs og sjólags í stað þess að keppast um að veiða hvernig sem viðraði. Veiðidagafyrirkomulagið hafi því aukið öryggi smábátasjómanna.