[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Óttar Magnús Karlsson gerði tvö mörk fyrir Oakland Roots er liðið vann El Paso, 4:0, á heimavelli í bandarísku B-deildinni í fótbolta í fyrrinótt. Íslenski framherjinn gerði tvö fyrstu mörk leiksins á 21. og 32. mínútu en það seinna kom úr vítaspyrnu.

* Óttar Magnús Karlsson gerði tvö mörk fyrir Oakland Roots er liðið vann El Paso, 4:0, á heimavelli í bandarísku B-deildinni í fótbolta í fyrrinótt. Íslenski framherjinn gerði tvö fyrstu mörk leiksins á 21. og 32. mínútu en það seinna kom úr vítaspyrnu. Hann fór af velli á 77. mínútu. Liðið er í áttunda sæti af 13 liðum í vesturhluta deildarinnar. Óttar hefur átt afar gott tímabil með Oakland en hann er markahæstur í deildinni með 15 mörk. Þau hefur hann gert í 22 leikjum.

*Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur gengið frá kaupum á senegalska knattspyrnumanninum Kalidou Koulibaly frá Napoli á Ítalíu og samið við hann til fjögurra ára. Kaupverðið er í kringum 33 milljónir punda og hann er annar leikmaðurinn sem Chelsea kaupir í sumar, á eftir Raheem Sterling frá Manchester City. Koulibaly er 31 árs gamall miðvörður og hefur undanfarin ár verið talinn einn sá öflugasti í sinni stöðu í Evrópufótboltanum.

*Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri gerði sér lítið fyrir og vann 45:34-stórsigur á Ítalíu í leik um 11. sætið á EM 2022 í Porto í Portúgal á laugardag. Með sigrinum tryggði Ísland sér sæti á HM 2023 leikmanna 21 árs og yngri. Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur hjá Íslandi með átta mörk. Andri Már Rúnarsson og Arnór Viðarsson voru svo skammt undan með sjö mörk hvor.

*Bandaríkin unnu þrefalt í 100 metra hlaupi á HM í Eugene í Bandaríkjunum í gær. Fred Kerley , sem á besta tíma ársins, kom fyrstur í mark á 9,86 sek. en besti tími ársins er 9,76 sekúndur. Marvin Bracey og Trayvon Brommell komu báðir í mark á 9,88 sekúndum en Bracey hlaut silfrið á sjónarmun.

*Enska knattspyrnufélagið Manchester United og Ajax frá Hollandi hafa komist að samkomulagi um kaupverð á argentínska varnarmanninum Lisandro Martínez . United mun fyrst greiða 48,5 milljónir punda fyrir Martínez en kaupverðið gæti hækkað um 8,5 milljónir vegna ýmissa bónusgreiðslna. Martínez þekkir Erik Ten Hag , knattspyrnustjóra United, afar vel en þeir unnu saman hjá Ajax í þrjú ár, áður en Ten Hag tók við stjórn United af Ralf Rangnick .

* Bjarki Pétursson átti góðan lokahring á Euram Bank Open-mótinu á Áskorendamótaröð Evrópu í golfi í gær en leikið var í Ramsau í Austurríki. Bjarki lék hringinn á 67 höggum, þremur höggum undir pari, og fór upp um 25 sæti fyrir vikið. Hann lék samanlagt á tveimur höggum undir pari og endaði í 24. sæti ásamt þremur öðrum kylfingum. Haraldur Franklín Magnús átti hinsvegar sinn versta dag á mótinu í gær en hann lék lokahringinn á 73 höggum, þremur höggum yfir pari. Hann lauk leik á einu höggi yfir pari og í 44. sæti.

* Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hafnaði í 29. sæti á Big Green Egg Open-mótinu í Arnhem í Hollandi í gær. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni í golfi. Ólafía lék fjórða og síðasta hringinn í gær á 72 höggum eða á pari og lauk leik á samanlagt þremur höggum yfir pari. Hún lék best á fyrsta hring eða á 70 höggum en slakur annar hringur skemmdi fyrir þar sem hún lék á 78 höggum. Árangurinn er sá besti á þeim fjórum mótum sem Ólafía hefur keppt á síðan hún sneri aftur eftir barnsburð.

* Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Ragnhildur Kristinsdóttir unnu Hvaleyrarbikarinn í golfi með yfirburðum í gær. Guðmundur fór hringina þrjá á 67, 66, og 67 höggum og endaði mótið á heilum 13 höggum undir pari. Axel Bóasson og Rúnar Arnórsson voru jafnir í öðru sæti á sex höggum undir pari. Ragnhildur fór hringina á 68, 69 og 74 höggum og endaði á tveimur höggum undir pari. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir var í öðru sæti á 14 höggum yfir pari og Anna Júlía Ólafsdóttir var í þriðja sæti á 18 höggum yfir pari.

* Erna Sóley Gunnarsdóttir bar sigur úr býtum í kúluvarpi á Nordic-Baltic U23 meistaramótinu í frjálsíþróttum í Malmö en mótið fór fram um helgina. Erna kastaði lengst 16,52 metra, hálfum metra lengra en næstu keppendur. Hún var þó nokkuð frá Íslandsmeti sínu sem er 17,29 metrar. Tiana Ósk Whitworth varð í sjötta sæti í 200 metra hlaupi er hún hljóp á 24,60 sekúndum, nokkuð frá hennar besta árangri, en Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kláraði ekki hlaupið vegna meiðsla framan í læri. Guðbjörg keppir ekki meira í sumar vegna meiðslanna sem hafa hrjáð hana í nokkurn tíma.

* Daníel Ingi Egilsson átti besta þrístökk Íslendings í 60 ár er hann stökk 15,31 metra á mótinu. Einungis Íslandsmethafinn Vilhjálmur Einarsson hefur stokkið lengra en met hans er 16,70 metrar.