Sýning Glæsilegir gæðingarnir heilluðu gesti mótsins og spurðu þar ekki um aldur en þessi ungi maður var agndofa og vildi helst taka þátt í sýningunni.
Sýning Glæsilegir gæðingarnir heilluðu gesti mótsins og spurðu þar ekki um aldur en þessi ungi maður var agndofa og vildi helst taka þátt í sýningunni. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóra Birna Ingvarsdóttir thorab@mbl.is Landsmóti hestamanna lauk í gær með opnum húsum á ræktunarbúum. Síðustu Landsmótssigurvegararnir fyrir árið 2022 voru krýndir á laugardag, en þá fóru fram úrslit í gæðingakeppnum. Blautt var og fánar blöktu vel í vindinum á laugardaginn, en eftir því sem leið á daginn rættist aðeins úr veðrinu.

Þóra Birna Ingvarsdóttir

thorab@mbl.is

Landsmóti hestamanna lauk í gær með opnum húsum á ræktunarbúum. Síðustu Landsmótssigurvegararnir fyrir árið 2022 voru krýndir á laugardag, en þá fóru fram úrslit í gæðingakeppnum. Blautt var og fánar blöktu vel í vindinum á laugardaginn, en eftir því sem leið á daginn rættist aðeins úr veðrinu.

Heimaræktaður sigur

Hin tólf ára gamla Kristín Eir Hauksdóttir og hesturinn hennar Þytur frá Skáney eru Landsmótssigurvegarar í barnaflokki árið 2022, með 9 í einkunn. Kristín og Þytur gerðu gott mót en þau héldu efsta sætinu í gegnum forkeppni, milliriðil og innsigluðu svo yfirburði sína í úrslitum. Þytur er úr ræktun fjölskyldunnar. Spurð hvort hún hafi þá fylgst með Þyt frá því að hann var folald, bendir Kristín á að því sé í raun öfugt farið. „Hann er svolítið eldri en ég, en hann er sautján og ég tólf. Mamma var ólétt að mér þegar hún tamdi hann.“

Stóð við stóru orðin

Í unglingaflokki stóð Sigurður Steingrímsson uppi sem sigurvegari, á merinni Hátíð frá Forsæti II. Sigurður og Hátíð fóru sannkallaða Krýsuvíkurleið að titlinum, en í forkeppni raðaði parið sér í áttunda sæti. Eftir milliriðil féllu þau niður í það tíunda og þurftu því að sigra B-úrslitin til þess að öðlast þátttökurétt í A-úrslitum, þar sem þau báru svo sigur úr býtum með einkunnina 8,97. Hátíð er fimm folalda móðir en það var ekki að sjá á sýningunni. Úlfar Albertsson er eigandi Hátíðar. „Ég hringi í Úlfar í vetur, þegar ég vissi að hún væri geld, og ég spurði hvort það væri ekki kominn tími til þess að vinna Landsmót. Hann gaf mér tækifæri til að standa við stóru orðin og ég gerði það.“

Benedikt og Biskup bættu í

Landsmótssigurvegarar í ungmennaflokki voru þeir Benedikt Ólafsson og Biskup frá Ólafshaga, sem er jafnframt úr ræktun fjölskyldunnar. Þeir sigruðu unglingaflokk á Landsmóti fyrir fjórum árum og vörðu nú titilinn í ungmennaflokki. „Þetta er frábær karakter, alger gæðingur. Það er ekki hægt að biðja um meira í hesti,“ segir Benedikt um Biskup. Liturinn á Biskup vekur athygli, en hann jarpvindótt glófextur. Er hann eini stóðhesturinn í heiminum sem ber þennan einstaka lit, af þeim sem sýndir hafa verið.

Siggi Sig tók A-flokkinn

Veitt voru verðlaun fyrir hæst dæmdu kynbótahrossin. Sjóður frá Kirkjubæ hlaut Sleipnisbikarinn, sem er veittur þeim stóðhesti sem getið hefur af sér flest hátt dæmdu afkvæmin á undanförnum árum.

Kolskeggur frá Kjarnarholti og knapi hans Sigurður Sigurðsson eru Landsmótssigurvegarar í A-flokki gæðinga. Þeir höfðu komist í B-úrslit en unnið þau og hífðu sig svo upp um átta sæti með glæsilegri sýningu og sóttu þannig bikarinn.

Árni Björn setti svip sinn á mótið

Í B-flokki meistara stóðu Árni Björn Pálsson og Ljósvaki frá Valstrýtu uppi sem sigurvegarar með einkunnina 9,2 og varð það annar titillinn sem Árni Björn tók með sér heim af þessu Landsmóti, en hann sigraði einnig töltið á hestinum Ljúf frá Torfunesi. Á Landsmóti sýndi Árni Björn hvorki meira né minna en tuttugu og sjö kynbótahross milli keppnisgreina. „Þegar maður er að þjálfa og sýna svona marga hesta þá kemst þetta upp í rútínu og verður eins og hver önnur vinna,“ segir Árni Björn í samtali við Morgunblaðið. Hann kveðst aldrei finna fyrir stressi, enda búinn að sitja hest frá barnsaldri. „Þetta er í raun það eina sem ég kann.“

Kraftur í Konráð og Kjark

Á laugardag fór einnig fram keppni í 100 metra flugskeiði. Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu áttu þar besta tímann, en þeir luku við sprettinn á litlum 7,44 sekúndum. Þeir voru einnig Landsmótssigurvegarar í 250 metra skeiði.

Á tánum í kringum yngra fólkið

• Undirbúningur hafinn fyrir heimsmeistaramótið Sigurbjörn Bárðarson, þjálfari íslenska landsliðsins í hestaíþróttum, fylgdist vel með íþróttagreinunum á Landsmóti hestamanna þetta árið, en það kemur í hans hlut að velja þá sem keppa fyrir Íslands hönd á komandi Norðurlandamóti í haust og svo á heimsmeistaramótinu næsta sumar. „Mér líst mjög vel á þetta, hópurinn er feiknasterkur og verkefnin fram undan eru spennandi.“ Hann bendir á að undirbúningur fyrir heimsmeistaramótið hafi í raun byrjað í fyrra, og standi í hámarki núna. „Það verður gaman að sjá hvað springur út í sumar og þá getur maður áttað sig á því hverjir séu líklegir til að gera góða hluti.“

Heimsmeistaramót átti að fara fram í fyrra en því var aflýst og þá voru margir hestar seldir út. „Við hefðum að mínu mati verið með eitt sterkasta lið sem völ væri á, en þau hross voru meira og minna seld.“ Sigurbirni leist ekkert sérstaklega á blikuna í upphafi þegar knaparnir þurftu að þjálfa upp ný hross til keppni. „Það er samt eðlilegt, hlutirnir þurfa tíma til að fæðast.“ Eftir þetta Landsmót telur hann ljóst að þessi hross hafi tekið stórstígum framförum og séu farin að líta afskaplega vel út. Þá bendir hann á að liðið sé að yngjast upp. „Það verða alltaf einhver kynslóðaskipti þó stöku snillingar haldi sér gangandi. Maður þarf að vera á tánum í kringum yngra fólkið, þar er framtíðin og því alltaf efst á blaði hjá manni að fylgjast með þeim.“