Afsögn Boris Johnson veifar til stuðningsmanna sinna við Downingstræti 10 í gær.
Afsögn Boris Johnson veifar til stuðningsmanna sinna við Downingstræti 10 í gær. — AFP/Justin Tallis
Stefán Gunnar Sveinsson Atli Steinn Guðmundsson Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gærmorgun af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins, eftir að ljóst varð að hann nyti ekki lengur trausts innan þingflokks íhaldsmanna.

Stefán Gunnar Sveinsson

Atli Steinn Guðmundsson

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gærmorgun af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins, eftir að ljóst varð að hann nyti ekki lengur trausts innan þingflokks íhaldsmanna. Hyggst Johnson sitja áfram, venju samkvæmt, sem forsætisráðherra þar til búið er að velja næsta leiðtoga Íhaldsflokksins, en það ferli getur tekið allt að þrjá mánuði, eftir því hvernig valinu vindur fram.

Breskir fjölmiðlar greindu hins vegar frá því í gærkvöldi að nokkrir af þingmönnum Íhaldsflokksins vildu að Johnson yfirgæfi forsætisráðherrastólinn sem fyrst, og kæmi því til greina að fyrri hluta valsins, þar sem þingmenn flokksins velja á milli formannsframbjóðenda þar til einungis tveir standa eftir, yrði flýtt, þannig að ljóst yrði fyrir lok næstu viku hverjir lokakandídatarnir væru.

Þá væri líklegt, að þrýst yrði á þann, sem talinn væri eiga minni möguleika, á að draga framboð sitt til baka, líkt og Andrea Leadsom gerði árið 2016, þegar kannanir bentu til þess að Theresa May færi með öruggan sigur af hólmi í seinni hluta valsins, sem felur í sér póstkosningu þar sem allir flokksmenn Íhaldsflokksins eru gjaldgengir.

Hóta að leggja fram vantraust

John Major, fyrrverandi forsætisráðherra Íhaldsflokksins, sendi í gær bréf til 1922-nefndarinnar, yfirstjórnar þingflokks Íhaldsmanna, þar sem Major hvatti til þess að Johnson yrði knúinn til þess að yfirgefa forsætisráðuneytið þegar í stað, frekar en að bíða, þar sem „velferð þjóðarinnar“ krefðist þess.

Þá hótaði Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, því að flokkurinn myndi bera fram vantrauststillögu á Johnson, ef hann hyrfi ekki úr embætti forsætisráðherra.

Ekkert fararsnið var hins vegar á Johnson í gær, sem fundaði með nýskipuðu ráðuneyti sínu, en því er ætlað að sitja sem starfsstjórn þar til nýr forsætisráðherra tekur við. Sagði hann á ríkisstjórnarfundinum að starfsstjórnin myndi ekki standa að neinum stefnubreytingum, heldur myndi hún einbeita sér að því að framfylgja kosningaloforðum flokksins. Þá yrðu meiri háttar ákvarðanir sem hefðu áhrif á ríkisfjármálin skilin eftir fyrir næsta forsætisráðherra.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hringdi í Johnson í gær til þess að lýsa yfir vonbrigðum sínum með brotthvarf hans. „Við tökum öll þessum fréttum með hryggð. Ekki bara ég, heldur allt samfélag Úkraínu, sem hefur mikla samúð með þér,“ sagði Selenskí við Johnson, en Úkraínumenn eru mjög þakklátir fyrir þann stuðning sem Bretar hafa veitt þeim í stríðinu gegn Rússum. „Við efumst ekki um að stuðningur Breta muni halda áfram, en persónuleg forysta þín og sjarmi gerðu hann sérstakan,“ sagði Selenskí.