Kolbrún Baldursdóttir
Kolbrún Baldursdóttir
Steinþór Stefánsson steinthors@mbl.is Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir þörf vera á enn frekari breytingum á frístundastyrkjum Reykjavíkurborgar. Nefnir hún til að mynda breytingu á skilyrðum styrksins, þ.e.

Steinþór Stefánsson

steinthors@mbl.is

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir þörf vera á enn frekari breytingum á frístundastyrkjum Reykjavíkurborgar. Nefnir hún til að mynda breytingu á skilyrðum styrksins, þ.e. að hægt sé að sækja um námskeið sem varir í styttri tíma en átta vikur, sem og að öll námskeið á vegum borgarinnar ættu að falla þar með undir styrkinn.

„Ég vil sjá þennan styrk notaðan í öll námskeið á vegum borgarinnar. Ég veit til þess að mörg sumarnámskeið eru dýr og það eru ekkert allir sem hafa efni á að leyfa barni sínu, og jafnvel börnum, að fara á þau.

Og af því að þau eru svo stutt þá er ekki hægt að nota styrkinn, þau eru kannski bara í tvær vikur. Svo eru auðvitað mörg námskeið styttri. Það eru allskonar námskeið í boði og engin ástæða að koma í veg fyrir börn geti nýtt sér þau með því að heimila ekki að nota styrkinn í þau,“ segir hún við Morgunblaðið.

Kolbrún bendir á að átta vikur, sem skipulagt starf þarf að ná yfir svo að unnt sé að nota styrkinn, sé allt of langur tími. Það henti ekki öllum börnum að taka þátt í svo löngum námskeiðum. Engin rök séu fyrir því að ekki sé hægt að stytta tímann í tvær vikur, því ávinningurinn af því sé sá að möguleikum barna myndi fjölga.

Nýting frístundastyrks er auk þess misjöfn eftir hverfum. Nefnir hún til sögunnar hverfi 111 sem að hennar sögn hefur verið með minnstu nýtinguna í mörg ár.

„Þar er fátækasta fólk borgarinnar búsett, en þar hefur félagsleg blöndun ekki tekist vel, t.d. í Fellunum. Ég hef lagt fram þá hugmynd að rætt sé við sérhvert barn og foreldra þess til að hjálpa því að finna tómstundir og áhugamál sem henta til að nota frístundarstyrkinn í. Leyfa á krökkunum að nota styrkinn eins og þau geta en til þess þarf að slaka á skilyrðum og rýmka reglurnar um frístundastyrkinn,“ segir Kolbrún.