[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.

Sviðsljós

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Í kórónuveirufaraldrinum voru teknar ákvarðanir um afar íþyngjandi ráðstafanir sem vörðuðu börn með beinum hætti og sýndu fram á mikilvægi þess að mat á hagsmunum barna verði ávallt hluti af ákvarðanatöku og setningu laga.

Þetta segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, í nýrri ársskýrslu embættisins fyrir árið 2021.

Vegna faraldursins áttu Salvör og starfsmenn hennar fjölmarga fundi með heilbrigðisyfirvöldum á síðasta ári. Þar var minnt á að í neyðarástandi væri heilsu og velferð barna hætta búin. Í slíkum aðstæðum yrði að virða, vernda og tryggja réttindi barna.

„Það var því ánægjulegt að embætti sóttvarnalæknis leitaði á síðari hluta ársins meðal annars til ráðgjafarhóps umboðsmanns barna og óskaði eftir liðsinni hópsins við að rýna upplýsingaefni um veiruna og fyrirhugaðar bólusetningar, sem ætlað var börnum,“ ritar Salvör.

Hún segir síðasta ár um margt hafa verið eftirminnilegt, ekki síst þar sem veirufaraldurinn setti svip sinn á allt samfélagið. Starf umboðsmanns barna hefði ekki verið þar undanskilið. Ekki aðeins hafi embættið þurft að halda fleiri fjarfundi heldur hafi viðfangsefnin að miklu leyti snúist um stöðu barna í áður óþekktum aðstæðum í samfélaginu.

Áhrifin langvarandi

Umboðsmaður barna segir erfitt að gera sér grein fyrir öllum afleiðingum faraldursins á börn. Líklegt sé að í mörgum tilvikum verði áhrifin langvarandi og komi ekki fram fyrr en síðar. Salvör segir fáa þjóðfélagshópa hafa orðið fyrir viðlíka áhrifum, enda hafi skóla- og frístundastarf barna, sem og félagslíf, verið úr skorðum í nærri tvö ár.

Embætti umboðsmanns safnaði frásögnum frá börnum, sem birtar eru á vefnum barn.is. Þar kemur fram að mörg börn fundu fyrir vanlíðan, streitu, kvíða, þunglyndi og einmanaleika þegar leið á faraldurinn. Þá hafa börnin ólíkar skoðanir á kostum og göllum fjarnáms og mörgum þótti erfitt að bera grímu í skólanum. Salvör segir að af frásögnum barnanna megi draga margvíslega lærdóma fyrir framtíðina. Þar megi lesa um reynslu þeirra og sjónarmið, sem full ástæða sé til að veita athygli.

Áhrif á börn verði metin

Salvör segir embættið hafa lagt mikla áherslu undanfarin ár á áframhaldandi innleiðingu Barnasáttmálans. Eitt mikilvægasta skrefið í þá átt sé að innleiða mat á áhrifum á börn við mótun stefnu og ákvarðanatöku á öllum stigum stjórnkerfisins. Brýnt sé að innleiða slíkt mat sem allra fyrst, ekki síst með hliðsjón af fenginni reynslu síðustu ára. Tekur Salvör fram að slíkt verklag hefði getað komið í veg fyrir ýmis neikvæð áhrif sem sóttvarnaaðgerðir höfðu á börn.

„Einnig er brýnt að hafa í huga að mat á áhrifum á börn felur í sér annað og meira en mat á hagsmunum þeirra, réttindum og þörfum hverju sinni, því leiði mat á áhrifum í ljós neikvæð áhrif á börn, ber stjórnvöldum skylda til þess að leita allra leiða til að fyrirbyggja slík áhrif og grípa til mótvægisaðgerða í þeim tilvikum þar sem það er ekki gerlegt. Þá ber íslenska ríkinu jafnframt að tryggja að allar ákvarðanir sem varða börn, séu teknar út frá því sem þeim er fyrir bestu, eins og Barnasáttmálinn gerir kröfu um,“ ritar Salvör ennfremur.

Mun oftar í fréttum

Umboðsmaður barna hefur nýtt sér þjónustu Fjölmiðlavaktarinnar til að vakta umfjöllun um embættið í útvarpi, sjónvarpi, blöðum og á netmiðlum. Umboðsmaður var um 200 sinnum til umfjöllunar í fjölmiðlum í fyrra, borið saman við 177 sinnum árið 2020. Þar af voru um 130 fréttir í netmiðlum, 42 í prentmiðlum og 15 fréttir skráðar í sjónvarp eða útvarpi.

Ný vefsíða, með slóðinni barn.is, fór í loftið árið 2020. Er henni ætlað að bæta aðgengi barna að embættinu með einföldum og gagnlegum upplýsingum. Var vefurinn tilnefndur til verðlauna í tveimur flokkum á Íslensku vefverðlaununum. Þá er embættið er einnig virkt á Facebook og Instagram, auk þess sem fréttabréf koma út rafrænt.