Heiða Þórðardóttir fæddist á Akureyri 3. september 1935. Hún lést 3. júlí.

Foreldrar hennar voru Signý Stefánsdóttir og Þórður A. Jóhannsson.

Hún giftist Jóni Geir Ágústssyni og eignuðust þau sex börn.

Foreldrar Jóns Geirs voru Margrét Magnúsdóttir og Ágúst Jónsson.

Börn þeirra Heiðu og Jóns Geirs eru sex:

1) Signý, hennar börn eru Júlía Heiða, Victor og fósturbörnin Björn Þór og Birta Líf. Barnabörn Signýjar eru fjögur.

2) Þórður, kvæntur Árdísi Fanneyju Jónsdóttur og þeirra sonur er Máni.

3) Margrét, gift Guðmundi Árnasyni og þeirra dóttir er Móheiður.

4) Þórdís, gift Sigurði U. Sigurðssyni og börn þeirra eru Geir, María og Jón Heiðar. Barnabörn Þórdísar og Sigurðar eru fimm.

5) María Sigríður og hennar sonur er Daníel.

6) Jóhann Heiðar, kvæntur Valdísi Rut Jósavinsdóttur og þeirra börn eru Fannar Már, Emilía Björk og Sara Mjöll.

Heiða lauk gagnfræðaprófi, fór síðan í ritaraskóla til Englands og síðan í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Hún helgaði sig móðurhlutverkinu og uppeldi barna sinna en þegar yngsta barnið byrjaði í skóla fór hún að vinna utan heimilis, lengstan tíma á SAK og þar lauk hún starfsferli sínum.

Útför hennar fer fram í dag, 18. júlí 2022, í Akureyrarkirkju kl. 13.

Hve mjúklát er nóttin

mildum höndum fer hún

um hörpunnar strengi

og kveður þig í svefn.

(V.D.)

Nú hefur mamma okkar lagt fallegu augu sín aftur í hinsta sinn og harpa hennar hljóðnað. Við andlát móður verða bernskuminningar ljóslifandi og maður finnur sterkt hvað kærleikurinn og umhyggjan sem mamma gaf okkur hefur reynst okkur gott veganesti á lífsins göngu. Að stýra stóru og barnmörgu heimili er ærinn starfi og það leysti hún af alúð og miklum myndarskap. Hún helgaði sig fjölskyldunni og heimilishaldinu og með árunum höfum við skilið hversu oft hún setti þarfir okkar systkina í forgang fram yfir sínar eigin. Alla tíð var mikið líf og fjör á heimilinu og var mamma ákaflega stolt að eiga stóra og samheldna fjölskyldu.

Mamma bar umhyggju fyrir öllum heimsins börnum og lagði sig fram við að styðja við ýmis hjálparsamtök því tengd. Við erum afar þakklát fyrir að barnabörnin og langömmubörnin fengu að kynnast allri þeirri hlýju og væntumþykju sem mamma bjó yfir. Henni þótti svo vænt um fólkið sitt og gaf sér alltaf tíma fyrir alla – dýrmætari gjöf er ekki hægt að gefa.

Mamma og pabbi bjuggu á okkar bernskuheimili til ársins 2020 en þá þurfti mamma á aukinni umönnun að halda vegna alzheimer-sjúkdómsins. Síðustu æviárin bjó hún á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð við gott atlæti og það gladdi okkur ætíð að finna ást hennar og gleði þegar við komum og hún þekkti okkur systkinin með nafni fram á síðustu stundu þrátt fyrir alvarleika veikinda hennar.

Guð geymi þig, elsku mamma. Hafðu þökk fyrir allt sem þú varst okkur.

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar.

Mín elskulega tengdamóðir og góð vinkona, Heiða Þórðardóttir, lagði aftur augun í hinsta sinn að morgni sunnudagsins 3. júlí sl. á 87. aldursári sínu.

Samleið okkar er búin að vera löng og góð og ég þakka þér, elsku Heiða, öll árin, þau eru rík af góðum minningum af samverustundum Háalundarfjölskyldunnar með ykkur hjónum.

Þær minningar eru okkur dýrmætar og munu lifa.

