[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Védís Hervör Árnadóttir er fædd 8. júlí 1982 í Reykjavík Hún bjó í nokkur ár í barnæsku í Tennessee í Bandaríkjunum þar sem foreldrar hennar voru í háskólanámi.

Védís Hervör Árnadóttir er fædd 8. júlí 1982 í Reykjavík Hún bjó í nokkur ár í barnæsku í Tennessee í Bandaríkjunum þar sem foreldrar hennar voru í háskólanámi. Formlegt tónlistaruppeldi Védísar hófst með píanónámi og kórsöng í Grensáskirkjukór hjá Margréti Pálmadóttur sem gaf henni tækifæri til að fara í prufur og leika í söngleikjum í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu frá 10 ára aldri. „Þar fékk ég tónlistarbakteríuna sem ég hef ekki hrist af mér síðan. Við tóku sjónvarpsþættir, söngur inn á plötur og síðar söngleikjalífið í Verzlunarskólanum. Svo hef ég ferðast um allan heim við leik, nám og störf. Kúba, Japan og Kína eru mest framandi – tónleikaferðalög í bland við viðskiptaferðir í tengslum við vinnuna.“

Áður en Védís hóf eigin sólóferil söng hún með Bang Gang á evrópskri útgáfu af plötunni You sem gefin var út árið 2000 í Evrópu og túraði samhliða í Frakklandi og síðar í Japan. Védís lærði svo upptökustjórn og hljóðblöndun í Lundúnum og tilheyrði í mörg ár lagahöfundateyminu BFD sem var svokölluð slagaramaskína fyrir aðra tónlistarmenn þar í borg. Védís hefur einnig samið fyrir og með íslensku tónlistarfólki reglulega í gegnum tíðina. Þá var Védís ein af fyrstu Frostrósunum á Íslandi sem færðu landsmönnum jólatónleikavertíðina eins og við þekkjum hana í dag.

Védís gaf út fyrstu sólóplötuna sína, In the Caste , 19 ára gömul. Hún var tilnefnd sem bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum sama ár og hlaut gullplötu ásamt fjölda tilnefninga og verðlauna. Seinni sólóplata Védísar, A Beautiful Life – Recovery Project, sem skartaði útvarpssmellunum A Beautiful Life og Happy to be here , kom út árið 2007 þegar Védís var 25 ára. Platan færði Védísi dreifingarsamning hjá AWAL, einum af stærstu dreifingaraðilum heims. Árið 2016 gaf Védís út lagið Grace og lagið Blow my mind kom út ári síðar en það lag hlaut tilnefningu sem popplag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Í kjölfarið fylgdu lögin Punch Drunk Love og Wild og nýtt lag eftir hana, Pretty Little Girls, kom út í síðasta mánuði. Lagið má finna á öllum helstu streymisveitunum og er einstaklega ljúft popplag sem hljóðar vel í eyru og er auk þess ádeila á útlitsdýrkun samtímans.

Tónlist Védísar einkennist af ljúfum laglínum og fallegum söng en lögin eru einnig frábærlega útsett og hljóðblönduð. „Nýjasta lagið var fjögur ár í skúffunni. Ég er svolítill tvíhöfði. Tónlistin hefur fylgt mér alla tíð og svo starfa ég sem miðlunarstjóri hjá Samtökum atvinnulífsins í dag þar sem ég fæ útrás fyrir aðra hlið á mér. Ég hef nú verið í atvinnupólitík á sjöunda ár en fer í annan gír þegar ég sem tónlist. Ég hef notið láns af því að vinna með frábæru fólki sem vinnur eingöngu við tónlist. Ég rauf tónlistarlega þögn eins og einhver komst vel að orði í fréttatilkynningu, árið 2016, og var ég þá búin að vera í sleitulausu háskólanámi og vinnu meðfram MBA-námi, með börn og bú. Hausinn var búin að vera úti um allt en ég kem alltaf aftur að tónlistinni. Hún kjarnar mig, en ég staldra kannski ekki lengi við í senn.“

Védís er með BA-gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og MBA-meistaragráðu í rekstri og stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er varaformaður og stjórnarmanneskja í Félagi tónskálda og textahöfunda. Hún hefur frá 2017 setið í stjórn Leikfélags Reykjavíkur. Védís var einn stofnenda og jafnframt fyrsti formaður KÍTÓN, félags kvenna í tónlist, sem fagnar tíu ára afmæli sínu í haust. Hún situr í stjórn ÚTÓN og í stjórn Tónskáldasjóðs RÚV og STEFs.

Þá er hún ein af eigendum fyrirtækisins Freyja Filmwork ásamt Tinnu Hrafnsdóttur, Dögg Mósesdóttur og Þóreyju Mjallhvíti H. Ómarsdóttur. Konur eru í aðalhlutverki í kvikmyndagerð hjá Freyju Filmwork, sjá um sköpunarferlið og framleiðsluna í víðum skilningi, en Védís hefur til að mynda samið tónlist fyrir auglýsingar, stuttmynd og kvikmynd. Starf og hugðarefni fara hönd í hönd saman þegar kemur að áhugamálum Védísar. „Ég hef unun af því að framleiða gott efni, bæði fyrir eyru og augu og að koma flóknum hlutum yfir á mannamál með sagnaaðferð og hughrifum. Við það vinn ég dags daglega. Sköpunarkrafturinn finnur sér alltaf farveg, jafnvel í þurrustu aðstæðum. Svo hef ég einfaldlega fylgt hjartanu og farið í það nám og starf sem kallað hefur sterkt á mig.“ Védís og eiginmaður hennar, Þórhallur Bergmann, eignuðust nýverið sitt þriðja barn og eru þau stödd á Mexíkóflóanum um þessar mundir. „Fjölskyldan á hug minn og hjarta og á svona tímamótum blasir tímaglasið svolítið við. Núið er það eina sem við höfum. Ég er varla hálfnuð með ævina, ef Guð lofar en mér er umhugað um að vera ekki orkugleypandi fjölfrumungur hér á jörð. Ég vil leggja mig fram um að skilja meira eftir mig en ég tek, eins smátt og það kann að vera í anda og efni.“

Fjölskylda

Eiginmaður Védísar er Þórhallur Bergmann, f. 12.7. 1977, lögmaður. Þau eiga þrjú börn: 1) Árni Stefán Bergmann, f. 14.7. 2009. 2) Jóhann Vikar Bergmann, f. 21.12. 2011. 3) Bryndís Helga Bergmann, f. 30.12. 2021. Systkini Védísar eru: 1) Aldís Kristín Árnadóttir Firman, f. 19.4. 1980, lögfræðingur og frumkvöðull í Bretlandi. 2) Guðmundur Egill Árnason, f. 18.12. 1988, hugbúnaðarverkfræðingur hjá Marel. 3) Sigfús Jóhann Árnason, f. 15.8. 1990, kvikmyndagerðarmaður. Foreldrar Védísar eru Árni Sigfússon, f. 30.7. 1956, kennari og stjórnsýslufræðingur, fyrrv. borgarstjóri og bæjarstjóri í Reykjanesbæ, og Bryndís Guðmundsdóttir, f. 25.3. 1959, talmeinafræðingur. Þau eru búsett í Reykjanesbæ.