Einvígi KA-maðurinn Elfar Árni Aðalsteinsson lætur Brynjar Hlöðversson úr Leikni finna fyrir því í leik liðanna í Breiðholtinu í gærkvöldi.
Einvígi KA-maðurinn Elfar Árni Aðalsteinsson lætur Brynjar Hlöðversson úr Leikni finna fyrir því í leik liðanna í Breiðholtinu í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótboltinn Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Breiðablik vann sannkallaðan meistarasigur er liðið heimsótti Keflavík í Bestu deild karla í fótbolta og vann torsóttan 3:2-sigur í gærkvöldi.

Fótboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Breiðablik vann sannkallaðan meistarasigur er liðið heimsótti Keflavík í Bestu deild karla í fótbolta og vann torsóttan 3:2-sigur í gærkvöldi. Mótvindurinn var töluverður í stöðunni 2:1 fyrir Keflavík og virtist forskot Breiðabliks á toppnum ætla að fara úr sex stigum niður í þrjú. Með magnaðri seiglu og tveimur mörkum frá fyrirliðanum Höskuldi Gunnlaugssyni tókst Breiðabliki hinsvegar að snúa taflinu við. Sigurmark Höskuldar úr víti í uppbótartíma var dísætt fyrir Óskar Hrafn Þorvaldsson og lærisveina hans. Þegar talið er úr kassanum í lok tímabils eru leikir eins og í gær gulls ígildi, því fátt benti til þess að Breiðablik fengi meira en að mesta lagi eitt stig.

Keflavík á hrós skilið fyrir að hafa verið eitt skemmtilegasta lið deildarinnar síðustu vikur og leikurinn í gær var heilt yfir vel spilaður hjá heimamönnum. Það er hinsvegar nánast óvinnandi verk að hafa hemil á Blikum í 90 mínútur.

Stórsigur KA-manna

KA átti ekki í nokkrum vandræðum með að vinna 5:0-útisigur á Leikni í Breiðholtinu. Sigurinn var síst of stór því KA fékk nokkur ákjósanleg færi til viðbótar til að bæta við mörkum. Nökkvi Þeyr Þórisson heldur áfram að raða inn mörkunum en hann er kominn með sjö mörk í síðustu fimm leikjum í deild og bikar og alls níu mörk í deildinni en hann hafði áður mest skorað þrjú mörk á einu tímabili. KA hefur blásið til sóknar síðustu vikur og skorað fjórtán mörk í síðustu fjórum leikjum og er liðið áfram í þriðja sæti. Það yrði glæsilegur árangur ef KA heldur sínu striki og nær Evrópusæti. Arnar Grétarsson er að gera spennandi hluti á Akureyri. Eftir tvo sigra hjá Leikni í röð var leikurinn í gær stórt skref til baka hjá Breiðhyltingum.

Skagamenn í botnsætið

Stjarnan gerði afar góða ferð á Skagann og vann 3:0-sigur á ÍA. Sigurinn var afar kærkominn fyrir Stjörnuna eftir fjóra leiki í röð án sigurs. Hægst hafði töluvert á Stjörnulestinni eftir virkilega kraftmikla byrjun en liðið átti ekki í neinum vandræðum með að vinna slakt ÍA-lið í gær. ÍA er komið í gríðarleg vandræði og eftir þriðja tapleikinn í röð eru Skagamenn í neðsta sæti deildarinnar. Eini sigurinn til þessa kom í 2. umferð, 3:0 gegn Víkingi, ótrúlegt en satt, en síðan þá hefur liðið fengið nokkra skelli og lítið gengið upp.

Stjörnumönnum leið vel á Akranesi í gær og skoruðu falleg mörk. Það fallegasta gerði Ólafur Karl Finsen á 44. mínútu þegar hann lagði upp hjólhestaspyrnumark fyrir sjálfan sig með glæsilegum hætti. Markið var það fyrsta sem Ólafur skorar í sumar og má segja að það hafi verið biðarinnar virði.

Fyrsti sigur ÍBV

ÍBV vann sinn fyrsta sigur í þrettándu tilraun í sumar þegar Valur kom í heimsókn, 3:2. Fyrir leikinn í gær hafði Halldór Jón Sigurður Þórðarson aðeins skorað tvö mörk í efstu deild og áttu því fæstir von á að hann myndi skora þrennu, en hann gerði sér lítið fyrir og gerði öll mörk ÍBV og þar á meðal sigurmarkið í uppbótartíma. Aron Jóhannsson jafnaði í 2:2 með tveimur mörkum eftir að Halldór hafði gert sín fyrstu tvö og þá tók við æsilegur lokakafli. Frederik Schram varði víti frá Felix Erni Friðrikssyni á 89. mínútu og virtust lukkudísirnar enn og aftur ætla að yfirgefa ÍBV en þá kom sigurmarkið á besta tíma. Valur á því þann furðulega heiður að vera eina liðið sem hefur unnið Breiðablik og eina liðið sem hefur tapað fyrir ÍBV.

Meistararnir skoruðu þrjú

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Íslandsmeistarar Víkings úr Reykjavík þrjú mörk í seinni hálfleik á útivelli gegn FH þar sem lokatölur urðu 3:0 á laugardag. Víkingur hefur nú unnið sex leiki í röð og ljóst að meistararnir ætla að gefa Breiðabliki alvörutitilbaráttu. Það gengur hinsvegar lítið upp hjá FH. Liðið hefur enn ekki fagnað deildarsigri síðan Eiður Smári Guðjohnsen tók við liðinu og eru sigrarnir í sumar aðeins tveir. FH var ekki sérlega líklegt til að vinna og er lítið sem ekkert sjálfstraust í liðinu. Fótboltinn sem FH-liðið bauð upp á var ekki merkilegur og er liðið heldur varkárt og óbeitt í uppspili sínu. Víkingar voru laskaðir eftir erfiða Evrópuleiki gegn Malmö en unnu samt 3:0-sigur án þess að eiga sinn besta leik, sem er mikið styrkleikamerki.