Þórdís Jósefína Guðjónsdóttir fæddist 22. desember 1942 á Ásbjarnarstöðum á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu.

Dísa ólst þar upp við hefðbundin sveitastörf og varð fljótt dugleg til allra verka, jafnt utan dyra sem innan. Hún fór snemma að heiman til að hjálpa öðrum, nýorðin 14 ára fór hún að Illugastöðum í sömu sveit til hjálpar við heimilisstörf og barnagæslu. Sextán ára tók Dísa að sér ráðskonustarf við Sjúkrahúsið á Hvammstanga. Síðar fór hún í vist á Skallabúðir á Snæfellsnesi. Veturinn 1962-1963 var Dísa ásamt Siggu systur sinni við nám í Húsmæðraskólanum á Varmalandi en þar kynntist hún vinum fyrir lífstíð. Hún vann síðan ýmis störf á lífsleiðinni, m.a. í Leðuriðjunni, hjá Póstinum og síðar ýmis skrifstofustörf. Á fullorðinsárum lauk Dísa námi til stúdentsprófs í öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og síðan einnig BA-námi í íslensku frá Háskóla Íslands, hvoru tveggja með fullri vinnu. Að þessu námi loknu vann hún hjá Orðabók Háskólans og síðar Námsgagnastofnun. Einnig starfaði Dísa lengi við prófarkalestur.

Þórdís var mikil handavinnukona og eftir hana liggja margir dýrgripir. Hún hafði ríkan áhuga á söng og tók mikinn og virkan þátt í kórstarfi og var um tíma í þremur kórum samtímis; Kór Átthagafélags Strandamanna, Húnakórnum og Kirkjukór Árbæjarsóknar. Þórdís var ljóðskáld og komu ljóð hennar út á ólíkum vettvangi í gegnum tíðina. Í febrúar síðastliðnum kom út eftir hana ljóðabókin Þytur í haustskógi.

Foreldrar Þórdísar voru Guðjón Daníel Jósefsson og Sigrún Sigurðardóttir og var hún elst í systkinahópnum. Hin eru Ingibjörg Sigríður, Steinunn Margrét, Loftur Sveinn, Kristín Ragnheiður og Guðrún Oddný.

Þórdís giftist Þorgeiri Ingvasyni, þau slitu samvistir. Börn þeirra eru Sigrún Linda og Þórir Viðar. Þórir á dæturnar Rán, hennar móðir er Arna Gunnarsdóttir, og Röskvu og Eir, móðir þeirra er Marte Røed.

Seinna giftist Þórdís Sigurði Erni Arasyni. Þau slitu samvistir.

Eftirlifandi sambýlismaður Dísu er Kristján Grétar Jónsson.

Þórdís verður jarðsungin frá Árbæjarkirkju í dag, 18. júlí 2022, klukkan 13.

Mamma er dáin og hvað segir maður þá?

Ég ætla að nota hennar eigin orð og kveðja hana með ljóði eftir hana sjálfa.

Kveðja

Á björtu sumarkvöldi

horfin kvölin

þú farin inn í sólarlagið

þar sem blómin drúpa höfði

og kyrrðin hvíslar

góða nótt.

Þökk fyrir allt.

(Þórdís Guðjónsdóttir)

Farðu í friði mamma mín. Þín verður saknað.

Sigrún Linda.

Það er ekki ýkja langt síðan, þegar litið er til baka, að við systkinin á Ásbjarnarstöðum vorum öll þar heima við leik og störf. En nú er komið að kveðjustund, Dísa systir okkar er farin í sína hinstu ferð.

Hún varð fljótt hörkudugleg til allra verka, áræðin og ráðagóð, líklega hefur hún snemma fundið til ábyrgðar á okkur þar sem hún var elst í systkinahópnum. Aðeins sextán ára gerðist Dísa um tíma ráðskona á Sjúkrahúsinu á Hvammstanga. Sennilega myndu fáir ef nokkrir unglingar á hennar aldri leika það eftir.

