Tilbúin Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var brosmild á æfingu íslenska landsliðsins í Crewe í gær.
Tilbúin Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var brosmild á æfingu íslenska landsliðsins í Crewe í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Crewe Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is „Stemningin er virkilega góð og það er frábært að vera komin til Englands,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, miðjumaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið á fyrstu æfingu íslenska liðsins í Crewe á Englandi í gær.

Í Crewe

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Stemningin er virkilega góð og það er frábært að vera komin til Englands,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, miðjumaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið á fyrstu æfingu íslenska liðsins í Crewe á Englandi í gær.

Íslenska liðið lenti í Manchester síðdegis á miðvikudaginn eftir að hafa æft í Herzogenaurach í Þýskalandi undanfarna daga.

Fyrsti leikur liðsins í lokakeppni Evrópumótsins 2022 verður svo gegn Belgíu á sunnudaginn kemur í D-riðli keppninnar í Manchester en ásamt Íslandi og Belgíu leika Frakkland og Ítalía einnig í riðlinum.

„Ég fékk gæsahúð þegar að ég horfði á upphafsleik keppninnar á miðvikudaginn og ég er orðinn mjög spennt fyrir framhaldinu. Það var virkilega gott að eyða smá tíma í Þýskalandi áður en við komum hingað. Þar náðum við að kúpla okkur aðeins út frá öllu áreitinu á Íslandi.

Við stilltum saman strengina þar og gátum aðeins einbeitt okkur að okkur sjálfum sem var gríðarlega mikilvægt. Við vitum hvernig við viljum spila og við fórum vel yfir það í Herzogenaurach þannig að ég myndi segja að við höfum nýtt tímann virkilega vel þarna. Núna erum við hins vegar mættar til Englands og tilbúnar í slaginn,“ sagði Gunnhildur sem á að baki 90 A-landsleiki fyrir Ísland.

Fylltist stolti í Manchester

Lokakeppni Evrópumótsins átti að fara fram síðasta sumar en var frestað um ár vegna kórónuveirufaraldursins.

„Það var búið að leggja fallegt teppi merkt Evrópumótinu við flugvélina þegar við lentum í Manchester og svo sáum við liðsrútuna okkar sem var mjög vel merkt Íslandi. Maður fylltist stolti þegar maður sá þetta og þetta var ágætis áminning um það líka að mótið er að byrja.

Það er því mikilvægt að stilla spennustigið rétt og finna þetta gullna jafnvægi. Allir leikmenn liðsins eru klárir í slaginn og við erum búnar að bíða eftir þessu augnabliki í meira en ár. Við erum klárlega tilbúnar í slaginn.“

Lærðu mikið gegn Frakklandi

Belgar eru sem stendur í 19. sæti heimslista FIFA á meðan Ísland er í 17. sætinu.

„Belgarnir eru með frábært lið og mjög góða einstaklinga innan sinna raða þannig að þetta verður virkilega erfiður leikur. Við þurfum að vera mjög vel vakandi gegn þeim og vera duglegar að loka á þær. Ég á von á mjög jöfnum leik og þó þetta sé fyrsti leikurinn okkar í riðlakeppninni erum við ekki að horfa á hann sem einhvern úrslitaleik.

Við mætum í alla leiki til þess að vinna þá og ég held það skipti litli máli hvort við séum að byrja á móti Belgum, Ítalíu eða Frakklandi. Tapið gegn Frökkum í fyrsta leik á EM 2017 í Hollandi var mjög sárt og það situr alveg í sumum leikmönnum hvernig hann fór. Á sama tíma lærðum við helling af þeim leik og við munum taka það með okkur inn í leikinn á móti Belgíu á sunnudaginn.

Vita upp á hár hvað þarf til

Gunnhildur hefur litlar sem engar áhyggjur af yngri leikmönnum liðsins sem eru margar hverjar á sínu fyrsta stórmóti.

Auðvitað erum við spenntar og stressaðar og það er ekkert að því. Þetta snýst fyrst og fremst um að stilla sjálfan sig af og ég hef engar áhyggjur af því. Þetta er geggjaður hópur og þó það séu margir ungir leikmenn í hópnum þá vita þær upp á hár hvað þarf til, til þess að ná árangri, enda algjörir töffarar.

Við ætlum okkur að taka einn leik fyrir í einu og það þýðir ekki að spá of mikið í framtíðinni. Við erum Íslendingar og viljum auðvitað vinna alla leiki sem við spilum og þannig hefur það alltaf verið. Ég get alveg viðurkennt það að ég hef ekki fylgst mikið með umræðunni heima á Íslandi í kringum mótið. Það er hins vegar bara jákvætt að fólk sé spennt fyrir liðinu og að fólk hafi trú á okkur því við sem lið eigum það fyllilega skilið, bætti Gunnhildur við.

Æfing sem gaf góð fyrirheit

• Leikmenn Íslands æfðu við frábærar aðstæður á æfingasvæði Crewe Alexandra Bjarni Helgason í Crewe

bjarnih@mbl.is Það var sól og blíða þegar íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu æfði við frábærar aðstæður á æfingasvæði enska D-deildarfélagsins Crewe Alexandra í Crewe á Englandi í gær.

Leikmenn Íslands mættu ásamt öðru starfsliði liðsins til Englands síðdegis á miðvikudaginn en fram að því hafði liðið dvalið í Herzogenaurach í Þýskalandi. Æfingin í gær var því fyrsta æfing Íslands á Englandi fyrir lokakeppni Evrópumótsins sem hófst á miðvikudaginn.

Ísland mætir Belgíu í sínum fyrsta leik í D-riðli keppninnar á sunnudaginn kemur á akademíuvelli Manchester City í Manchester en hingað til hafa æfingar liðsins fyrst og fremst snúist um að slípa liðið saman fyrir átökin á Englandi.

Allir leikmenn liðsins tóku þátt í æfingunni og varnarmaðurinn Guðný Árnadóttir, sem hefur verið tæp vegna meiðsla, tók virkan þátt í henni sem eru jákvæðar fréttir.

Stemningin í hópnum er augljóslega mjög góð og á æfingunni ræddu þær Glódís Perla Viggósdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Sandra Sigurðardóttir og Sif Atladóttir allar við fjölmiðlamenn. Þær áttu það allar sameiginlegt að vera einstaklega yfirvegaðar í viðtölum sínum við íslensku fjölmiðlamennina.

Það er ákveðin ró yfir íslenska hópnum núna en samt sem áður sést það langar leiðir að hungrið er mikið í að gera vel í lokakeppninni. Spennustigið er oft hátt í fyrsta leik á stórmóti en það er eitthvað sem segir manni að leikmenn Íslands séu svo sannarlega tilbúnir í slaginn gegn Belgíu og æfingin í Crewe í gær gaf mjög góð fyrirheit um framhaldið.