Þú varst einstök kona, umhyggjusöm, hjartahlý og traust. Það var fallegt að sjá hve vel þú fylgdist með þínum afkomendum og hve umhugað þér var um velferð þeirra.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Valdimar Briem)

Hvíl í friði, elsku Heiða, og takk fyrir allt.

Þinn tengdasonur,

Sigurður (Siddi).

Elsku amma Heiða, nú er komið að kveðjustund.

Við erum svo þakklát fyrir að hafa átt þig í lífi okkar. Þú tókst alltaf svo vel á móti okkur og umvafðir okkur ást og hlýju. Þú varst stolt af öllu þínu fólki. Við munum sakna þín en við vitum að þú vakir yfir okkur og fjölskyldunni allri.

Við söknum þín, elsku amma, en ljúfar minningar munu lifa.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Geir, María og Jón Heiðar.

Í ágúst 1994 kom ég í fyrsta skipti í Hamragerðið til Heiðu og Jóns og eiginlega ömmu Signýjar líka þar sem hún bjó í húsinu við hliðina og mikill samgangur þar á milli. Við Jói bjuggum síðan okkar fyrstu ár saman hjá ömmu Signýju í Hamragerðinu.

Heiða tók mér opnum örmum eins og hún tók reyndar öllum sem komu inn á heimilið því Heiða var mjög hjartahlý og umhyggjusöm og sýndi fólki einlægan áhuga. Hún kynnti mig lengi vel sem „vinkonu“ Jóhanns sem mér þótti mjög skrítið þá en þykir vænt um í dag.

Ég sá fljótt hvað fjölskyldan skipti hana miklu máli og hún hlúði alla tíð vel að sínum. Að ala upp sex börn hefur nú ekki alltaf verið auðvelt en hún sagði alltaf þegar ég var að spjalla við hana um gamla tíma að þetta hefði allt gengið vel og að allir hefðu hjálpast að og verið vinir.

Eftir að við Jói eignuðumst börnin okkar var Heiða tíður gestur á okkar heimili og við ávallt velkomin í Hamragerðið með barnaskarann okkar og þar var heldur betur mikið líf og fjör og mikið hlegið og slegið á létta strengi. Hamragerðið var stundum eins og brautarstöð, ef kíkt var við þá hitti maður mjög líklega einhverja fleiri úr fjölskyldunni og oftar en ekki var húsið orðið fullt af fólki og ekki skemmdi fyrir að oft var til brún súkkulaðikaka í búrinu sem liðið hennar gæddi sér á yfir kaffibolla eða mjólkurglasi.

Heiða gaf sér alltaf tíma til að setjast niður og spjalla, tíma til að gefa okkur ráð og leiðbeiningar með allt milli himins og jarðar og hún gerði það svo fallega og af svo mikilli umhyggju. Hún gaf sér tíma til að taka í spil, tíma til að skoða með þeim bækur og lesa, tíma til að finna ilminn af blómunum í garðinum á sumrin, tíma til að baka og skella í nokkrar pönnsur en pönnukökudeig var jafn sjálfsagt í ísskápnum hjá Heiðu og mjólkin.

Heiða var bóngóð og hjálpsöm og þegar ég lít til baka þykir mér vænt um hvað hún lét brasið í fólkinu sínu iðulega líta út fyrir að vera ekkert mál og tók alltaf svo jákvætt á öllu og lét mann aldrei finna fyrir því að hlutirnir væru neitt mál – það gekk bara alltaf allt vel.

Bakstur og eldamennsku fannst okkur Heiðu gaman að spjalla um og voru ófá símtölin sem ég hringdi í hana til að fá ráð og aðstoð í þeim efnum, minnisstæðast er samtal við hana þegar við Jói vorum nýbyrjuð að búa, þá hringdi ég í hana til að fá að vita hjá henni hvernig ég ætti að sjóða ýsu í potti – hún sagðist ætla að kíkja í uppskriftabókina sína og lét eins og það lægju mikil vísindi að baki þess að sjóða ýsu.

Erfitt þótti mér að fylgja Heiðu eftir í veikindum hennar undanfarin ár og helltist yfir mig mikil sorg í hvert sinn er ég kvaddi hana en núna hefur hún kvatt okkur.

Þú ert góð kona, voru síðustu orðin hennar til mín nokkrum dögum áður en hún lést og strauk mér um vangann.

Takk fyrir allt, elsku Heiða mín.

Þín

Valdís.