Dísa hafði yndi af hestum og notaði þá töluvert. Eitt haustið sem oftar fór hún í göngurnar og var á Brún hans pabba. Þegar komið var fram í Hlíðardal sá Dísa að fjárhópur slapp til baka, setti hún þá hestinn á brattann og komst fyrir féð. Var eftir því tekið hvað stelpan á Ásbjarnarstöðum var dugleg, vel ríðandi og með góðan hund.

Þegar hugsað er aftur í tímann finnst okkur að Dísa hafi alltaf verið að sýsla eitthvað þarflegt til gagns og gamans, bæði úti og inni. Á unglingsaldri lærði hún á píanó, fyrst hjá séra Sigurði Norland í Hindisvík og í framhaldi af því hjá Sigríði Kolbeins á Melstað. Stöku sinnum spilaði hún við messur í Tjarnarkirkju.

Leið Dísu lá snemma suður og stundaði hún þar ýmiss konar vinnu og síðar kom eigið heimili og búskapur. Það var alltaf gaman í sveitinni þegar hún og Geiri komu með börnin í heimsókn, þá voru þau hjónin liðtæk við ýmislegt sem var verið að fást við. Þau voru ekki há í loftinu systkinin Linda og Þórir þegar þau urðu eftir í sveitinni hjá afa sínum og ömmu, öllum til gleði og ánægju.

Stóra systir var alltaf tilbúin að gefa okkur sem yngri vorum góð ráð og leiðbeiningar, svo sem þegar fyrstu börnin okkar fóru að fæðast. Hún var einkar lagin í höndunum og saumaði og prjónaði fatnað og margt fleira nýtilegt sem við systkin, meðal annarra, nutum góðs af. „Spyrja Dísu“ var orðið máltæki hjá sumum okkar, því við vissum að hjá henni fengjum við svör við flestu sem við ekki kunnum.

Guðrúnu langar að þakka sérstaklega fyrir umburðarlyndið og þolinmæðina við unglinginn sem fékk húsaskjól og fæði á menntaskólaárunum. Það var örugglega ekki alltaf auðvelt að hafa „minnstu systur“, sem þóttist allt mega, á heimilinu. En Dísa sýndi aldrei neitt nema umhyggju og hækkaði aldrei róminn.

Dísa var einstaklega nákvæm og vandvirk í öllum sínum störfum og fengu bæði stórfjölskyldan, vinnustaðir og allir kórarnir hennar að njóta þess en hún var mjög virk í kórastarfi alla sína ævi. Auk þeirra kóra sem hún stundaði reglulega kom fyrir á góðum stundum á seinni árum að búinn var til svokallaður Ásbjarnarstaðakór sem samanstóð af okkur systkinunum, mökum og afkomendum. Þá var oft glatt á hjalla.

Dísa og Grétar sungu saman bæði í Húnakórnum og Kór Átthagafélags Strandamanna árum saman. Þau nutu þess líka að ferðast saman, bæði innanlands og utan. Fóru t.d. í söngferðir til margra landa með kórunum. Grétar studdi Dísu ávallt og reyndist henni afar vel í veikindum hennar, það gerðu börnin hennar einnig og við þökkum þeim öllum af alhug.

Við erum þakklát fyrir að hafa átt Dísu „stóru systur“ og munum alltaf sakna hennar.

Þúsund þakkir fyrir að vera svona góð sál, það vantar fleiri slíkar á þessa jörð.

Með ást, virðingu og væntumþykju frá systkinum.

Loftur Sveinn Guðjónsdóttir, f.h. systkina.

Þegar ég hugsa um Dísu frænku sé ég fyrir mér brosandi konu í stuttermabol og gallabuxum. Ævinlega mætt norður að hjálpa mömmu ef þurfti að rigga upp veislu. Hláturmild og röggsöm. Strax farin að skreyta brauðtertur með ferskri steinselju að sunnan, sjaldséðri plöntu á þessum slóðum annars. Drífandi kona og nákvæm, framúrskarandi nákvæm reyndar. Ég leyfi mér að efast um að Dísa hafi nokkurn tíma kastað til höndunum við nokkurt verk, nokkuð viss um að hlutirnir hafi verið gerðir rúmlega hundrað prósent á hennar vakt.

