Gamall vinur minn og góður Páll Lýðsson skrifaði Sandvíkur-Skruddu, gamansögur úr Árnesþingi. Þar segir: Eitt sinn átti prestur að jarðsyngja gamla konu.

Gamall vinur minn og góður Páll Lýðsson skrifaði Sandvíkur-Skruddu, gamansögur úr Árnesþingi. Þar segir: Eitt sinn átti prestur að jarðsyngja gamla konu. Einhverjir töldu sig eiga ýmislegt missagt við prestinn og tóku konulíkið úr kistunni og settu löngu í staðinn fyrir konuna. Þegar komið var með kistuna til kirkju kastaði presturinn á hana augum og kvað:

Hér er komið kistuhró

klambrað saman af ergi.

Líkaminn er úr söltum sjó

en sálina finn ég hvergi.

Jóhann V. Daníelsson kaupmaður á Eyrarbakka var umdeildur og fyrirferðarmikill. Um útlit hans var þetta ort:

Hausinn situr herðum á

hrekkja viti ropar:

Þrælnum smita utan á

annarra svitadropar.

Stella dóttir mín sendi mér gott bréf, en Sigrún Aðalbjarnardóttir leiðbeinandi hennar í doktorsverkefni hafði sent henni eftirfarandi vísur eftir mig og föður hennar, en við höfðum hist á Kjarvalsstöðum. Svo skýrir Sigrún tilefnið:

„Ég mundi þó, en því miður ekki fyrr en eftir á, að pabbi þinn sem landbúnaðarráðherra kom í dalinn okkar þegar laxastigi var vígður í Austurá sem rennur í Miðfjarðará. Þetta var mikill dagur fyrir pabba sem hafði lengi barist fyrir laxastiganum í Kambsfossi til að laxinn færi lengra upp ána, fram hjá þremur bæjum (þar á meðal Aðalbóli ættarjörðinni) upp að heiðargirðingu. Á vígsluhátíðinni vildi svo til að feður okkar höfðu báðir vísur með í farteskinu og fóru með við athöfnina.“

Kambsfoss – laxastiginn vígður.

Halldór Blöndal:

Megi áin mala gull,

margra bæta haginn,

ævinlega af fiski full

fyrir morgundaginn.

Aðalbjörn Benediktsson:

Stiginn er framtíð falinn,

fallega gerður talinn,

en Halldór er mættur,

sem hollur vættur

að leiða laxinn fram dalinn.

Þorgeir Magnússon yrkir og kallar Síðsumar:

Hlíðarendabóndann ber

við bleikan akurteiginn,

sérhver flöt í Fljótshlíð er

fagurlega slegin.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is