Þorsteinn Páll Björnsson fæddist 4. ágúst 1948 á Sauðárkróki og lést 4. júlí 2022 á heimili sínu.

Foreldrar hans voru Björn Gíslason, f. 14. janúar 1900, d. 17. október 1988, og Hallfríður Þorsteinsdóttir, f. 27. maí 1911, d. 1. apríl 1986, frá Reykjahlíð í Varmahlíð.

Systkini Þorsteins eru: Sólborg, f. 30. september 1932, Sverrir, f. 31. desember 1935, d. 31. mars 2014, Ingibjörg, f. 4. janúar 1942, d. 10. september 1943, Mínerva Steinunn, f. 14. október 1944, Björn, f. 27. febrúar 1951.

Þorsteinn var í barnaskóla í Varmahlíð, þaðan lá leiðin í Gagnfræðaskólann á Sauðárkróki. Þaðan fór hann í Iðnskóla Sauðárkróks þar sem hann lærði múraraiðn. Eftir að hafa lokið iðnskóla lá leið hans til Reykjavíkur þar sem hann fór á samning og kláraði. Hann flutti síðan á Sauðárkrók 1970 og starfaði við iðn sína upp frá því með ýmsum aðilum meðan honum entist heilsa til. Seint á áttunda áratug síðustu aldar keypti Þorsteinn uppsteypt raðhús í Raftahlíð 79 á Sauðárkróki, kláraði það og bjó síðan í því til dauðadags.

Elsku Steini bróðir.

Jæja, þá er þessari jarðvist þinni lokið. Ekki datt mér í hug að kallið kæmi svona fljótt.

Árin okkar í Reykjahlíð voru ljúf og góð utan skólans, þar sem einelti viðgekkst og fleira sem þú varðst verulega fyrir og hlaust skaða af. Þú varst svo ljúfur og góður og barðir ekki frá þér þó svo þú hefðir alveg skap. Mamma var alltaf heima og þú varst mikill mömmustrákur og gast dundað með henni þó að við Bjössi værum sofnuð fyrir löngu. Síðan flugum við úr hreiðrinu og þú fórst að læra múrverk og vannst við það alla tíð. Þú varst frábær verkamaður, duglegur og vandvirkur fram úr hófi. Það mátti aldrei muna millimetra. Þú varst einmitt í flísalögn heima hjá þér síðustu daga þín þar. Einnig bera allar stytturnar sem þú málaðir góðan smekk þinn fyrir litum og fleiru sem þú varst að dunda þér við eftir að þú gast ekki stundað fasta vinnu lengur.

Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og mína. Spjallstundanna okkar í eldhúsinu mínu mun ég sakna og þín.

Elsku Steini minn. Ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér í sumarlandinu og þér líður vel núna. Guð geymi þig. Sofðu rótt.

Ég vil þakka öllum sem lögðu Steina lið í lífsbaráttunni því hún var á stundum erfið.

Þín systir,

Mínerva.

Elsku Steini frændi, eins og þú varst kallaður í fjölskyldunni. Það er erfitt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur í sumarlandið svona skyndilega, 4. júlí.

Mig langar að minnast Steina með nokkrum orðum. Hann var móðurbróðir Steina míns en þeir eru nokkrir Steinarnir í fjölskyldunni. Steini var kurteis, sérvitur, dulur og vandaður maður sem vildi öllum vel en var ekki allra. Hann var mikill dýravinur, búinn að eiga bæði ketti og hunda. Tíkin Róma var síðasti hundurinn hans sem hjálpaði honum mikið í hans erfiðleikum. Steini fór með Rómu sína í göngu í Skógarhlíðina og nú sjáum við þau ekki oftar á ferðinni.

Steini var múrari að mennt og vann við það meðan hann gat. Það kom sér vel að hann var handlaginn og nýttist honum þegar hann hætti að vinna. Hann stytti sér stundir við að mála keramik, hann málaði styttur, kirkjur og margt fleira. Þeir munir skreyta hús og garða fjölskyldumeðlima og annarra og halda minningu hans á lofti.

Steini hafði gaman af því að keyra um sveitina og víðar og var Róma alltaf með í för. Hann kom við á ýmsum stöðum til að hitta fólk og spjalla. Hann kom oft við hjá okkur í Systraseli á sumrin, þá var tekið í spil og haft gaman af, sér í lagi þegar Margrét móðir mín var og gat.

Elsku Steini, þú áttir vissan stað við matarborðið hjá okkur í Raftahlíðinni. Þú varst einn af fjölskyldunni okkar, hvort sem það voru jól eða önnur fjölskylduboð. Oft voru miklar umræður við borðstofuborðið um ýmis mál, hver hafði sína skoðun og Steini ekki síst og hafði gaman af. Þeir frændur, Steini og Steini, höfðu gaman að rifja upp gamlar og góðar minningar úr Reykjahlíð, þar áttu þeir góða tíma.

Elsku Steini, við vitum að það var vel tekið á móti þér. Okkur þótti mjög vænt um þig og við þökkum fyrir allar góðu stundirnar. Nú ertu kominn í hina eilífu hvíld, þar sem sálin fær frið og ró.

Blessuð sé minning þín, hvíldu í friði.

Hrefna, Þorsteinn og fjölskylda.