Dísa var líka bráðskörp, var klár kona og hafði augu sem samræmdust því. Stundum gat augnaráðið verið nokkuð fast án þess að mörg orð fylgdu því sem hún var að hugsa. Hún hafði góðan húmor og jafnvel aðeins kaldan á köflum eins og oft hjá greindu fólki. Allir þessir kostir Dísu, og fleiri til, endurspeglast vel í síðasta verkinu sem hún skilur eftir sig; ljóðabókinni hennar Þytur í haustskógi sem hún gaf út síðasta vor og er afskaplega vönduð og vel lukkuð bók í alla staði.

Stuttu áður en Dísa dó sagði hún við mig að það væri skrýtið þetta líf. Og það er rétt. Lífið er skrýtið og eftir því sem maður verður eldri því skrýtnara verður það – á margan hátt. Mér þykir ótrúlega leitt að Dísa frænka skyldi ekki fá að njóta efri áranna betur. Það finnst mér rúmlega skrýtið en aðallega bara dapurlegt. Mig langar samt að leyfa gleðinni að hafa yfirhöndina þegar ég hugsa til Dísu frænku umfram alla depurð því sjúkdómar og dauði eru ekki fólkið sem þeir leggjast á, fólk er gert úr lífi og gleði. Þannig var Dísa frænka.

Elsku Grétar, Linda, Þórir og yngri kynslóðir aðstandenda. Innilegar kveðjur til ykkar allra, þið eigið Dísu ennþá í ykkur og minningunum.

Mér finnst ekkert betur við hæfi en að leyfa Dísu frænku sjálfri að eiga hér lokaorðin.

Vormánuður

Í morgunljóma

læðist fram nýtt vor.

Blómin í garði mínum

blá og gul og hvít

brosa til mín

á sólbrúnni mold

fölgræn brum depla augum

móti birtunni.

Ég lít vongóð til veðurs.

(ÞJG)

Margrét Guðrún Ásbjarnardóttir.

Elsku Dísa mín er farin á nýjar lendur, þar sem allt er gott og enginn þjáist, veikindin tóku yfir, sem voru meiri en mann grunaði, hún var ekki týpan, sem kvartaði. Þar sem covidið hamlaði heimsóknum vissi maður ekki hversu langt veikindin voru gengin. „Ég veit eiginlega ekki hvernig ég hef það,“ svaraði hún er ég spurði. Við kynntumst á Varmalandi námsárið 62-63. Völdumst þrjár í númer, sem kallað var. Þar hnýttust vináttubönd sem hafa haldið í 60 ár, reyndar náði allur hópurinn, 42 stúlkur, afar vel saman og saumaklúbbur hefur starfað með miklum ágætum öll þessi ár. Oft var hlegið og gantast hjá okkur í númerinu, sér í lagi í vaskakróknum. Af einhverjum ástæðum byrjuðum við að kalla okkur Bakkabræður, sórumst sem sagt í fóstbræðralag, Dísa var Gísli, Hildur Eiríkur og ég Helgi. Það var eftir njólaævintýrið eftirminnilega sem nafngiftin festist ærlega við okkur. Þannig var að eldhúshópnum var ætlað að tína njóla sem áttu að fara í salat eða súpu, minnir mig. Ekki leist Bakkabræðrum vel á það. Njólasalat gæti alls ekki verið gott fyrir bragðlaukana. Tókum samt við plastpokum sem hver og ein fékk og þrömmuðum af stað. Dáðumst að dugnaði hinna sem voru ansi röskar að fylla pokana, svo var haldið til baka, í leiðinni kipptu bræður upp einum njóla og létu í sína poka. Steinunn skólastýra hristi bara hausinn. „Algjörir Bakkabræður“. Dísu „bró“ var margt til margt lista lagt, hafði fallega söngrödd, enda dugðu ekki minna en tveir kórar reyndar þriðji líka, því hún var í einum fámennum sem söng oft við jarðarfarir. Í kórstarfinu kynntust þau Grétar. Áttu þau góða samleið og stóðu vel hvort með öðru í veikindum beggja, sem og öðru. Dísa dreif sig í stúdentspróf á sínum tíma enda gædd afburðargáfum, fór svo í íslensku í Háskólanum þar sem hún blómstraði, fékk m.a. 1. verðlaun fyrir frumsamið ljóð, „Lindamosi“, sem er einmitt í ljóðabókinni „Þytur í haustskógi“, sem henni tókst að klára þrátt fyrir að vera orðin sárþjáð. „Óskabörnin mín,“ sem hún kallaði ljóðin sín. Óskabörn átti hún líka fyrir, Sigrúnu Lindu og Þóri, sem hún var afar stolt af og elskaði. Ekki var ástin minni gagnvart ömmustelpunum með fallegu nöfnin, Rán, Röskvu og Eir. Góð kona sagði um bókina, „hún er falleg bæði að innan og utan“. Þar er ég sammála, kápan fellur svo vel að innihaldinu. Ljóðin hennar Dísu, þau gera mann meyran, þvílík orðasnilld, sem hún bjó yfir. Þau munu halda minningu hennar á lofti, þeim sem njóta. Ég bið góðan Guð að blessa allt hennar fólk og gefa þeim styrk.

