Júragarður „Ég fór ekki í bíó til þess að horfa á einhvern forstjóra taka slæmar ákvarðanir fyrir umhverfið, það er minn raunveruleiki. Mig langar að sjá hryllilegar risaeðlur éta mannfólk,“ skrifar gagnrýnandi um Jurassic World Dominion. Hér má sjá helstu mannleikara myndarinnar saman komna.
Júragarður „Ég fór ekki í bíó til þess að horfa á einhvern forstjóra taka slæmar ákvarðanir fyrir umhverfið, það er minn raunveruleiki. Mig langar að sjá hryllilegar risaeðlur éta mannfólk,“ skrifar gagnrýnandi um Jurassic World Dominion. Hér má sjá helstu mannleikara myndarinnar saman komna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Colin Trevorrow. Handrit: Michael Crichton, Colin Trevorrow og Emily Carmichael. Aðalleikarar: Chris Pratt, Bryce Dallas Howard, Laura Dern, Sam Neill, Jeff Goldblum, DeWanda Wise og Isabella Sermon. 2022. 146 mín.

Tuttugu og níu ár eru liðin frá því Jurassic Park eftir Steven Spielberg sló í gegn og halaði inn rúman milljarð dollara. Nú er Jurassic World Dominion sýnd í kvikmyndahúsum Íslands og er hún sjötta myndin sem er gerð eftir bókum Michaels Crichtons. Kvikmyndin gerist nokkrum árum eftir lok síðustu myndar, Jurassic World: Fallen Kingdom. Leikstjórinn Colin Trevorrow sleppir því að fjalla um hvernig mannkynið lærir að lifa með risaeðlum sem fer sífjölgandi.

Í söguheimi Jurassic World Dominion er mannfólkið nú þegar orðið vant því að lifa með risaeðlum. Unnið er að því að halda þeim í skefjum um allan heim og með samþykki stjórnvalda hefur Biosyn Genetics komið á fót risaeðluverndarsvæði í Dólómítafjöllum á Ítalíu þar sem stundaðar eru erfðafræðirannsóknir. Í afskekktum skála í Sierra Nevada-fjöllunum ala aðalpersónurnar Claire (Bryce Dallas Howard) og Owen (Chris Pratt) upp hina 13 ára gömlu Maisie Lockwood (Isabella Sermon) og vernda hana gegn erfðarannsóknafyrirtækjum á borð við Biosyn. Maisie er erfðafræðilegt undur þar sem hún er klóni móður sinnar. Annars staðar hafa áður útdauðar risaengisprettur með óskiljanlegum hætti birst aftur í miklum fjölda og þurrkað út uppskeru. Plöntusteingervingafræðingurinn Ellie Sattler (Laura Dern) tekur eftir því að risaengispretturnar láta í friði akra hjá fyrirtækjum sem nota fræ frá Biosyn. Það vekur upp grunsemdir um að Biosyn hafi skapað engispretturnar til að hafa stjórn á markaðnum. Ellie heimsækir fyrrum félaga og steingervingafræðinginn Alan Grant (Sam Neill) til að fá aðstoð við að stela sýni úr engisprettunum frá miðstöð Biosyn og þar hitta þau Maisie Lockwood sem er á flótta eftir að hafa verið rænt af starfsfólki Biosyn.

Leikstjórinn Trevorrow beinir athygli sinni alfarið að mannlegu karakterunum og risaeðlurnar sinna því eins konar hlutverki aukaleikara.

Handritshöfundarnir Trevorrow, Emily Carmichael og Michael Crichton, virðast hafa átt í erfiðleikum með að ákveða söguþráðinn og hvaða kvikmyndagrein myndin ætti að tilheyra. Jurassic World Dominion er eflaust best að líkja við eina stóra blöndu af spennu- og ævintýramyndum. Í henni er að finna tilvísanir í James Bond-, Jason Bourne- og Mission: Impossible- myndirnar. Chris Pratt keyrir t.d. á mótorhjóli inn í flugvél á ferð en tekst því miður ekki vera jafn töff og Tom Cruise. Tilvitnanir í Indiana Jones eru líka áberandi og stendur þar eitt atriði upp úr. Alan sveiflar logandi kyndli í grýttum göngum og er næstum því étinn af risaeðlu vegna þess að hann getur ekki skilið hattinn sinn eftir. Sagan ber einnig augljós einkenni vísindaskáldskapar- og hryllingsmynda. Það væri hægt að gera heila kvikmynd um stelpu sem er klóni móður sinnar en í þessari mynd er nánast litið á það sem einfaldlega skemmtilega tilviljun, enda stórhættulegar risaengisprettur á vappi.

Ég mótmæli ekki þessari kvikmyndablöndu, allt of margar af Jurassic- myndunum hafa farið með okkur í ferðir til hitabeltiseyja þar sem allt virðist vera í lagi þangað til einhver er étinn. Jurassic World Dominion er sú fyrsta af framhaldsmyndunum sem hefur sína sterku sérstöðu, jafnvel þótt hún geti verið svolítið ruglandi og samhengislaus.

Tvær nýjar persónur eru kynntar til leiks, Kayla Watts (DeWanda Wise) sem segist ekki vilja blanda sér í vandamál hetjanna en gerir það svo og Ramsay Cole starfsmaður Biosyn sem tekur þátt í ráðabruggi Ellie og Alan. Ef til vill erum við að kynnast aðalhetjum næstu kynslóðar, það er að segja aðalpersónum næstu kvikmyndaseríu sem gerist í Jurassic- söguheiminum. Trevorrow veit líka hvernig á að ýta á nostalgíuhnappinn til að laða að eldri áhorfendur. Í myndinni mætast hetjurnar í núverandi þríleik, Owen og Claire, og gömlu vinirnir úr upprunalega þríleiknum, Alan, Ellie og Ian, sem kyntáknið Jeff Goldblum leikur.

Jurassic World Dominion er fín sumarskemmtun þegar veðrið er vont. Þetta er einföld mynd og góð hvíld frá amstri dagsins nema auðvitað þegar risaeðlurnar eru nálægt, þá heldur maður niðri í sér andanum og vonar það besta. Í myndinni eru nokkur atriði sem manni bregður við en hún er ekki nærri því eins hryllileg og upprunalega myndin Jurassic Park sem einhverjum þykir kannski undarlegt í ljósi þeirra tækniframfara sem hafa orðið frá árinu 1993. Það sem Spielberg gerir svo vel í þeirri mynd er að byggja spennu en það líður dágóður tími áður en eitthvað gerist.

Jurassic World Dominion er hins vegar hröð mynd þar sem hvergi er róleg stund enda nóg af söguþráðum í gangi í einu. Helstu mistökin eru að leggja áherslu á mannfólkið í staðinn fyrir risaeðlurnar. Ég fór ekki í bíó til þess að horfa á einhvern forstjóra taka slæmar ákvarðanir fyrir umhverfið, það er minn raunveruleiki. Mig langar að sjá hryllilegar risaeðlur éta mannfólk.

Það á ekki að taka Jurassic World Dominion alvarlega en leikararnir virðast ekki einu sinni geta það. Það skín hins vegar í gegnum hvíta tjaldið hvað þeir skemmtu sér vel í tökum.

JÓNA GRÉTA HILMARSDÓTTIR