Arnarnesvegur Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina.
Arnarnesvegur Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina. — Ljósmynd/Helga Kristín Gunnarsdóttir
Íbúar sem búa nálægt fyrirhuguðum Arnarnesvegi um Vatnsendahvarf vonast til að geta sent inn kæru vegna framkvæmdanna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í vikunni.

Íbúar sem búa nálægt fyrirhuguðum Arnarnesvegi um Vatnsendahvarf vonast til að geta sent inn kæru vegna framkvæmdanna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í vikunni. Þetta staðfestir Helga Kristín Gunnarsdóttir, sem komið hefur fram fyrir hönd íbúasamtakanna Vinir Vatnsendahvarfs.

Fyrri kæru samtakanna hefur áður verið vísað frá, því samtökin voru ekki talin eiga lögvarða hagsmuni, og nú hefur því verið reynt að fá undirskriftir íbúa frá sem flestum stöðum, næst fyrirhuguðu vegstæði. Samtökin hafa ekki enn fengið skýrar upplýsingar um hvernig nefndin metur hverjir eigi lögvarða hagsmuni en síðast voru þau ekki talin eiga lögvarða hagsmuni því íbúarnir bjuggu í eins og hálfs kílómetra fjarlægð frá fyrirhuguðum gatnamótum.

Að sögn Helgu er hún nú búin að fá um 40 undirskriftir og í þetta skiptið eru þau einnig með undirskriftir frá íbúum í Fellunum, í Seljahverfinu og frá íbúum í Kórahverfinu sem búa munu einungis 40 metra frá veginum, verði hann lagður.

Þá segir Helga að rafrænir undirskriftalistar dugi ekki, hver og einn kærandi þurfi að skrifa undir kæruna, sem veldur því að töluvert erfiðara er að safna undirskriftum.

„Það er gríðarleg vinna sem felst í þessu, og náttúrulega allt sjálfboðaliðavinna, svo það gerir þetta enginn nema að vonast til að geta breytt einhverju,“ segir Helga.

„Þetta er svolítið eins og að berjast við vindmyllur.“