Brak Vélin náði ekki að nauðlenda á flugvellinum við bæinn Kavala.
Brak Vélin náði ekki að nauðlenda á flugvellinum við bæinn Kavala. — AFP
Öll áhöfn fraktflutningavélarinnar sem brotlenti nálægt grísku borginni Kavala á laugardag lét lífið, en átta manns voru um borð.

Öll áhöfn fraktflutningavélarinnar sem brotlenti nálægt grísku borginni Kavala á laugardag lét lífið, en átta manns voru um borð. Flugvélin var úkraínsk af gerðinni Antonov 12 og var að flytja um ellefu tonn af hergögnum, þar á meðal jarðsprengjur, til Bangladess. Sjónarvottar deildu á samfélagsmiðlum myndskeiðum sem sýndu flugvélina logandi þar sem hún flaug yfir og sögðust sömuleiðis hafa heyrt sprengingar koma frá vélinni.

Flugvélin hafði farið í loftið frá Nis-flugvellinum í Serbíu um klukkan tuttugu mínútur í níu að kvöldi með vopn í eigu serbneska einkafyrirtækisins Valir. Serbneski varnarmálaráðherrann sagði að vopnasendingin hefði verið samþykkt af varnarmálaráðuneyti Bangladess í samræmi við alþjóðalög.

Grískir fjölmiðlar fullyrða að flugstjórinn hafi óskað eftir heimild til að nauðlenda á Kavala-flugvellinum, en ekki tekist að ná á völlinn.

Herinn, sprengjusveitin og starfsmenn grísku kjarnorkunefndarinnar segjast ekki ætla að gera tilraun til að nálgast svæðið fyrr en hægt sé að álykta að það sé tiltölulega öruggt.

Eiturgufur á svæðinu

Fólk sem býr innan tveggja kílómetra frá slysstað var beðið um að halda sig inni á heimilum sínum og bera andlitsgrímur á laugardagskvöld til þess að tryggja öryggi sitt gegn eiturgufum. Tveir slökkviliðsmenn voru lagðir inn á spítala vegna öndunarerfiðleika eftir að hafa andað að sér eiturgufu á svæðinu.