Halldór Fannar Þórólfsson fæddist á fæðingardeild LSH 23.12. 1979.

Foreldrar hans eru Guðrún Benediktsdóttir, f. 13.12. 1957 á Kópareykjum í Reykholtsdal, og Þórólfur Már Þórólfsson, f. 24.9. 1951 á Blönduósi. Þau skildu. Alsystkini Halldórs eru Smári, f. 5.5. 1976 og Sigríður Drífa, f. 28.1. 1982. Bróðir Halldórs sammæðra er Kristján Heimir Buch, f. 1.8. 1988, faðir hans er Páll Helgi Buch, f. 15.10. 1936, d. 23.10. 2020. Systkini Halldórs samfeðra eru Stephanie Júlía, f. 22.8. 1999, Fernando Már, f. 14.1. 2002 og Lance Leó, f. 28.3. 2006. Móðir þeirra er Emilia Sevelleno Riantoco, f. 22.10. 1969. Kona Halldórs er Kristín Jóhanna Stefánsdóttir, f. 31.5. 1979 á Akureyri.

Halldór ólst upp í Grindavík til sjö ára aldurs þegar hann flutti með móður sinni og systkinum að Einarsstöðum í Reykjahverfi 26.5. 1987. Hann gekk í Hafralækjarskóla. Hann fór í framhaldsskóla Húsavíkur árið 1995 og lærði vélsmíði. Fjölskyldan flutti til Húsavíkur 1998. Árið 2001 flutti fjölskyldan síðan til Akureyrar. Þá fór Halldór að vinna hjá S.S. byggir. Halldór lærði húsasmíði í Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 2011. Hann aflaði sér réttinda til að stýra byggingarkrana. Hann stundaði nám við Háskólann í Reykjavík árin 2012 til 2015 og lærði byggingariðnfræði í fjarnámi.

Halldór og Kristín fluttu til Grindavíkur 1. ágúst 2015. Þá sótti hann staðarnám í HR til að læra vél- og orkutæknifræði og útskrifaðist hann þaðan 30. janúar 2021. Hann varð iðnfræðingur 16.3. 2018, húsasmíðameistari 11.5. 2018 og tæknifræðingur 24.2. 2021.

Halldór tjáði sig ekki mikið en hugsaði þeim mun meira. Hann lét marga drauma sína rætast svo sem að afla sér þeirrar miklu menntunar sem hann hafði og eins stofnaði hann verkfræðistofu. En hann átti einnig marga stóra drauma sem hann ætlaði að láta rætast í framtíðinni svo sem að endurbyggja húsið. Hann var snillingur í tölvutækni og nutu fjölskyldumeðlimir hans tæknilegrar aðstoðar í tíma og ótíma enda var hann ætíð boðinn og búinn til að hjálpa. Halldór var alla tíð mjög hlédrægur en samt félagslyndur. Þó hann segði ekki mikið þá naut hann þess að koma í veislur og umgangast fólk. Oft var hann fyrstur á staðinn og síðastur út. Halldór veiktist alvarlega í ágúst 2012 og glímdi við þau veikindi til dánardags. Starfsþrek hans dvínaði verulega og var hann nánast óvinnufær upp frá þessu.

Hann lést á heimili sínu 28. júní 2022. Útförin hefur farið fram.

Drottinn er minn hirðir, mig mun

ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig

hvílast

leiðir mig að vötnum, þar sem ég má

næðis njóta.

Hann hressir sál mína, leiðir mig um

réttan veg

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér.

Sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býrð mér borð frammi fyrir

fjendum mínum,

þú smyrð höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér alla

ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Drottinn er minn hirðir, mig mun

ekkert bresta.

(Margrét Scheving /23 Davíðssálmur)

Leiddu mína litlu hendi,

ljúfi Jesús,þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti sjáðu,

blíði Jesús, að mér gáðu.

Hafðu gát á hjarta mínu,

halt mér fast í spori þínu,

að ég fari aldrei frá þér,

alltaf, Jesús, vertu hjá mér.

Um þig alltaf sál mín syngi

sérhvern dag, þó eitthvað þyngi.

Gef ég verði góða barnið,

geisli þinn á kalda hjarnið.

(Ásmundur Eiríksson)

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína

því nú er komin nótt

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

Elsku hjartað mitt, ég gerði mér grein fyrir að þú yrðir kannski ekki gamall maður, en þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti sem enginn átti von á.

Takk fyrir öll 42 árin þín sem voru lærdómsrík. Nú hef ég engan Halldór til að hringja í þegar ég stranda í tölvunni. Elsku Smári og Sigga, hjartans þakkir fyrir alla hjálpina. Þakklæti til þeirra sem komu að útförinni. Nú ertu kominn á góðan stað, laus við allar þjáningar, elsku Halldór. Þín er sárt saknað.

Þín mamma,

Guðrún

Benediktsdóttir.