Anna Kristjánsdóttir fæddist í Reykjavík 22. maí 1934. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á hjartadeild Landspítalans 5. júlí 2022.

Foreldrar hennar voru Kristján M. Guðlaugsson, f. 9.9. 1906, d. 2.11. 1982, og Bergþóra Brynjúlfsdóttir, f. 11.4. 1908, d. 8.3. 1987. Bróðir Önnu er Grétar Br. Kristjánsson, f. 15.9. 1937.

Anna giftist Hauki Steinsson tannlækni, f. 27.9. 1933, d. 16.3. 2013. Börn Önnu og Hauks eru: 1) Katla Steinsson, f. 7.11. 1960. Maki: Ársæll Þorsteinsson, f. 15.12. 1960. Börn: Sunna Björk, f./d. 5.6. 1997, Andri Snær, f. 22.12. 1999, Anna Sjöfn, f. 2.12. 2003. 2) Hanna Lára Steinsson, f. 27.12. 1964. Börn: Haukur Þorsteinsson, f. 23.1. 1997, Kristmann Þorsteinsson, f. 27.5. 1999. 3) Kristján Jóhann Steinsson, f. 2.3. 1973.

Anna gekk í Miðbæjarskóla, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík.

Hún starfaði í nokkur ár í bandaríska sendiráðinu eftir stúdentspróf. Eftir að Anna giftist Hauki fylgdi hún honum til Göttingen í Þýskalandi þar sem Haukur stundaði nám við tannlækningar og Anna stundaði nám í þýsku. Síðan lá leiðin til Kaupmannahafnar þar sem Haukur vann við tannlækningar í tvö ár og Anna fór í hússtjórnunarskóla í Kaupmannahöfn. Anna hafði yfirumsjón með bókasafni Rauða krossins á Landakotsspítalanum um langt árabil. Hún var mjög virk í félagsmálum, sat meðal annars í stjórn Bandalags kvenna, stjórn Kvenréttindasambandsins, stjórn kvennadeildar Rauða krossins, stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna, stjórn Hvatar og stjórn Mæðrastyrksnefndar. Anna var kosin formaður Hvatar árið 1991. Hún gegndi því starfi í nokkur ár og var alla tíð mjög virk innan Sjálfstæðisflokksins. Anna lagði ómælda vinnu við ýmis verkefni á vegum Mæðrastyrksnefndar allt til áttræðisaldurs.

Útför Önnu Kristjánsdóttur fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 18. júlí 2022, kl. 13.00.

Elskuleg tengdamóðir mín til meira en 40 ára, Anna Kristjánsdóttir, er látin. Ég kynntist henni og fjölskyldu hennar þegar ég og Katla dóttir hennar vorum að byrja saman ung að árum. Hún sýndi mér strax velvilja og góðvild, en sendi jafnframt skýr skilaboð um að við værum ung að árum og yrðum að setja framtíðina í forgang með því að mennta okkur. Hún sagði stundum að það væri hægt að taka ýmsa veraldlega hluti af fólki, en menntunina væri ekki hægt að taka.

Mér eru minnisstæðar miklar veislur og boð sem haldin voru í fjölskylduhúsinu að Skildinganesi 8. Af þessum boðum og veislum báru af í mínum huga árlegar veislur á gamlárskvöld. Þetta voru fjölmennar veislur, allt upp í 30-40 manns þegar best lét. Anna sá ávallt um veisluhlaðborðið og var það hefðbundið árum saman. Hún byrjaði undirbúning gjarnan í byrjun desember. Við skipulagninguna skrifaði hún ekki minnislista, heldur teiknaði upp veisluborðið og hvar hvaða réttur átti að vera. Að borðhaldi loknu var svo opinn bar með nægum veitingum við allra hæfi. Eftir miðnætti settist svo tengdafaðir minn heitinn, Haukur Steinsson, við píanóið og þá var sungið og dansað fram á rauða nótt.