Sakna þín elsku bró, takk fyrir allt.

Guðlaug Guðjónsdóttir (Dulla).

Þá hefur enn ein gegnheila, trausta og sanna íslenska konan orðið að játa sig sigraða fyrir því sem allra bíður. Það var vitað að hverju stefndi, en alltaf fylgir þessu högg og tómleikatímabil. Síðan kemur söknuðurinn og eftirsjáin.

Við Þórdís störfuðum á sama vinnustað í tæpa tvo áratugi og einnig vorum við saman í kórastarfi um enn lengri tíma. Það var sama hvor vettvangurinn var; alltaf var samviskusemin og nákvæmnin til staðar og ekki voru hávaðinn og lætin. Ætíð sama yfirvegaða framkoman. Það var með ólíkindum að fylgjast með hversu nákvæmlega og yfirvegað hún las hverja efnisgrein, hverja setningu og hvert orð og íhugaði hvort eitthvað mætti betur fara.

Í söngstarfinu var sama uppi á teningnum. Hún fór yfir sína rödd og texta heimafyrir og mætti vel undirbúin á æfingar og alla viðburði. Þess vegna var hún ávallt leiðtogi sinnar raddar.

Það var síðsumars 2019, en þá dvaldi Þórdís á Vífilsstöðum, að hún fékk til sín gríðarmikinn pappírsbunka, en það voru ljóð sem hún hafði samið í gegnum tíðina. Þórdís tók strax til við að fara í gegnum bunkann og fljótlega kom upp sú hugmynd að velja úr þessu ljóðasafni og gefa út á bók. Þá hófst hún þegar handa við valið og var það ærið verk og tók sinn tíma.

Síðan tók hin eiginlega vinna við, yfirfara hvert ljóð frá orði til orðs og velta hverju orði fyrir sér og máta hvort önnur orð pössuðu betur.

Þessa vinnu vann Þórdís af aðdáunarverðri nákvæmni og þrautseigju.

Hér er dæmi um ljóð í bókinni:

Leit

Hvers leitum við mannanna börn

langt yfir skammt

til hvers er endalaus leikur

með brothætt gler

vitum við ekki

eða vitum samt

að hamingjan býr hérna

rétt hjá þér – og mér

Ljóð Þórdísar bera vitni um næma tilfinningu fyrir náttúrunni og náttúruöflunum svo og mannlegum tilfinningum og samskiptum.

Til allrar hamingju kom ljóðabókin Þytur í haustskógi út í febrúar 2022 áður en heilsu Þórdísar tók verulega að hraka og ekki leyndi sér gleðin hjá henni að fá þetta barn sitt í hendurnar.

Um leið og ég þakka Þórdísi frábært samstarf, samvinnu og vináttu síðustu ára votta ég Grétari sambýlismanni hennar og börnum hennarv Þóri Viðari og Sigrúnu Linduv mína innilegustu samúð. Einnig fá systkini Þórdísar innilegar samúðarkveðjur.

Þessi verða svo mín lokaorð:

Þegar dauðinn þjáning tók,

úr þrautatilverunni,

þá var lífsins ljóðabók

lokað hinsta sinni.

Eiríkur Grímsson.