Við vorum rækilega minnt á það að við eigum bara daginn í dag þegar Steini frændi varð bráðkvaddur á heimili sínu 4. júlí sl. Ég hitti hann síðast nokkrum dögum áður þegar ég var að fara í vinnuna og hann sat úti í góða veðrinu og Róma með honum eins og þau gerðu oft á góðviðrismorgnum. Við tókum stutt spjall eins og við vorum vanir og ég ætlaði að kíkja til hans næstu daga og skoða tölvuna eins og ég var vanur að gera öðru hverju. En því miður varð ekkert af því. Ég minnist hins vegar margra okkar stunda saman í gegnum tíðina. Strax þegar ég var lítill þá fékk ég oft að fara með Steina til ömmu og afa í Reykjahlíð á sunnudögum. Það voru skemmtilegar stundir og þar leið Steina alltaf best. Það var líka alltaf gaman að leika við kisurnar sem amma var alltaf með. Svo liðu nú árin og alltaf vorum við í góðu sambandi. Við fluttum síðan í efstu götuna í Raftahlíðinni þar sem þú varst búinn að búa í þó nokkur ár. Ég minnist ferðar okkar til Svíþjóðar á sínum tíma þegar við fórum nokkur saman úr fjölskyldunni þar sem þú naust þess vel að vera í þessum góða hópi þó tilefnið hefði vissulega mátt vera annað. Steini var alltaf boðinn og búinn að hjálpa okkur ef hann gat, hvort sem það voru múrviðgerðir á húsinu okkar, flísalagnir á baði og víða. Það var aldrei kastað til höndunum við þessa vinnu og Steini var mjög vandvirkur í allri sinni vinnu. Steini fylgdist vel með krökkunum okkar og hvað þau voru að stússa hverju sinni og spurði mikið eftir þeim. Stoppaði oft fyrir framan hús til að tala við þau. Steini hafði gaman að dýrum og hann átti lengi ketti en síðustu ár var hann alltaf með hunda sem héldu honum félagsskap og hann fór í gönguferðir á hverjum degi. Róma var síðasti hundurinn hans og hún fagnaði manni alltaf innilega þegar komið var í heimsókn eða við hittumst annars staðar.

Við viljum þakka Steina fyrir allar samverustundirnar í gegnum tíðina, vonum að honum líði betur og við vitum að tekið hefur verið vel á móti honum.

Hjörtur, Katrín, Arnar Geir, Elvar Ingi og Anna Karen.

Vinur minn Þorsteinn Björnsson er fallinn frá, miklu fyrr en mig gat órað fyrir. Síðast þegar við hittumst, fyrir nokkrum dögum, var hann glaður og reifur og við ákváðum að taka upp þráðinn í september næstkomandi, þegar báðir væru búnir að njóta góðs og vonandi gjöfuls sumars. Af þeim endurfundum verður ekki. Það var líklega fyrir sjö eða átta árum sem ég var beðinn, sem heimsóknarvinur Sauðárkrókskirkju og Rauða krossins, að heimsækja Þorstein, sem ég ekki þekkti þá, en mér var sagt að hann væri fremur ómannblendinn, færi lítið út á meðal fólks og væri auk þess bæði sérvitur og þver, og stóðust þessar lýsingar að mestu.

Er skemmst frá að segja að frá upphafi kom okkur vel saman, þó að hann í fyrstu tæki mér með nokkrum fyrirvara þá leið líklega á annað ár þar til við næðum þeim trúnaði að hann gæti rætt við mig flest það sem ég að minnsta kosti taldi að honum byggi í brjósti. Ljóst varð mér fljótt að hann tók sér mjög nærri að hafa orðið að hætta að vinna, eftir vinnuslys fyrir allmörgum árum, sem kom í veg fyrir að þessi færi og einstaki fagmaður gæti stundað iðn sína enda útilokað með laskaða öxl að stunda múrverk.

Lagðist þetta ásamt ýmsu öðru verulega þungt á hann enda þá nánast allt frá honum tekið sem ánægju veitti.

Það var alltaf gefandi og ánægjulegt að heimsækja Þorstein, við ræddum allt milli himins og jarðar, nema það sem ekki má ræða um í slíkum heimsóknum, svo sem stjórnmál. Stundum urðu langar þagnir ef hann var illa upplagður og ekkert var sem kallaði á, en flesta vankanta sem við sáum á tilverunni þóttumst við þó geta sniðið burt og leyst flesta hnúta þegar orðræðan hófst að nýju. Oftast vorum við hjartanlega sammála, en værum við það ekki fékkst niðurstaða sem báðir féllust á.

En hvort sem við þögðum saman eða spjölluðum saman um það sem efst var á baugi hverju sinni voru heimsóknir til Þorsteins góðar og gefandi fyrir mig og ég trúi og vona fyrir hann líka.

Þorstein sé ég nú fyrir mér glaðan og hressan í gönguferð með hundana sína skoppandi í kringum sig leitandi að notalegu stroki, klappi eða hlýlegu orði og snuðrandi eftir góðgæti sem leynast mundi í vösum eigandans.

Góða ferð vinur, og kærar þakkir fyrir ótal ánægjustundir og marga-marga kaffibolla. Aðstandendum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur.

Björn.