Við hjónin ferðuðumst oft með tengdaforeldrum mínum, innanlands sem utan. Eitt sinn fór öll fjölskyldan og dvaldi á lúxushóteli á landsbyggðinni í Lúxemborg. Við vorum mörg og þurftum því stóran bíl svo við vorum á átta manna Fiat Ducato, hálfgerðum sendibíl. Önnu fannst mjög fyndið að á bílastæðinu við hótelið var Fiatinn innan um Rollsa, Bentleya, Bensa og aðra lúxusvagna!

Sterk fjölskyldubönd hafa einkennt þessa fjölskyldu og hjálpsemi og greiðvikni sjálfsagður hlutur. Alltaf voru Anna og Haukur til staðar, hvort sem verið var að flytja, innrétta, mála eða sinna annars konar verkefnum og viðhaldi. Við reyndum að gjalda þeim greiða á móti eftir föngum, en það hallar samt á okkur.

Anna var alltaf vel til höfð og í fallegum fötum. Það var alltaf reisn og fágun yfir henni svo eftir var tekið. Hún var vinsæl og vinamörg og hrókur alls fagnaðar í samverustundum fjölskyldu, vina og skólafélaga. Það sama á við um sjálfboðaliðastörf sem hún vann árum saman, m.a. fyrir Rauða krossinn inni á sjúkrahúsum og undirbúning og úthlutun hjá Mæðrastyrksnefnd.

Anna var alla tíð mikil sjálfstæðiskona. Hún sat í mörg ár í stjórn Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna, og var þar kjörin formaður 1991. Einkunnarorðin „gjör rétt – þol ei órétt“ og „stétt með stétt“ voru henni hugleikin alla tíð og lýsa vel hennar pólitísku skoðunum.

Síðustu árin fór heilsu hennar smám saman hrakandi. Ég hitti hana síðast á laugardegi og var hún þá úthvíld og í mjög góðu jafnvægi. Áttum við hina bestu stund saman sem síðan reyndist vera kveðjustund okkar. Hún lést aðfaranótt þriðjudagsins 5. júlí.

Ég kveð yndislega tengdamóður mína með ást, virðingu og þakklæti. Börnum, barnabörnum, bróður, mágkonu og öðrum ættingjum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði elsku Anna.

Ársæll Þorsteinsson.

Mágkona mín og vinur Anna Kristjánsdóttir er látin 88 ára að aldri. Vinátta okkar hélst í meira en 40. ár og þar bar aldrei skugga á. Ég kynntist Önnu fyrst svo heitið getur á umbrotatímum í mínu lífi. Hún stóð ávallt traust með mér og varð klettur í mínu lífi. Hún var stórglæsileg kona og ég leyfi mér að vitna í orð kunningjakonu hennar sem skrifaði í minningarkorti vegna andláts hennar „Hún var einstök kona, stórglæsileg, sterk ,fáguð og eldklár. Alla þessa stórkostlegu mannkosti hafði hún.“ Þótt háleit sé þá er þetta hárrétt lýsing. Samskipti okkar og barna hennar, Kötlu Steinsson, Hönnu Láru og Kristjáns Steinsonar, voru mikil og góð. Anna og Haukur Steinsson tannlæknir maður hennar voru höfðingjar heim að sækja og héldu í áraraðir ógleymanlegar jóla- og áramótaveislur. Því miður missti hún Hauk árið 2013 en þau höfðu gengið í hjónaband ung að aldri.

Það var okkur til gleði að Anna dvaldi árlega hjá okkur en við Grétar höfðum aðstöðu í Bandaríkjunum svo og í Súðavík. Anna var mikil heimskona og fáguð í framkomu og með reisn. Hún gat haft ákveðnar skoðanir en það varð aldrei til vansa. Einn látinn vinur okkar kallaði hana alltaf The Lady, eða heimskonuna. Hún var félagslynd. Hún var góð kona og vildi láta gott af sér leiða Hún gegndi störfum sem formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, hjá Rauða krossinum og vann mikið með Mæðrastyrksnefnd. Allt var þetta sjálfboðavinna og ekki verið að bera á torg.

