Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þórhall Heimisson: "Ég hef lent í mörgum ævintýrum á ferðum mínum um kringlu heimsins sem leiðsögumaður. En næturflugið í loftbelgnum yfir Níl var engu líkt."

Í síðastliðnum maímánuði hélt ég með hóp tuttugu og fjögurra Íslendinga til Egyptalands á slóðir faraóanna fornu. Þetta var ferð sem lengi hafði verið í biðstöðu. Ætlunin var að sækja landið heim í október 2020, en eins og alþjóð veit skall um það leyti á eitt stykki pestarfaraldur um víða veröld sem lokaði öllum flugleiðum og löndum. En nú hefur sem sagt létt nokkuð, þannig að hægt var að halda í leiðangurinn.

Þetta var ekki mín fyrsta ferð sem leiðsögumaður til þessa magnaða lands og nýttust nú sem fyrr góð kynni við heimamenn sem greiddu götu okkar. Að ferðast til Egyptalands er að halda á vit menningar sem teygir sig meira en 5.000 ár aftur í tímann og er jafn fjölbreytt og landslagið, náttúran og umhverfið sem hana mótaði og mótar enn. Um leið er egypska menningin eins lifandi og spennandi og margbreytileg í dag og hún hefur verið um aldir. Hér er að finna pýramídana, musteri faraóanna, egypska safnið í Kaíró, dal konunganna í Lúxor, ána Níl, múslíma, koptísku kirkjuna, ægifagra eyðimörkina, rómverskar og grískar minjar, moskur, Súesskurðinn og markaðina þar sem öllu ægir saman.

Í Egyptalandi búa um 100 milljónir manna. Þar af búa í höfuðborginni Kaíró um 25 milljónir. Hér eru fornminjar á hverju götuhorni og undir hverjum steini. Frá Egyptalandi komu margar sögupersónur, bæði Biblíunnar og Kóransins. Á meðan Evrópubúar bjuggu í hellum, veiddu með steinöxum og vöfðu sig dýrafeldum sér til hita, blómstraði hin forna menning Egypta. Stórkostlegar hallir, musteri og hof voru reist guðunum til dýrðar, til að viðhalda skipulagi heimsins og til að leiðbeina sálunum á leið til dauðraríkisins – og myndletrið færði sögur og helgisagnir Egypta á papýrus.

Hér var Gamla testamentið fyrst þýtt á grísku, fyrir eitt elsta samfélag gyðinga í heiminum utan Ísraels. Hér er að finna kjarnaland hinnar kristnu menningar. Frá al Qahira – Kaíró – hinni sigursælu borg – ríktu kalífarnir yfir óendanlegu heimsveldi. Grikkir, Rómverjar, Tyrkir, Frakkar, Bretar, Kúrdar, Arabar, Þjóðverjar; allir börðust þeir um Egyptaland og reyndu að ríkja yfir því. Þannig mætti lengi telja. En umfram allt er Egyptaland vafið dulúð náttúrunnar, ægifagurt, allt frá kóralrifjum Rauða hafsins til óendanlegra tindrandi vídda eyðimerkurinnar, þar sem tíbráin lyftir landinu og himinn og jörð verða eitt.

Hópurinn minn ferðaðist vítt og breitt um Egyptaland, en einn af hápunktum ferðarinnar var flugferð í loftbelg yfir dal konunganna, þar sem grafir faraóanna eru höggnar inn í bergið. Ferðin hófst með siglingu á smábátum yfir Níl í svartamyrkri um miðja nótt til að komast á flugvöllinn, þar sem fjölmargir loftbelgir lágu eins og sprungnar blöðrur á víð og dreif. Við loftbelg sem ætlaður var okkur mörbúunum, gekk mikið á. Miklir gasbrennarar sátu ofan á körfu loftbelgsins og úr þeim stóðu geigvænlegir logar sem spúðu heitu lofti inn í belginn. Smátt og smátt fylltist belgurinn og kallaði „flugstjórinn“ þá á okkur að stökkva um borð. Karfan var stærri en við héldum og tók um þrjátíu manns en við Íslendingarnir, sem lögðum í ferðina, vorum sautján talsins.

Í körfunni voru mörg hólf og fjórir farþegar í hverju. Við klifum, skjálfandi á beinunum, um borð og ekki var síðasti farþeginn fyrr búinn að skorða sig en loftbelgurinn lyftist frá jörðu og steig hratt til himins. Flugstjórinn skrúfaði reglulega frá gasbrennurunum og skýrði frá því sem fyrir augu bar. Fyrr en varði vorum við komin í þúsund metra hæð. Útsýnið var ólýsanlega fallegt og öll lofthræðsla hvarf eins og dögg fyrir sólu... hjá flestum. Úrloftbelgnum blasti við dalur konunganna og fjöldi annarra loftbelgja sem einnig voru á ferð þarna í nóttinni. Níl liðaðist fyrir fótum okkar og hvarf út í næturhúmið. Fljótið myndar varnarvegg gegn eyðimörkinni og skilin milli lífs og dauða sáust greinilega úr loftbelgnum. Grösug engi og skógar breiddu úr sér í kringum fljótið en skyndilega tók eyðimörkin við.

Þarna í háloftunum skrúfaði flugstjórinn fyrir brennarana og kyrrðin var algjör. Það hafði birt meðan belgurinn steig til himins og skyndilega sáum við sólina rísa í austrinu og lita veröldina eldrauða. Landið tók á sig dulúðugan blæ í morgunsólinni og það var eins og kveikt hefði verið í Níl; hún logaði öll í geislum morgunsólarinnar. Fegurðin var engu lík og varla hægt að færa í orð.

Eftir hálftíma í háloftunum lækkaði flugstjórinn smátt og smátt flugið og að lokum setti hann belginn niður á akri við bakka Nílar. Þangað var þá þegar kominn hópur af aðstoðarmönnum, sem gripu í körfuna og héldu henni stöðugri á meðan við farþegarnir tíndumst frá borði. Þar með lauk þessu næturflugi í loftbelgnum yfir egypsku eyðimörkinni. Ég hef lent í mörgum ævintýrum á ferðum mínum um kringlu heimsins sem leiðsögumaður. En næturflugið í loftbelgnum yfir Níl var engu líkt.

Höfundur er rithöfundur, leiðsögumaður og prestur. thorhallur33@gmail.com