Meðalvegur Mohammed bin Salman krónprins ræðir við Joe Biden Bandaríkjaforseta á fundinum í Jeddah. Hann varar við því að þjóðir heims fari of geyst þegar skipt er úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa.
Meðalvegur Mohammed bin Salman krónprins ræðir við Joe Biden Bandaríkjaforseta á fundinum í Jeddah. Hann varar við því að þjóðir heims fari of geyst þegar skipt er úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa. — AFP / Bandar al-Jaloud
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu og eiginlegur leiðtogi landsins, sagði á sunnudag að brýnt væri að fjárfesta bæði í jarðefnaeldsneyti og grænni orku til að mæta eftirspurn á heimsvísu. Lét hann ummælin falla á fundi leiðtoga Bandaríkjanna, Sádi-Arabíu, Kúveit, Barein, Katar, Óman, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Jórdaníu, Egyptalands og Íraks en þeir komu saman í Jeddah um helgina.

Baksvið

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu og eiginlegur leiðtogi landsins, sagði á sunnudag að brýnt væri að fjárfesta bæði í jarðefnaeldsneyti og grænni orku til að mæta eftirspurn á heimsvísu. Lét hann ummælin falla á fundi leiðtoga Bandaríkjanna, Sádi-Arabíu, Kúveit, Barein, Katar, Óman, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Jórdaníu, Egyptalands og Íraks en þeir komu saman í Jeddah um helgina.

Varaði krónprinsinn við því sem hann kallaði óraunhæf útblástursmarkmið og sagði þau bjóða heim hættunni á mikilli verðbólgu. „Að innleiða óraunhæfar reglur sem miða að því að draga úr útblæstri með því að útiloka helstu orkugjafa mun, á komandi árum, leiða til meiri verðbólgu en áður hefur sést, stuðla að hærra orkuverði, vaxandi atvinnuleysi og magna upp alvarleg samfélags- og öryggisvandamál.“

Bætti hann við að í ljósi kórónuveirufaraldursins og þess ástands sem heimsbyggðin stendur núna frammi fyrir þyrftu ríki heims að sameinast um að efla alþjóðahagkerfið og um leið búa þannig um hnútana að skipt verði yfir í endurnýjanlega orkugjafa með raunhæfum og ábyrgum hætti.

Tregir til að fjárfesta í nýjum lindum vegna pólitískrar óvissu

Innrás Rússlands í Úkraínu og kórónuveirufaraldurinn hafa raskað framboði og eftirspurn jarðefnaeldsneytis en marga framleiðendur skortir getuna til að auka framboðið eða koma nægu magni af olíu og gasi þangað sem þörfin er mest. Hafa markaðsgreinendur bent á að ör verðhækkun olíu og annars jarðefnaeldsneytis stafi m.a. af því að orkufyrirtæki hafi verið treg til að fjárfesta í aukinni framleiðslugetu vegna þeirrar stefnu stjórnvalda víða um heim að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eins hratt og eins mikið og kostur er.

Mohammed bin Salman sagði gestum ráðstefnunnar í Jeddah að Sádi-Arabía hygðist fjárfesta í aukinni framleiðslugetu á komandi árum svo að landið geti árið 2027 nýtt allt að 13 milljónir fata úr olíulindum sínum dag hvern, en í dag er framleiðslugetan að hámarki 12 milljónir fata. „En þegar þessu marki er náð mun konungsríkið ekki geta aukið framleiðslu sína frekar,“ sagði prinsinn.

Sádi-Arabía framleiðir alla jafna á bilinu 9 til 11 milljónir fata af olíu daglega eða um 11% af allri olíu sem framleidd er á heimsvísu.

Biden biður Arabaríkin um að skrúfa frá

Athygli vakti að Joe Biden Bandaríkjaforseti sótti ráðstefnuna í Jeddah en hann hefur nýlokið fjögurra daga ferð um um Mið-Austurlönd með viðkomu í Ísrael, Palestínu og Sádi-Arabíu. Miðaði þátttaka Bidens m.a. að því að hvetja olíuframleiðsluríkin í hópnum til að auka olíuframboð og þannig stemma stigu við þeirri miklu hækkun sem hefur orðið á heimsmarkaðsverði olíu. Einnig vakti fyrir Bandaríkjaforseta að styrkja tengslin við Arabaríkin og forða því að önnur valdamikil ríki reyni að gera sig gildandi á svæðinu: „Við ætlum ekki að kveðja si svona og skilja eftir okkur tómarúm sem Kína, Rússland eða Íran munu reyna að fylla upp í,“ sagði Biden í ræðu sinni.

Biden tókst ekki að fá fundargesti til að fallast á að setja strax meiri olíu á markað en hann kvaðst bjartsýnn á að fundur OPEC-landanna og samstarfsríkja þeirra í ágústbyrjun myndi leiða til aukinnar framleiðslu.

Framboð og eftirspurn
» Heimsmarkaðsverð hráolíu fór yfir 120 dala markið í júní.
» Verðið hefur leitað niður á við og er nú í kringum 100 dali.
» Sádi-Arabía hyggst auka framleiðslugetu sína á komandi árum úr 12 í 13 milljónir fata.
» Krónprinsinn segir útblástursmarkmið óraunhæf og að þeim fylgi margir ókostir.
» Joe Biden þrýstir á ríkin við Persaflóa að auka framboð til að ná olíuverði niður.