Fjárfesting Síminn mun þurfa að ræða við Ardian um atriði er varða kaupsamning aðila, samhliða viðræðum Ardian við Samkeppniseftirlitið.
Fjárfesting Síminn mun þurfa að ræða við Ardian um atriði er varða kaupsamning aðila, samhliða viðræðum Ardian við Samkeppniseftirlitið. — Morgunblaðið/Eggert
Franski fjárfestingarsjóðurinn Ardian er ekki reiðubúinn að ljúka viðskiptum um kaup á Mílu ehf. af Símanum hf., á grundvelli óbreytts kaupsamnings.

Franski fjárfestingarsjóðurinn Ardian er ekki reiðubúinn að ljúka viðskiptum um kaup á Mílu ehf. af Símanum hf., á grundvelli óbreytts kaupsamnings. Kaupsamningurinn hljóðaði í október upp á rúma 78 milljarða íslenskra króna, eða 519 milljónir evra samkvæmt genginu þá.

Tillögurnar íþyngjandi og þess eðlis að fela í sér neikvæð áhrif

Fram hefur komið að samkvæmt frumniðurstöðu Samkeppniseftirlitsins raskar samruni Mílu og Ardian samkeppni og verður því ekki samþykktur án skilyrða eða frekari útskýringa af hálfu samrunaaðila. Ardian upplýsti Símann í gær, sunnudag, um að það væri mat sjóðsins að tillögurnar sem hann hefði lagt fyrir Samkeppniseftirlitið varðandi breytingar á fyrirhuguðum samningi væru íþyngjandi og þess eðlis að fela í sér neikvæð áhrif í skilningi kaupsamnings aðila.

Það sé þá mat Ardian að ef samruninn verði samþykktur af hálfu samkeppnisyfirvalda með fyrirliggjandi skilyrðum, feli það í sér að eitt af skilyrðum þess að viðskiptin gangi í gegn samkvæmt kaupsamningnum teljist ekki uppfyllt. Hefur Ardian því upplýst að félagið muni ekki ljúka viðskiptunum á grundvelli óbreytts kaupsamnings.

Af þessu er ljóst að Síminn mun þurfa að ræða við Ardian um atriði er varða kaupsamning aðila, samhliða viðræðum Ardian við Samkeppniseftirlitið, að því er sagði í tilkynningu í gærkvöldi. Kaupsamningurinn var gerður á síðari hluta síðasta árs, en salan hefur verið umdeild.

Langstærstu viðskipti síðustu þrettán ára
» Kaup Ardian á Mílu eru langstærstu viðskipti á Íslandi á síðustu þrettán árum.
» Samkeppniseftirlitið hefur verið með yfirtöku Ardian til rannsóknar frá 8. febrúar.
» Salan á Mílu hefur meðal annars verið gagnrýnd af alþingismönnum á borð við Ásthildi Lóu Þórsdóttur og Oddnýju Harðardóttur.