Hún hélt góðri heilsu fram eftir öllu en síðustu þrjú árin eða svo voru erfið. Við Grétar bróðir hennar vottum börnum hennar Kötlu, Hönnu Láru og Kristjáni Jóhanni samúð okkar. Við munum sakna hennar.

Gerður Gunnarsdóttir.

Anna Kristjánsdóttir, frænka mín, var systir föður míns Grétars Br. Kristjánssonar. Þau systkin hafa alla tíð verið afar náin. Þau voru bara tvö systkinin og eignuðust sín fyrstu börn sama árið. Við Katla erum fæddar 1960, ég í mars og Katla í nóvember.

Líf mitt er mótað af samveru við fjölskyldu Önnu frænku, Hauks og barna þeirra, Kötlu, Hönnu Láru og Kristjáns Jóhanns fram á þennan dag.

Við Katla vorum einbirni í fjögur ár og fengum að hittast eins oft og færi gafst. Fyrir mér var það toppurinn á tilverunni að vera hjá þeim Önnu frænku, Hauki og Kötlu og fá að leika og gista.

Anna og Haukur eignuðust Hönnu Láru 1964 og svo Kristján Jóhann 1973. Við Katla vorum of ungar til að fá að passa Hönnu Láru, en við fengum að passa Kristján. Ærslabelginn, sem vildi ekki fara að sofa því það var svo gaman að vera til.

Við Katla fengum að vera í sama bekk í Melaskóla og Hagaskóla. Anna frænka var heimavinnandi á þeim tíma og því gat ég alltaf farið heim með Kötlu í hádegismat og jafnvel eftir skóla.

Anna frænka tók stóran þátt í uppeldi mínu. Hún hefur alla tíð verið mín fyrirmynd, stoð og stytta. Fyrsta skiptið sem við Katla fórum einar á leiksýningu í Þjóðleikhúsinu sagði Anna frænka við mig: „Bergþóra mín, mundu að maður fer í sínu fínasta pússi á leiksýningu í Þjóðleikhúsinu. Annað er vanvirðing.“ Ég var ekki alveg sátt, en hún hafði rétt fyrir sér.

Með Önnu frænku og fjölskyldunni fór ég í fyrsta skipti á veitingahús, meira að segja í útlöndum. Hún kenndi mér hvernig maður átti að bera sig að, lesa matseðil og nota öll þessi hnífapör sem fylgdu forrétti, aðalrétti og eftirrétti. Mér fannst hún heimsdama sem kunni allt og vissi allt.

Anna hélt einstaklega vel utan um stórfjölskyldu sína. Hún sá um samskiptin við frændfólk sitt, bauð í afmælisboð, páskaboð, jólaboð og gamlárskvöld var einstakt. Þá buðu þau Haukur stórfjölskyldunni heim á Skildinganesið. Allir mættu, frá ungbörnum til þeirra elstu. Þar var sungið, spilað og spjallað. Það var miklu skemmtilegra að vera með fjölskyldunni þennan dag en að fara í boð eitthvað annað.

Anna frænka var mjög vel gefin, fróð og glæsileg kona. Hafði áhuga á pólitík og velferðarmálum og tók virkan þátt í hvoru tveggja.

Anna hafði alla tíð gaman af því að ferðast. Síðustu árin hennar fékk ég tækifæri til að fylgja henni nokkrum sinnum til Flórida. Þangað fór hún í heimsókn til bróður síns Grétars Br. og konu hans Gerðar. Henni fannst gott að vera með þeim. Elskaði að sitja í hitanum og lesa eða spjalla.

