Bækur Velgengni spennusagnahöfundarins Ragnars Jónassonar bæði erlendis sem og á Íslandi heldur áfram, en bókin Úti var nýlega þýdd á ensku.
Bækur Velgengni spennusagnahöfundarins Ragnars Jónassonar bæði erlendis sem og á Íslandi heldur áfram, en bókin Úti var nýlega þýdd á ensku.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Sigríður Arnalds gsa@mbl.is Bókin Úti eftir Ragnar Jónasson var mest selda skáldverkið í Winnipeg í Kanada í liðinni viku, en hún hefur notið mikilla vinsælda síðan hún var gefin út í enskri þýðingu.

Guðrún Sigríður Arnalds

gsa@mbl.is

Bókin Úti eftir Ragnar Jónasson var mest selda skáldverkið í Winnipeg í Kanada í liðinni viku, en hún hefur notið mikilla vinsælda síðan hún var gefin út í enskri þýðingu. Ragnar segir viðtökur við bókinni hafa verið vonum framar og að þýðing hennar á ensku hafi verið framúrskarandi.

Bókin var þýdd af Vicky Cribb, en gagnrýnendur hafa hrósað hennar starfi, ásamt því að Ragnar segir hana einstaklega góðan þýðanda. „Enska þýðingin er oft notuð sem grunnur til annarra landa og þess vegna mikilvægt að hafa öflugan þýðanda,“ bætir hann við í samtali við Morgunblaðið.

Bækur Ragnars hafa verið gefnar út í fleiri en þrjátíu löndum, en í flestum tilvikum eru bækurnar þýddar úr ensku á önnur tungumál. Þær hafa notið mikilla vinsælda og hafa nú selst í yfir tveimur og hálfri milljón eintaka. Einnig hafa gagnrýnendur virtra erlendra blaða og tímarita farið afar lofsamlegum orðum um rithöfundinn Ragnar.

Sögurnar fara á hvíta tjaldið

Breski kvikmyndaframleiðandinn og leikstjórinn Ridley Scott tryggði sér á árinu réttinn á Úti og greinir Ragnar frá því að ferlið við að gera bókina að kvikmynd sé komið af stað. „Við höfum fundað reglulega og það er gaman að sjá að framleiðendurnir virkilega vilja ná myndinni á hvíta tjaldið, ég er alltaf að pæla í bókinni einmitt vegna þess.“

Ragnar greinir frá því að hann vinni nú einnig að tveimur öðrum verkefnum í tengslum við kvikmyndir eða sjónvarpsefni. Annars vegar hefur kvikmyndaframleiðandinn Warner Bros tryggt sér réttinn að bókaseríu hans, sex bóka röð sem kennd er við Siglufjörð, en hún verður útfærð fyrir sjónvarp í samstarfi við Herbert L. Kloiber og fyrirtæki hans, Night Train Media. Hins vegar á fjölmiðlasamsteypan CBS réttinn að bókinni Dimmu, sem fékk meðal annars frábæra dóma hjá dönskum gagnrýnendum. Íslenska framleiðslufyrirtækið True North vinnur að sjónvarpsseríu upp úr síðarnefndu bókinni ásamt CBS. „Ég bíð bara spenntur að sjá hvað af þessu gerist fyrst, en það eru góðir hópar að baki öllum verkefnunum og mér finnast það mikil forréttindi að fá að sitja á hliðarlínunni og fylgjast með ferlinu.“

Fleiri bækur á leiðinni

Ragnar segir að ásamt því að fylgja eftir ferlinu í sjónvarps- og kvikmyndaverkefnum gefi hann sér nægan tíma til að skrifa. „Það eru alltaf bækur á leiðinni, en ég er með nokkur verkefni í tölvunni núna.“ Hann segist hafa þrjú verkefni í deiglunni, en meðal þeirra er bók sem hann vinnur að með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hin verkefnin eru annars vegar samstarfsverkefni og hins vegar framhald af fyrri bókum hans, en Ragnar kveðst ekki vilja fara neitt nánar út í þá sálma.

Íbúar Winnipeg hafa sýnt bókinni mikinn áhuga, en þess mætti ef til vill vænta þar sem margir þar eiga ættir að rekja til Íslands. Ragnar hefur heimsótt borgina og segir ferðina hafa gefið sér mikið innsæi. „Ég fór til Winnipeg í bókatúr fyrir fjórum árum og það er mjög gaman að sjá að þar sé fólk af íslenskum ættum að lesa bækurnar, ég hitti til dæmis konu þar sem hefur aldrei komið til Íslands en talaði lýtalausa íslensku.“

Ragnar kveðst ekki hafa búist við svo góðum viðtökum og það sé ómögulegt að spá um velgengni: „Maður fer alltaf út með hverja bók og gerir sér engar væntingar í rauninni, því er það alltaf ánægjulegt þegar gengur vel.“