Fagradalsfjall Bráðin kvika vall upp úr gígunum í Geldingadölum.
Fagradalsfjall Bráðin kvika vall upp úr gígunum í Geldingadölum. — Morgunblaðið/Eggert
Gunnhildur Sif Oddsdóttir gunnhildursif@mbl.is Leiða má líkur að því að stærsti skjálftinn sem varð í skjálftahrinunni á Reykjanesskaga, 5,3 að stærð, 24.

Gunnhildur Sif Oddsdóttir

gunnhildursif@mbl.is

Leiða má líkur að því að stærsti skjálftinn sem varð í skjálftahrinunni á Reykjanesskaga, 5,3 að stærð, 24. febrúar 2021 og fannst víða, meðal annars á öllu suðvesturhorninu og í Vestmannaeyjum, hafi markað upphaf framrásar kvikugangsins undir Fagradalsfjalli sem síðan braust til yfirborðs tæpum mánuði síðar, 19. mars.

Þetta eru niðurstöður greinar sem birtist í vísindaritinu Earth and Planetary Science Letters og kemur formlega út 15. september, en höfundar hennar skoða skjálftavirknina sem hlaust af því þegar kvikan braut sér leið fram að gosinu.

Að greininni, sem er nú þegar aðgengileg á netinu, standa þrír vísindamenn frá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) og hópur vísindamanna frá Tékklandi. Greinin er hluti af verkefninu NASPMON.

„Strax í kjölfar stóra skjálftans er þetta allt að fara af stað,“ segir Þorbjörg Ágústsdóttir, jarðskjálftafræðingur og ein þeirra sem standa að greininni, um jarðskjálftann 24. febrúar 2021 og skjálftavirknina í tengslum við framrás kvikugangsins. Hún segir að það sé þó ekki hægt að sanna það en leiddar séu líkur að því.

Kvika verði að vera til staðar

„Það er spurning hvort það sé eitthvað byrjað fyrr, en það eru leiddar líkur að því að þetta sé upphaf þessa gangs, að stóri skjálftinn virki eins og gikkur. Það gætu verið aðrar skýringar en það er alla vega niðurstaðan sem við komumst að í þessari grein,“ segir Þorbjörg.

„Stjóri skjálftinn er líklega valdur að þessu kvikuhlaupi en hins vegar getur þessi skjálfti ekki valdið kvikuhlaupi nema kvika sé til staðar,“ bætir hún við.