Með þakklæti og virðingu kveð ég yndislegu frænku mína.

Bergþóra Kristín Grétarsdóttir.

Flestar minningargreinar fjalla um tvær persónur, þann eða þá sem minnst er, þann eða þá sem minnist. Þetta er eðlilegt, því að ekki erum við eylönd, flest eigum við samferðamenn. Og af þeirri samferð fæðast minningarnar, sameiginlegar minningar. Og þess vegna heita svona kveðjuorð minningargreinar, þegar við kveðjum látinn ástvin eða góðan vin. Og við Anna Kristjánsdóttir vorum vinir. Vinir til tæpra 83 ára nákvæmlega tiltekið.

Við hæfi þykir, þó að ekki takist það nú alltaf, að minningargreinarnar fjalli meira um þann sem minnst er en þann sem minnist. Ég ætla því bara að láta þess getið að í þeirri vináttu var hún sú gjöfula, sem aldrei féll blettur á, allt frá því að við hittumst í rútubíl Ólafs Ketilssonar með foreldrum okkar á leið til Laugarvatns vorið 1940, gegnum öll menntaskólaárin og í hópi sem hefur haldið innbyrðis tryggð allar götur síðan.

Tryggð er eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann þegar Önnu er minnst. Hún var ekki af þeirri tegundinni sem bar tilfinningar sínar á torg, en ef eitthvað bjátaði á hjá öðrum var hún fyrst á vettvang að rétta hjálparhönd. Þessi tryggð byggðist á innbyrðis réttlætiskennd sem hún aldrei hrósaði sér af og sem síst birtist í tilfinningasemi. Hins vegar kom engum á óvart þó að hún starfaði áratugum saman í framvarðarsveit Mæðrastyrksnefndar – þegar þá loks af því fréttist, því að ekki flíkaði hún því heldur.

Sumir lýstu henni þó sem ómannblendinni og jafnvel fráhverfri, aðrir sögðu hún bæri sig eins og aristókrat. Víst um það, að hún var höfðingi í lund eins og hún átti kyn til, faðir hennar um skeið ritstjóri Vísis og síðan einn af hinum ráðsnjöllu hugsuðum Lofleiðaævintýrisins, föðurbróðir hennar skáldið Jónas Guðlaugsson, sem einna fyrstur Íslendinga gerði strandhögg erlendis með skáldskap sínum, en dó ungur. Hæversku sína sótti Anna væntanlega til móður sinnar sem var orðlögð geðprýðismanneskja, þó að í móðurættina skorti ekki heldur litríka og lifandi persónuleika. Gestrisni var Önnu í blóð borin, arfur frá bernskuheimilinu, sem þau Haukur og hún héldu í heiðri alla tíð og hún eftir lát hans til hins síðasta.

Anna lifði alla tíð við reisn, en síðustu árin voru henni erfið eins og mörgum. Því tók hún með heimspekilegri ró.

Afkomendum sendum við Þóra hlýjar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Önnu Kristjánsdóttur.

Sveinn Einarsson.

Kær vinkona er látin og farin á næsta tilverustig. Góðar minningar hrannast upp í hugann, við kynntumst í Sjálfstæðisflokknum fyrir hartnær 40 árum síðan. Það var gaman og gefandi að starfa í Hvöt og með Landssamtökum sjálfstæðiskvenna og í málefnanefndum flokksins, mikið rætt og margar ályktanir samþykktar, skemmtilegir og málefnalegir fundir og ráðstefnur. Anna var tryggur félagi, alltaf til í að vera með við undirbúning og framkvæmdir, skoðanir hennar voru yfirvegaðar og skynsamar og vert að hlusta vel á afstöðu hennar til einstakra mála.

