Selfoss Hlynur Friðfinnsson, til vinstri, sér um daglega starfsemi skemmtistaðarins nýja á Selfossi. Þórir Jóhannsson er eigandi þessa staðar og fleiri í skyldri starfsemi. Báðir hafa þeir lengi starfað í veitingageiranum.
Selfoss Hlynur Friðfinnsson, til vinstri, sér um daglega starfsemi skemmtistaðarins nýja á Selfossi. Þórir Jóhannsson er eigandi þessa staðar og fleiri í skyldri starfsemi. Báðir hafa þeir lengi starfað í veitingageiranum. — Morgunblaðiðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Í síðustu viku bættist enn eitt blómið í flóruna í miðbænum nýja á Selfossi þegar Miðbarinn var opnaður. Barinn góði er í húsinu Friðriksgáfu sem er í stíl samnefnds húss sem forðum daga var á Möðruvöllum í Hörgárdal.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Í síðustu viku bættist enn eitt blómið í flóruna í miðbænum nýja á Selfossi þegar Miðbarinn var opnaður. Barinn góði er í húsinu Friðriksgáfu sem er í stíl samnefnds húss sem forðum daga var á Möðruvöllum í Hörgárdal. Nafn hússins er Friðriksgáfa – samkomuhús sem á að endurspegla fjölbreytta starfsemina sem þar er.

Tónleikastaður, sportbar og þægindastofa

„Hér verður margt spennandi að gerast,“ segir Þórir Jóhannsson, fjárfestir og aðaleigandi staðarins. Húsið er á þremur hæðum, í kjallara er verið að leggja lokahönd á tónleikastaðinn Sviðið . Hann á að taka um 200 manns þegar mest er og stefnt er á opnun í ágúst. Á aðalhæð hússins er Miðbarinn , sem verður í mörgum hlutverkum; sem hefðbundinn bar, sportbar, skemmti- og dansstaður, lítill tónleikastaður og fleira. Á þriðju hæðinni í Friðriksgáfu er svo þægindastofa fyrir þá sem vilja rólega stemningu.

Til að byrja með verður M iðbarinn opinn frá fimmtudegi til sunnudags en eftirspurnin ræður framhaldinu. Allir staðirnir í Friðriksgáfu tengjast og hægt er að halda eina uppákomu á öllum hæðum í einu ef svo ber undir.

Einnig er hægt að vera með þrjár sjálfstæðar samkomur á sama tíma, allt eftir því hvað fólk vill gera. „Þetta er mjög hentugt form og útfærsla. Hægt að opna með færri gestum á Miðbar en svo er auðvelt að hafa opið upp á þriðju hæð ef svo stendur á og fólkinu fjölgar,“ segir Þórir.

Dans og gleði

Miðbar í Friðriksgáfu – samkomuhúsi er með dans og gleði og er hugsaður fyrir gesti í yngri kantinum – upp úr tvítugu. Er að því leyti ákveðið mótvægi við annan stað sem við starfrækjum í nýja miðbænum, vínbarinn Risið sem er á 2. hæð í Mathöllinni í Mjólkurbúinu svonefnda. Þar verður rólegri andblær sem ætti að falla betur að því sem eldra fólk vill,“ segir Þórir.

Nokkuð er síðan skemmtistaður sem opinn er oftar en öðru hvoru um helgar hefur verið starfræktur á Selfossi. Úr því er bætt nú, segir Þórir Jóhannsson sem hefur langa reynslu úr veitinga- og skemmtanarekstri. Daglegan rekstur Friðriksgáfu hefur með höndum Hlynur Friðfinnsson, sem sömuleiðis er öllum hnútum kunnugur í svona starfsemi og kann að slá taktinn.