Hilmar Albert Albertsson fæddist 9. janúar 1944. Hann lést 10. júní 2022.

Útför hans fór fram 4. júlí 2022.

Elsku pabbi.

Mér hefur aldrei þótt eins erfitt að yfirgefa Ísland og núna. Ég sat í flugvélinni og var óróleg því það vantaði eitthvað. Mér fannst ég eiga eftir að kveðja þig, það var eins og ég hefði gleymt að heimsækja þig, en það hefur auðvitað aldrei gerst. Þú varst alltaf inni í öllum heimsóknar- og ferðaplönum, ég lét þig vita þegar ég lagði af stað og þegar ég var komin á áfangastað. Þú varst hluti af öllu, þú fylgdist alltaf með hverju skrefi mínu og okkar systkinanna og vissir um allt sem á gekk. Flugvélin tók á loft og ég yfirgaf landið sem þú elskaðir mest og leit yfir bæinn þar sem þú eyddir hluta æsku þinnar.

Og nú ríkir svo undarleg þögn. Á heimili mínu er þögn, engar hringingar frá þér meir eða dagleg skype-samtöl. Enginn að skipta sér af mér lengur, reka á eftir mér með eitthvað eða hrósa þegar ég hafði staðið mig vel. Stundum þótti manni nóg um afskiptasemina, en nú finn ég tómarúmið ríkja þar sem þú eitt sinn varst.

Ég hugsa um hvernig þú varst. Þér var alltaf hlýtt á höndunum og ég man að mér þótti það eitt af undrum veraldar þegar ég var lítil að þú notaðir aldrei nokkurn tímann vettlinga. Ég man vel eftir minni litlu hendi í þinni hlýju hendi. Þú gekkst um gólf og hélst höndunum flötum að brjóstkassanum þegar þú varst að fara að drífa þig að einhverju. Og þú gekkst um gólf með hendur fyrir aftan bak þegar þú vissir ekki hvað þú ættir af þér að gera og varst eirðarlaus. Þegar þú varst undir stýri varstu afslappaður og blístraðir lágt og blítt einhver lög. Þú valdir þér alltaf þann stól við eldhúsborðið þar sem sást best yfir eldhúsið og helst alla íbúðina. Þú helltir alltaf upp á fullkomið kaffi þótt þú mældir aldrei nákvæmlega. Ég man eftir öllum spennusögunum úr sveitinni frá því þú varst yngri sem þú sagðir oft seint á kvöldin við kvöldkaffið inni í eldhúsi.

Þú varst mikill reddari og ráðgjafi, frá litlum ekki svo mikilvægum hlutum til alvarlegra hluta.

Þú hafðir mikla samkennd og varst hrifnæmur. Glaðlyndur, hress og fyndinn. Yfirleitt hlæjandi og hafðir gaman af bröndurum, okkur krökkunum til mikillar gleði en mömmu ekki eins mikið.

Augun þín voru blárri en blátt og nærvera þín hafði hærra en hátt.

Og nú kem ég aldrei aftur inn á heimilið þitt og mömmu. Get ekki gist og vaknað við veðurfréttir eða dánarfregnir og jarðarfarir stillt á hæsta, og ilminn af kaffi. Ykkar heimili var einnig eins og annað heimili sonar míns og nafna þíns.

Ég á eftir að sakna þín alla ævi. Þú verður í draumum mínum.

Þú, þegar augun opnast.

Þú, þegar hlátur berst um opnar dyr

einn nýjan dag og vekur mig.

Þú, þegar augun skynja.

Þú, þegar horfi ég um opnar dyr,

einn nýjan dag og sé þig þar.

Og blátt er blárra en blátt

og hátt er hærra en hátt.

Hæst ber jökulinn og fjær er haf og

strönd.

Hátt ber jökulinn með ókunn víðfeðm

lönd.

Og húsið brennur, þó er sungið enn.

Þar eru konur, ungar konur, menn.

Það brennur húsið, þó er sungið enn.

Ó þú, ó þú, þú drauma minna þú.

Ó þú, ó þú, þú drauma minna þú.

(Egill Ólafsson)

Ásdís Lilja

Hilmarsdóttir.