En, Anna var fyrst og fremst góð vinkona og hennar er sárt saknað. Fyrir rúmum 30 árum, fórum við að spila saman bridge, fjórar frískar og skemmtilegar konur. Við reyndum að hittast á tveggja vikna fresti og þó að ekkert væri slegið af við spilamennskuna á þessum spilakvöldum, voru þjóðmálin auðvitað rædd og höfðum við mjög ákveðnar skoðanir á gjörðum stjórnmálamannanna og þær vegnar og metnar, sérstaklega þó flokksfélaga okkar. Þegar ein okkar sigldi á önnur mið í pólitíkinni, færðist enn meira fjör í umræður og sjónarmiðin urðu fleiri og skemmtilegri.

Þó að heilsan hennar Önnu hafi smátt og smátt farið versnandi allra síðustu árin og verið til leiðinda, þá hélt hún reisn sinni og ekkert var gefið eftir í spilamennskunni, rökhugsun og minni alveg á sínum stað.

Sú vinátta sem við höfum átt í öll þessi ár er ómetanleg og ekki sjálfgefin. Við þökkum þessi ár, þessar góðu og gefandi stundir og sár söknuður mun fylgja okkur inn í nýjan tíma, án Önnu.

Innilegar samúðarkveðjur til Kötlu, Hönnu Láru, Kristjáns og fjölskyldna þeirra.

María E. Ingvadóttir, Ásdís J. Rafnar og Ingveldur Fjeldsted.

Fallin er frá kær vinkona og fyrirmynd, Anna Kristjánsdóttir.

Vináttu okkar má rekja ríflega 30 ár aftur í timann þegar við sátum saman í stjórn Sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar undir forystu Önnu. Hópurinn hefur haldið saman allar götur frá fyrstu kynnum og hist reglulega. Eins og geta má nærri voru samræður mjög fjörlegar og hápólitískar. Jafnframt var hópurinn náinn og tók þátt í gleði og sorg hver annarrar. Anna hafði mjög sterkar skoðanir á flestum dægurmálum og nutum við þess að heyra viðhorf hennar meðal annars um frammistöðu stjórnvalda hverju sinni.

Anna var mikill gestgjafi og ófáar samverustundir áttum við á fallegu heimili hennar og eiginmanns hennar, Hauks Steinssonar, sem lést fyrir nokkrum árum

Um leið og við kveðjum kæra vinkonu, sendum við hlýjar samúðarkveðjur til Kötlu, Hönnu Láru, Kristjáns og fjölskyldna þeirra.

Ellen Ingvadóttir, Helga Ólafsdóttir, Hrefna Ingólfsdóttir, Ingveldur Fjelsted, Kristín Zöega, Oddný Vilhjálmsdóttir og Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir.

Í dag kveðjum við Önnu Kristjánsdóttur, fyrrum formann Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík og stjórnarkonu í Landssambandi sjálfstæðiskvenna.

Anna var um langan tíma mjög virk í starfi Sjálfstæðisflokksins. Hún var hluti af stórum hópi atorkusamra kvenna sem létu mikið til sín taka í félagsstarfinu með þá áherslu að greiða götur kvenna í stjórnmálum. Þessar konur höfðu ástríðu fyrir samfélagsmálum, héldu fjöldann allan af vel sóttum fundum og viðburðum um málefni líðandi stundar hverju sinni og tóku virkan þátt í hvers kyns samfélagsstarfi og má þá sérstaklega nefna Mæðrastyrksnefnd.

Anna var kjörin í stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna árið 1987 og sat þar í stjórn um árabil. Hún tók við sem formaður Hvatar, félags sjáfstæðiskvenna í Reykjavík, sem er jafnframt elsta stjórnmálafélag kvenna á Íslandi, árið 1991. Í viðtali við Önnu í Morgunblaðinu á 55 ára afmæli Hvatar árið 1992 sagði hún: „Við erum ekki sáttar við ástandið. Okkur finnst þáttur kvenna ekki nógu mikill þegar litið er til þess að konur eru 50% kjósenda en hlutur alþingiskvenna ekki nema 20%. Konur hafa ekki þingstyrk á við það sem atkvæðamagn segir til um,“ sem er dæmi um þann baráttuanda sem ríkti í kvennastarfinu á hennar vakt.

