Lögreglan Mál Vítalíu gegn mönnunum er nú til rannsóknar hjá lögreglu.
Lögreglan Mál Vítalíu gegn mönnunum er nú til rannsóknar hjá lögreglu. — Morgunblaðið/Eggert
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Vítalía Lazareva mætti í vikunni í skýrslutöku hjá lögreglu í tengslum við kæru hennar á hendur þremenningunum Ara Edwald, Hreggviði Jónssyni og Þórði Má Jóhannessyni.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Vítalía Lazareva mætti í vikunni í skýrslutöku hjá lögreglu í tengslum við kæru hennar á hendur þremenningunum Ara Edwald, Hreggviði Jónssyni og Þórði Má Jóhannessyni.

Kolbrún Garðarsdóttir, réttargæslumaður Vítalíu, staðfestir þetta í samtali við Morgunblaðið. Lögregla rannsakar nú málið.

Ástæða þess að málið dróst var sú að erfitt var að finna tíma sem hentaði Vítalíu og lögreglu, að sögn Kolbrúnar.

Það hafi verið misskilningur að Vítalía hafi ekki lagt fram kæru á hendur Ara, Hreggviðs og Þórði.

Vítalía neitar ásökunum um fjárkúgun á hendur þeirra þriggja að sögn Kolbrúnar.

Var reynt að leita sátta utan dómstóla áður en kæran var lögð fram?

„Það áttu sér stað samskipti á milli aðila. Einhver af þeim bauð henni að koma á fund og fara yfir málið. Síðan var leitað leiða til þess að sætta málið, þ.e.a.s. með einhvers konar fébótum. Það var gert í einhver skipti og síðan náðu aðilar ekki samkomulagi,“ segir Kolbrún. Hún tekur fram að þremenningarnir hafi átt frumkvæðið að þessum viðræðum.

Engin skýrslutaka vegna ásakana um fjárkúgun

Vítalía hefur þá ekki farið í skýrslutöku vegna ásakana um fjárkúgun og hefur Kolbrún ekki séð kæru þess efnis. Eva B. Helgadóttir, lögmaður Hreggviðs, staðfesti við Morgunblaðið nýverið að mennirnir hafi kært Vítalíu.

„Að öðru leyti er málið á því stigi að rannsóknarhagsmunir gera það að verkum að það er ekki ráðlegt að tjá sig meira um málið en það,“ sagði Eva í samtali við Morgunblaðið í lok síðasta mánaðar, nokkrum dögum eftir að kæra þremenninganna var lögð fram.

Kolbrún kveðst búast við því að rannsókn máls Vítalíu gegn þremenningunum gæti varað fram á haustið, jafnvel næsta ár. Mismunandi er eftir embættum hve lengi mál geta verið í rannsókn.

Vítalía steig fram í desember á síðasta ári og greindi þar meðal annars frá meintu kynferðisofbeldi þriggja þjóðþekktra manna gegn henni. Þeir hafa kært Vítalíu fyrir fjárkúgun, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífsins. Vítalía hefur kært þremenningana fyrir kynferðisbrot.