Við viljum þakka Önnu fyrir hennar mikilvægu störf í þágu frelsis og jafnréttis enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið brautryðjandi í jafnréttismálum og má það meðal annars þakka liðsheild þessara öflugu kvenna.

Við vottum fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúð.

Nanna Kristín Tryggvadóttir formaður LS og Sirrý Hallgrímsdóttir formaður Hvatar.

Ég minnist Önnu Kristjáns og eignmanns hennar Hauks Steinssonar með miklu þakklæti og hlýju. Ég tel að það hafi verið mér mjög gæfuríkt spor að hafa fengið kynnst þeim þegar ég var 11 ára gömul, þegar þau réðu mig sem barnapíu að passa dóttur þeirra Kötlu, þá tveggja ára yndislega stúlku. Hefur mér auðnast sú gæfa að verða samferða þeim í lífinu.

Þegar ég lít yfir þessi 60 ár hrannast upp minningar hversu gjafmild, rausnarleg og tillitssöm þau voru við mig. Það var aðdáunarvert hversu mikið þau kenndu mér og tóku mig inn í fjölskyldu sína. Ég var velkomin í allar veislur hjá fjölskyldunni. Sem dæmi um rausnarskap þeirra var þegar ég átti mitt fyrsta barn, gáfu þau mér útigalla á barnið í þrjú ár. Þegar ég var að halda upp á eitt stórafmæli mitt þá hringdi Anna og bauð fram hjálparhönd, sem er mér ógleymanlegt.

Anna og Haukur voru miklir heimsborgarar og vinamörg. Anna stóð með lítilmagnanum, sbr. hún vann mikið með Mæðrastyrksnefnd og m.a. pakkaði inn gjöfum í desember til fanga. Anna og Haukur voru fáguð í alla staði og töluðu aldrei illa um fólk. Mikill kærleikur var milli Önnu og bróðir hennar Grétars og hans fjölskyldu. Ég kynntist einnig Kristjáni og Bergþóru foreldra Önnu og Grétars en þau reyndust mér einnig mjög vel þegar ég var að passa Kötlu. Þau sendu mér einnig gjafir við mikilvæg tímamót í mínu lífi.

Ég mun ávallt minnast Önnu, Hauks, fjölskyldum og vinum þeirra með ljúfu þakklæti og hlýju í huga.

Ég votta Kötlu, Hönnu Láru, Kristjáni, Grétari og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð. Megi Guð umvefja þau kærleika.

Vil enda á erindi úr ljóðinu

Kvæðið um fuglana

Snert hörpu mína, himinborna dís,

svo hlusti englar guðs í Paradís.

Við götu mína fann ég fjalarstúf

og festi á hann streng og rauðan skúf.

Ég heyri' í fjarska villtan vængjaþyt.

Um varpann leikur draumsins perluglit.

Snert hörpu mína himinborna dís,

og hlustið, englar guðs í Paradís.

(Höf: Atli Heimir Sveinsson / Davíð Stefánsson)

Erla Friðriksdóttir.

Anna Kristjánsdóttir starfaði til margra ára sem sjálfboðaliði Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Hún var bæði ljúf og góð manneskja og var mjög vel liðin af öðrum sjálfboðaliðum og þiggjendum aðstoðar nefndarinnar.

Ég kynntist Önnu þegar ég hóf störf sem sjálboðaliði hjá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur árið 2005. Við náðum vel saman og áttum sameiginleg áhugamál svo sem bókmenntir og gat hún oft bent mér á góðar og fræðilegar bækur sem vert var að lesa.

Nú er fallin frá yndisleg og dugleg kona, blessuð sé minning hennar.

Fyrir hönd Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur sendi ég aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.